Man Utd – Everton 1-0

 

Fyrsti tapleikurinn í 7 deildarleikjum í röð staðreynd. Osman fékk eitt hálffæri á fyrstu 10 mínútunum en United réði svo lögum og lofum í fyrri hálfleik og hefði hæglega getað sett inn nokkur mörk, ef ekki hefði verið fyrir fantavörn Distin, Jagielka og markvörslu Howard sem og allra sem lögðu hönd á plóginn gengum allan leikinn. Seinni hálfleikurinn batnaði nokkuð hjá okkur þegar Cahill og Anichebe komu inn á fyrir Bily og Beckford, en þeir síðarnefndu áttu báðir arfaslakan leik, sérstaklega Bily.

Það leit út fyrir að varnarleikurinn myndi verða til þess að við yrðum annað liðið á tímabilinu til að ná stigi af væntanlegum Englandsmeisturum á þeirra heimavelli en þeim gekk ekkert að finna netið, til dæmis þegar Nani skaut fyrir nánast opnu marki í eigin leikmannn (Hernandez) sem lá inni í vítateig (sjá mynd). Við vorum ekki langt frá því að stela sigrinum í lokinn þegar Rodwell átti fast skot á markið og boltinn breytti stefnu af varnarmann United (Evans?). Van der Saar þurfti þá að taka á honum stóra sínum til að verja í horn en boltinn stefndi annars beint í stöngina og inn.

Það voru reyndar líka tvö tilvik (eitt í hvorum hálfleik) þar sem hægt hefði verið að dæma víti á United en tölfræðilega séð var það ómögulegt þegar litið er til þess að Everton fær nánast aldrei víti og United fær heldur nánast aldrei dæmt á sig víti á Old Trafford. 🙂 Moyes sagði reyndar eftir leikinn að honum fannst að ekki væri um víti að ræða, en sitt sýnist náttúrulega hverjum.

Það reyndist erfitt fyrir United að koma boltanum í netið og þurftu þeir hjálp til að skora markið þegar fyrirgjöfin breytti um stefnu af varnarmanni Everton sem gerði það að verkum að Hernandez fékk fínan skallabolta á 83. mínútu og náði loks að setja hann inn. Það var greinilegt að United menn voru guðslifandi fegnir að hafa skorað og lágu eftir þetta á boltanum eins og ormar á gulli og biðu taugaveiklaðir eftir því að dómarinn flautaði leikinn af.

Því verður þó ekki neitað að þetta var mjög sanngjarn sigur United og jafnvel hefði kannski verið ósanngjarnt ef við hefðum tekið af þeim stig, sérstaklega miðað við fyrri hálfleikinn. Það er þó ekki laust við að manni finnist ósanngjarnt að fá ekki eitt stig bara fyrir varnarleikinn :). Manchester United sýndi það þó glögglega af hverju þeir eru efstir í deildinni mestmegnis á heimaleikjunum (hafa aðeins unnið einu sinni oftar á útivelli á tímabilinu en við til dæmis). Við þurfum því að bíða enn eitt ár eftir að sigra þá á Old Trafford.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Jagielka 7, Hibbert 7, Distin 7, Baines 6, Coleman 6, Bily 4, Neville 6, Osman 5, Rodwell 6, Beckford 4. Varamenn: Cahill 6, Anichebe 6, Gueye 6. Hjá United voru Rooney, Valenica, Anderson og Hernandez með 7 og aðrir 6 (nema Gibson með 5).

Og í lokin: Umræður um leikmannamál sem gleymdust í síðustu færslu (og nokkrir sem duttu inn nýlega meðan beðið var eftir viðgerð á Everton.is síðunni): Shane Long (24 ára sóknarmaður Reading), Matthieu Delpierre (29 ára varnarmaður Stuttgart) og Miroslav Klose (32 ára sóknarmaður Bayern München) er með lausan samning í lok tímabils, sem að sjálfsögðu þýðir að hann var orðaður við Everton. Aðrir sem nefndir hafa verið: Nikica Jelavic (25 ára sóknarmaður Glasgow Rangers) og Tomasz Kuszczak (29 ára markvörður United).

 

 

Comments are closed.