Nú sækjum við Wigan heim á DW Stadium á morgun (lau) kl. 14:00. Wigan er í fallsæti í deildinni og eru í 12. sæti formtöflunnar með 7 stig af 18 mögulegum í síðustu 6 leikjum (við í 4. með 11 stig). Við höfum aðeins spilað 12 leiki við Wigan frá upphafi og hefur gengið mjög vel: unnið 7 en þeir bara tvisvar (þrisvar gert jafntefli). Við erum taplausir í síðustu fjórum leikjum við þá (þrír sigrar, eitt jafntefli). Sá árangur kemur þó til með að skipta litlu á morgun því þeir eru í bullandi fallbaráttu, misstu niður tveggja marka forskot í síðustu umferð (gegn Sunderland) og koma örugglega banhungraðir til leiks. Kannski svipað og Úlfarnir um daginn (sem við afgreiddum í fyrri hálfleik 0-3). 🙂
Það er á brattann að sækja með að ná Evrópusæti, eins og ljóst hefur verið lengi, sérstaklega þar sem Liverpool náði alveg óvænt að vinna Birmingham í síðustu umferð. Ekki þó öll von úti, við erum 5 stigum á eftir þeim en bæði lið eiga 4 leiki eftir. Næstu leikir okkar (eftir Wigan leikinn) eru: Man City (heima), West Brom (úti) og Chelsea (heima). Liverpool, til samanburðar, á eftir: Newcastle (heima), Fulham (úti), Tottenham (heima) og Aston Villa (úti).
Arteta er sagður eiga séns í leikinn eftir nokkra fjarveru en óvíst með Heitinga og Cahill verður líklega notaður sparlega. Anichebe aftur á móti er líklega orðinn góður, eins og kemur fram í greininni. Fellaini og Saha eru eftir sem áður meiddir en Wigan er með fullskipað lið.
Af leikmannamálum er það eitt nýtt að frétta að Moyes var sagður hafa áhuga á Billy Jones, 24 ára varnarmanni hjá Preston, en hann er með lausan samning í lok tímabils og Preston var að falla niður um deild.
Eins og í síðustu viku ætla nokkrir að hittast á Replay barnum á Grensásvegi til að horfa á leikinn. Endilega látið sjá ykkur.
Comments are closed.