Everton – Chelsea 1-0

Everton sigraði Chelsea 1-0 í spennandi lokaumferð tímabilsins 2010/2011. Fyrir leikinn var ljóst að Fulham gæti náð af okkur 7. sætinu með sigri ef við myndum tapa í dag og tvisvar náðu Fulham forystunni á móti Arsenal en misstu það svo aftur niður í jafntefli. Þess má geta að Fulham missti jafnframt mann út af og sagt er að rauða spjaldið hafi kostað þá Fair Play sætið í Europa League, sem fer þá væntanlega til Blackpool í staðinn. Það lítur því út fyrir (þar sem Birmingham varð deildarbikarmeistari) að það verði tvö lið úr næstefstu deild Englands sem keppa í Evrópukeppninni næsta ár, eins skrýtið og það virðist.

Við vorum annars einfaldlega betri en Chelsea allt þangað til við misstum mann út af þegar Coleman gerðist sekur um tvær slæmar tæklingar með stuttu millibili. Moyes hefur líklega verið að undirbúa að skipta Coleman út af þegar hann fékk sitt seinna gula spjald fyrir glórulausa tæklingu á Mikel á 52. mínútu (fjórum mínútum eftir fyrra spjaldið), en Moyes hefur bara ekki verið nógu fljótur, grunar mig, því það var ljóst hvað í stefndi hjá Coleman. 

Eftir þetta tóku Chelsea við og stjórnuðu leiknum það sem eftir var en náðu einfaldlega ekki að nýta sér liðsmuninn, líklega þar sem Anelka og Torres fundu sig ekki í sókninni hjá þeim. Markið sem Beckford skoraði, hins vegar, á 74. mínútu var alveg ótrúlegt. Chelsea menn voru í sókn þegar Beckford nær boltanum af þeim í (eða við?) vítateig Everton og brunar upp völlinn sjálfur með boltann, fer einn og óstuddur framhjá fjórum Chelsea mönnum, tekur sprett inn í vítateiginn og smellir boltanum yfir Cech sem kom hlaupandi út á móti honum (sjá mynd). Moyes sagðist eftir leikinn hafa hugsað hvert í ósköpunum Beckford væri að fara. 🙂

Með þessu marki náði Beckford að verða markahæstur Everton leikmanna á tímabilinu (með 10 mörk ásamt Saha) á sínu fyrsta tímabili fyrir liðið. Jafnframt reyndist hann Chelsea erfiður ljár í þúfu á tímabilinu en hann skoraði einmitt jöfnunarmarkið á lokamínútunum á móti þeim á útivelli í deildinni fyrr á tímabilinu (í leik sem endaði 1-1). 

Þetta var frábær endir á tímabilinu, en einum færri tryggðum við okkur 7. sætið með þessum sigri, sem er 5. árið í röð sem við endum í topp 8. Frá Bolton leiknum fræga (lágpunktinum) í febrúar höfum við því nú unnið 7 af síðustu 12 deildarleikjum og gert 3 jafntefli. 

Það kórónaði svo frústreringu þjálfara Chelsea, Ancelotti, að hann var rekinn strax eftir leikinn þrátt fyrir að hafa unnið tvo titla með liðinu á síðasta tímabili. Úrslitin í dag þýða svo að Blackpool, Birmingham og West Ham, falla niður um deild.

En hvað um það. Nú er bara að koma rétt stemmdir til leiks á næsta tímabili og þá er aldrei að vita hvað getur gerst.

Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Heitinga 6, Jagielka 8, Distin 7, Baines 7, Coleman 5, Hibbert 6, Osman 8, Rodwell 7, Arteta 7, Beckford 9. Varamenn: Cahill 5, Anichebe 6. Hjá Chelsea var Anelka með 8, flestir með 7, tveir með 6 og Torres slakastir með 5.

Í öðrum fréttum er það helst að vara- og unglingalið Everton er komið í úrslit í Liverpool Senior cup eftir að hafa unnið Liverpool 4-1 á heimavelli þeirra. Ekki merkileg keppni svo sem en aldrei leiðinlegt að vinna Liverpool. 🙂 Markaskorarar voru Dier, Baxter (með 2) og Akpan. Leikið verður við Southport í úrslitunum.

Comments are closed.