Everton – Blackburn 2-0

Oft á tímabilinu höfum við tekist á við og yfirspilað lakari lið, algjörlega átt fyrsta hálftímann af leiknum en fengið á okkur mark sem slær okkur út af laginu. En ekki í dag. Í dag ýttum við slöku liði Blackburn til hliðar og hirtum öll þrjú stigin án þess að þurfa að hafa of mikið fyrir því. 

Það var gott að sjá Coleman og Rodwell á bekknum eftir fjarveru vegna meiðsla en að sjálfsögðu meiddist einhver í staðinn þegar Heitinga tognaði á lærvöðva eftir 15 mínútur og var skipt út af fyrir Rodwell.

Við áttum fyrri hálfleikinn allan þó að við næðum ekki að komast í nógu góð færi til að setja boltann inn. Við vorum með boltann 60% af fyrri hálfleik og áttum 6 skot að marki (þar af helming innan rammans). Blackburn átti ekki einu sinni skot _að_ marki í fyrri hálfleik, hvað þá á markið.

Seinni hálfleikurinn byrjaði vel og það tók ekki nema 9 mínútur fyrir Osman, besta leikmann Everton í leiknum, að finna netið með flottu skoti (sjá mynd) sem breytti aðeins stefnu af varnarmanni Blackburn og endaði í netinu.

Þetta var sama lið sem byrjaði leikinn og á móti Wolves (mínus Rodwell fyrir Heitinga eftir 15 mín) en Coleman kom svo inn á í seinni hálfleik fyrir Gueye sem var vel fagnað fyrir ágæta frammistöðu. Coleman hafði aðeins verið inn á í nokkrar mínútur þegar hann var klipptur niður inni í vítateig og Baines klikkaði ekki á vítinu, frekar en fyrri daginn. Áhorfendur á Goodison Park létu þó vel í sér heyra þegar Baines stillti boltanum upp því þeir vildu að Hibbert fengi að spreyta sig. 🙂 Heyrðu, bíddu… ég var greinilega ekki að fylgjast með: fengum við _annað_ víti á tímabilinu?!? 🙂

Blackburn átti einn góðan séns eftir þetta en annars var þetta bara formsatriði að klára leikinn. 2-0 sigur staðreynd. 1 stig í Liverpool í 6. sæti. Aldrei að vita hvað gerist á morgun.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Heitinga 5 (meiddist eftir 15 mín), Jagielka 7, Hibbert 7, Baines 8, Distin 7, Bily 7, Osman 9, Neville 7, Gueye 7, Beckford 7. Varamenn: Coleman 6, Rodwell 7, Vellios 5.

Comments are closed.