West Brom – Everton 1-0

Við mættum spræku liði West Brom í dag í fjörugum leik sem hefði geta gefið af sér amk. tvö ef ekki þrjú mörk hjá hvoru liði (og það bara í fyrri hálfleik). Ég minntist á það í umfjöllun um leikinn í gær að við þyrftum að hafa góðar gætur á Odemwingie en hann var mjög líflegur og var allt í öllu hjá West Brom, lagði upp markið fyrir Mulubmu strax á 10. mínútu og skapaði sjálfum sér og öðrum nokkur færi. Markið hjá þeim var vel útfært, stungusending gegnum vörnina á Odemwingie sem lék á Distin og lagði upp færi fyrir Mulumbu sem þurfti rétt að stinga út fæti til að setja boltann inn.

Hjá okkur (allavega í fyrri hálfleik) var það aftur á móti Anichebe sem skapaði eða átti stóran hlut í nær öllum færum Everton (nema einn skalla frá Heitinga), í eitt skipti þar sem Anichebe tókst að snúa laglega á varnarmann West Brom og skjóta sér inn fyrir vörnina og skapa sér dauðafæri, en markvörður West Brom tók á honum stóra sínum og varði með fætinum. Það er gott að sjá líf í Anichebe og stígandann í leik hans síðustu vikur, en margir voru búnir að afskrifa hann með öllu.

Seinni hálfleikur var svipaður og sá fyrri en færin og undirbúningurinn dreifðist á fleiri menn, en okkur tókst ekki að jafna þrátt fyrir margar tilraunir og hefðum getað fengið á okkur fleiri mörk en Howard stóð sig vel í markinu og Hibbert bjargaði á línu. 

Moyes blés til sóknar á 62. mínútu með því að setja Beckford inn á fyrir Coleman, og Bily inn á fyrir Neville á 71. mínútu en Bily hafði varla verið inn á í 5 mínútur þegar hann lét reka sig út af (sjá mynd) og eftir það misstum við svolítið bitið út sóknarleiknum.

Á heildina litið var þetta sanngjarn sigur hjá Roy Hodgson, sem er aldeilis búinn að hrista upp í liði West Brom og stýra þeim úr bullandi fallbaráttu upp í efri helming deildarinnar.

Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Heitinga 6, Jagielka 6, Distin 5, Hibbert 6, Neville 6, Baines 6, Coleman 5, Osman 7, Arteta 6, Anichebe 7. Varamenn: Bily 4, Rodwell 5, Beckford 5. Hjá West Brom fengu 
markvörðurinn og Mulumbu 8, aðrir sexur og sjöur. 
Í lokin, yfirlit yfir þá leikmenn sem hafa verið orðaðir við Everton nýlega, sem eru með lausan samning í sumar:

Sebastian Larsson, 25 ára varnarmaður og landsliðsmaður Svíþjóðar. Jay Bothroyd, leikmaður Cardiff og sóknarmaður með enska landsliðinu. David Vaughan, miðjumaður Blackpool, er sagður vilja spila í Úrvalsdeildinni en Blackpool er nú í fallsæti.

Comments are closed.