Uppfært kl. 16:30 eftir að Everton FC uppfærði fréttina til að bæta við fregnum af samningi við Aristote Nsiala.
James Wallace, 19 ára miðjumaðurinn efnilegi, var að skrifa undir nýjan eins árs samning. Hann hefur verið að gera það gott á láni hjá Stockport síðustu þrjá mánuði tímabilsins og var gerður að fyrirliða þar undir lok lánssamningsins. Hann er búinn að spila með unglingalandsliðum bæði Írlands og Englands. Það sama var upp á teningnum hjá 19 ára varnarmanninum Aristote Nsiala, sem var á láni hjá Macclesfield á tímabilinu. Hann skrifaði einnig undir samning upp á eitt ár. Wallace hefur leikið einn leik með aðalliði Everton (í Evrópukeppninni) en Nsiala hefur fengið að verma bekkinn hjá aðalliðinu.
Að öðrum leikmannamálum (óstaðfestar fréttir) má nefna að Yakubu virðist vera á leiðinni aftur til baka frá Leicester eftir að þeir náðu ekki að komast upp í úrvalsdeildina. Hann er sagður hafa viljað hærri vikulaun en Leicester voru tilbúnir að borga og þeir því snúið sér að öðrum sóknarmanni. Jafnframt er stöðugt verið að tala um að Jay Bothroyd sé við það að skrifa undir því hann sé búinn að skoða aðstöðuna hjá Everton og lítist vel á. Annar sem ítrekað hefur verið nefndur í umræðunni er Craig Mackail-Smith, 27 ára sóknarmaður með Peterborough sem skoraði 35 mörk á síðasta tímabili.
Comments are closed.