Framtíðin er björt

Framtíðin er björt hjá félaginu ef marka má Everton unglingaliðin sem hafa verið að gera það gott á tímabilinu.

U10 ára liðið tók á dögunum þátt í Mundialito mótinu í Portúgal og unnu alla 6 leikina sína í riðlakeppninni með markatölunni 46-6! Í fjórðungsúrslitum mættu þeir Almonte Balompie og sigruðu 4-1 en duttu svo út í undanúrslitum þegar þeir töpuðu fyrir Sevilla (sem vann þessa keppni í fyrra). Flott mót hjá guttunum.

U18 liðið hefur líka verið á mikilli siglingu, en þeir tóku á móti Liverpool á Finch Farm um helgina og rústuðu þeim algjörlega, 4-0. Eric Dier, Anton Forrester, Hallam Hope (næsti Wayne Rooney?), og John Lundstram skoruðu mörkin. Hope (til vinstri á mynd) og Lundstram voru svo nýlega valdir í 18 manna hóp U17 ára liðs Englendinga.

Everton tók með sigrinum efsta sætið í riðlinum af Liverpool en efsta liðið í hverjum riðli (A, B, C og D) fer áfram í undanúrslit um Englands-meistaratitilinn. Liverpool stendur þó örlítið betur að vígi þó, skv. Everton FC vefsíðunni því þeir eru aðeins þremur stigum á eftir Everton í riðlinum* en eiga eftir að spila þrjá leiki — en reyndar á stuttum tíma (á meðan Everton á bara einn leik eftir). Við getum sett góða pressu á þá ef við vinnum leikinn við Leeds United um næstu helgi því þá verða þeir að vinna amk. tvo af síðustu þremur leikjunum sínum til að ná upp fyrir okkur aftur en þeir eiga leiki við Sheffield United  og einnig heima- og útileik gegn Wolves. Ath: Liðin leika heima og heiman og svo eru 10 leikir milli riðla áður en til útsláttakeppni kemur (sjá nánar). Greinin sem ég vísaði í hér áðan segir reyndar að við höfum náð 6 stiga forystu (en ekki 3ja), sem myndi þýða að Liverpool þarf að vinna alla leikina þrjá (að því gefnu að við vinnum Leeds) — en mér sýnist það sé ekki rétt hjá þeim. Leeds eru í neðri hluta D riðils.

Þessi árangur er líka örlítið sætara þegar litið er til þess að unglingastefna Everton er að finna og ala upp efnilega leikmenn í eða við Liverpool borg á meðan sum lið #hóst#Liverpool#hóst# eru í því að kaupa upp efnilega leikmenn víðs vegar um Bretland og Evrópu. Nú er bara að sjá hvað gerist um næstu helgi og vonandi fáum við að sjá afraksturinn á komandi misserum í aðalliði Everton.

Comments are closed.