Það er hörkuleikur á laugardaginn (kl. 14:00) þegar Everton tekur á móti Manchester City. Við höfum náð mjög góðum árangri á móti þeim undanfarið en síðan úrvalsdeildin var stofnuð höfum við leikið við þá 7 sinnum og unnið 6 af þeim leikjum og aðeins tapað einum. Frá upphafi höfum við spilað rétt rúma 80 leiki við þá á heimavelli og unnið 50% þeirra leikja (29% enda með jafntefli, 21% með tapi).
Fyrri leik liðanna á tímabilinu lauk með 2-1 sigri Everton í Manchester í spennandi leik þar sem Everton menn skoruðu öll mörkin (Cahill og Baines á fyrstu 18 mínútunum og svo Jagielka með sjálfsmark undir lokin). Anichebe lét reka sig út af í stöðunni 2-0 og það var því taugatrekkjandi síðasti hálftíminn þar sem við spiluðum einum færri — þangað til undir lokin þegar Toure var rekinn út af líka fyrir City. Bæði lið eru á svipuðu róli í formtöflunni (síðustu 6 leikir), City í 4. sæti með 12 stig og við í því 6. með stiginu færri.
Ekki er ólíklegt að Cahill og Arteta fái að spreyta sig aftur en þeir voru báðir í byrjunarliðinu gegn Wigan. Saha og Fellaini eru, eftir sem áður, meiddir, og óvíst með Heitinga. Hjá City eru Tevez, Boateng, Richards og Given meiddir.
Í öðrum fréttum er það að Phil Neville var kjörinn Everton leikmaður apríl mánaðar. Hann skoraði á dögunum, fyrsta markið sitt síðustu þrjú árin og stóð sig með prýði á miðjunni í fjarveru fastamanna.
Ungliðarnir okkar eru líka að gera það gott, sem fyrr. Rodwell og Vaughan voru valdir í 40 manna hóp U21 árs liðs Englendinga fyrir Evrópukeppni landsliða. Þeir leika gegn Spáni (12. júní), Úkraínu (15. júní) og Tékklandi (19. júní). Einnig var Hallam ‘Rooney’ Hope var að skora aftur, nú fyrir enska U17 ára liðið gegn Frökkum í 2-2 jafnteflisleik, fyrsta leik þeirra í Evrópukeppni landsliða U17. Everton ungliðinn John Lundstram var einnig inn á í 80 mínútur og þótti standa sig vel. Næsti leikur þeirra er á föstudaginn gegn Danmörku.
Svo var 26-(kven)manna hópur kvennaliðs Englands fyrir leikinn við Svía 17. maí (síðasti leikur fyrir HM) var tilkynntur á dögunum. 6 leikmenn Everton eru þar: Brown (mark), Johnson og Unitt (vörn), Scott og Williams (miðju) og Dowie (sókn).
Svo má ekki gleyma nýjum útibúningi sem er kominn í forsölu gegnum EvertonFc síðuna.
En þá að leikmanna-kaupum og sölum: Óvíst er hvað verður um Yakubu fyrst Leiceister náði ekki að komast í umspil um sæti í Úrvalsdeildinni, þrátt fyrir að Yakubu hafi skorað 10 mörk í 19 leikjum fyrir þá. Sven Eriksson þjálfari Leicester sagðist ekki viss hvort þeir myndu ná að klófesta Yakubu en spurning hvort það sé vegna þess að Yabuku setji það fyrir sig að þeir komust ekki upp. Svo virðist þó ekki vera. James Vaughan virðist einnig vera á leiðinni í burtu, eftir að hafa skorað 9 mörk sem hjálpaði Crystal Palace að forðast fall. Norwich City hefur einnig verið nefnt vilja fá hann en þeir spila í úrvalsdeildinni á næsta ári.
Tim Howard minntist á það við fréttamenn að Everton myndi kaupa leikmenn í sumar. Kannski er það bara óskhyggja en sagt var í fréttum að David Moyes hafi verið á vellinum þegar Espanyol spilaði á dögunum til að fylgjast með Pablo Daniel Osvaldo (25 ára argentínskur sóknarmaður). Samkvæmt öðrum fréttum voru Alex Ferguson, Harry Redknapp og Mark Hughes víst einnig á leiknum og sagt var að Stoke hefði líka áhuga. Osvaldo lagði upp mark í leiknum og skoraði sjálfur eitt en hann er metinn á 12M. Sumir vildu reyndar meina að Moyes hefði verið að skoða 25 ára varnarmanninn fjölhæfa Javi Chica Torres sem er víst með lausan samning bráðlega, sem gerir hann líklegri en Osvaldo.
Einnig var nefnt að Moyes væri að skoða ísraelska miðjumanninn Beram Kayal, sem spilar fyrir Celtic. Samningur Kayal við Celtic rennur út í sumar.
Comments are closed.