Horft til baka: tímabilið 2010/11

Nú er tímabilinu því sem næst lokið, aðeins einn leikur eftir og rétt að líta aðeins yfir farinn veg. Orðið ‘brokkgengt’ lýsir tímabilinu einna best en þetta er búið að vera eins og rússibani upp og niður — gríðarlega sætir sigrar og sár töp í bland. Það voru miklar væntingar til liðsins í upphafi enda þó nokkrir sem höfðu spáð okkur mikilli velgengni fyrir tímabilið (til dæmis Alex Ferguson). Okkur gengur hins vegar alltaf best þegar væntingarnar eru litlar og við virðumst alltaf eflast við mótlæti. Það var því kannski dæmigert að við skyldum byrja tímabilið mjög illa (sem er nokkuð sem hefur loðað við okkur undanfarin ár) og enda það vel þegar allar væntingar eru horfnar og lykilmenn meiddir.

Við lékum fyrstu tvo mánuðina í deildinni án þess að sigra einn einasta leik og lengi vel leit út fyrir að við myndum enda tímabilið í bullandi fallbaráttu. Það var ekki fyrr en í október sem við náðum að rétta okkur af með þremur sigurleikjum (Birmingham úti, Liverpool heima og Stoke heima) og einu jafntefli (Tottenham úti). Nóvember- og desember-mánuður reyndust jafnteflismánuðir (1 sigur, 6 jafntefli og 2 töp) en í janúar og febrúar mjakaðist þetta í rétta átt (4 sigrar, 3 jafntefli og 3 töp). Eitt af þessum töpum var þó gegn Bolton (13. feb), sem var ákveðinn lágpunktur í spilamennskunni hjá okkur á tímabilinu en það reyndist vera sparkið í rassinn sem við sárlega þurftum á að halda og greinilegt að leikmenn voru staðráðnir í að snúa við blaðinu eftir þann leik. Við gerðum það svo sannarlega með því að slá út Chelsea úr FA bikarnum á þeirra heimavelli og í leikjum tímabilsins eftir þann leik höfum við sigrað 6, gert 3 jafntefli og aðeins tapað tveimur, annars vegar í sorglegum leik gegn Reading og hins vegar gegn nýkrýndum meisturunum á Old Trafford.

Við stóðum okkur vel á tímabilinu gegn liðum í efri hlutanum en náðum ekki upp jafn góðri stemmingu gegn botnliðunum. Við tókum til dæmis 6 stig af Manchester City, 4 af Liverpool, 4 af Tottenham og erum taplausir á móti Chelsea í þremur leikjum (fjórði leikurinn eftir), þar af einn FA bikarleikur þar sem við slógum þá út. Lágpunktarnir voru svo tapleikir í bikarleikjum við Reading (FA) og Brentford (Carling), 2-0 tap fyrir Bolton (eins og áður sagði) og 4-1 tap á útivelli gegn West Brom.

Það er í raun ótrúlegt þegar maður hugsar til þess að við skulum vera í 7. sæti fyrir síðasta leikinn þegar litið er til þess hversu illa okkur gekk á fyrri hluta tímabilsins, þess að við höfum alls ekki fundið okkur í sókninni (nema á stuttum köflum) og þess hversu margir lykilmenn hafa meiðst á tímabilinu. Um tíma leit út fyrir að við þyrftum að grípa með okkur menn af næstu strætóstoppistöð á leið á leikinn til að geta mannað bekkinn hjá okkur. Það er þó mjög ánægjulegt að hugsa til þess að Moyes tók við klúbbnum í árlegri fallbaráttu fyrir um áratug síðan, sneri við skútunni og nú erum við ósátt við að lenda í 7. sæti.

Val á (meðal annars) leikmanni ársins fór fram á dögunum og hreppti Leighton Baines þann heiður í formlegri kosningu stuðningsmanna. Hann var einnig valinn "leikmaður leikmannanna", en þetta tvennt er í takt við val Facebook hópsins Everton á Íslandi þar sem 60% atkvæða féllu honum þar í skaut og enginn annar komst nálægt honum. Baines átti einnig mark tímabilsins þegar hann jafnaði beint úr aukaspyrnu í FA bikarnum gegn Chelsea á útivelli (sem við unnum svo í vítaspyrnukeppni, eins og fram hefur komið). Coleman var valinn ungliði ársins og sýndi að ekki þarf alltaf að eyða miklum peningi til að fá góða leikmenn. Margir aðrir leikmenn áttu mjög góða spretti, Saha raðaði inn mörkunum um tíma og meiddist svo, Cahill var í fantaformi þangað til hann meiddist í vináttuleik með landsliði sínu í Asíubikarnum og Osman átti frábæran lokasprett á tímabilinu en hann hefur aldeilis blómstrað eftir að Pienaar var seldur. Distin og Jagielka hafa verið mjög traustir í vörninni sem og Neville, Howard hefur verið góður í markinu og Beckford hefur verið okkur nokkuð drjúgur, vantar bara eitt mark til að komast upp í tveggja stafa markatölu á sínu fyrsta tímabili með liðinu. Bitlaus sókn hefur annars verið okkar Akkilesarhæll á tímabilinu (Saha 10, Cahill 9, Beckford 9, Baines 7, Coleman 6, Osman 5) og meiðsli hafa haldið aftur af mörgum, til dæmis Arteta, Fellaini, Saha og Rodwell. Anichebe er svo jafnframt enn að reyna að ná sér á strik eftir löng og erfið meiðsli.

Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr sumarinu, en það virðist stefna í það að Yakubu, Vaughan, Yobo og Mucha verði líklega seldir. Kannski kemur einnig tilboð í einhvern annan sem ekki er hægt að neita en Moyes er líklegur til að geta fundið þeim peningum góðan farveg (sbr. Lescott). Eins og búast mátti við eru fréttamiðlarnir komnir á fullt í orðrómum um leikmannaskipti enda farnir að telja niður klukkutímana þangað til leikmannamarkaður opnar. Eftirfarandi leikmenn hafa nýlega verið orðaðir við Everton (og sumir ekki í fyrsta skipti):

Bradley JohnsonCharlie AdamChris EaglesFabio BoriniGervinhoJason PuncheonJay BothroydJoey BartonKeiren WestwoodKevin de BruyneShane LongSol BambaStephane MbiaYannick DjaloYoussouf Mulumbu.

Það er erfitt að meta hvort nokkuð er til í þessum sögusögnum en eins og Moyes hefur sagt: Takið öllum fréttum um leikmenn með fyrirvara ef þær koma ekki af mínum vörum.

Að lokum má geta þess að tveir ungliðar voru látnir fara frá Everton á dögunum. Nathan Craig og Luke Dobie (18 ára), báðir miðjmenn sem fengu ekki framlengdan samning hjá Everton. Sá síðarnefndi (Luke Dobie), er kominn á samning hjá Middlesbrough, skv. fréttum.

Comments are closed.