Wolves – Everton 0-3

Úlfarnir fengu aldeilis að kenna á því hvernig leikir tímabilsins eru búnir að vera hjá okkur. Þeir áttu fyrri hluta fyrri hálfleiks algjörlega, fengu fullt af færum, voru miklu betri og við oft í nauðvörn — en svo rjúkum við upp og skorum í fyrsta almennilega færinu okkar gegn gangi leiksins. Distin og Jagielka voru óvenjulega mistækir í vörninni til að byrja með og maður var með lífið í lúkunum um að við myndum enn á ný lenda undir enda var ágangurinn á mark Everton töluverður, t.d. bjargaði Osman á línu og Howard þurfti oft að taka á honum stóra sínum. Osman lagði síðar upp fyrsta markið (á 21. mín) þegar hann lék á leikmann Wolves og sendi frábæra sendingu inn í teig þar sem Beckford stökk hæst og hamraði boltann inn með glæsilegum skalla. Úlfarnir jöfnuðu næstum því strax en þar við sat þar til (stuttu eftir að Wolves fengu næstum á sig klaufamark) að Neville á 39. mín negldi boltann inn "í gegnum 18 leikmenn" eins og Mick McCarthy, þjálfir Wolves, orðaði það. Moyes sagði eftir leikinn að hann hefði hugsað hvern í andsk. Neville væri að reyna að gefa á. 🙂 Þriðja markið kom svo frá Bily sem pikkaði upp boltann eftir misskilning Wolves manna, hljóp með hann í átt að vítateig og dúndraði honum inn af löngu færi. Þrjú stórglæsileg mörk, hefðu getað verið fleiri og bara formsatriði að klára varnarvinnuna í seinni hálfleiknum. Bily (og reyndar Anichebe) átti svo að skora þegar 10 mínútur voru eftir en Bily finnst greinilega auðveldara að skora langt fyrir utan teig en rétt við marklínuna. 🙂 Kom ekki að sök, flottur útisigur í höfn og við ennþá taplausir í 6 og komnir upp í 2. sæti formtöflunnar með aðeins Chelsea ofar.

Liðsuppstillingin í leiknum var 4-5-1 eftir því sem ég best sá, með Baines, Distin, Jags og Hibbo í vörninni. Á miðjunni voru Bily, Heitinga, Neville, Gueye og Osman sem studdi við Beckford frammi. Þetta hefur gengið ágætlega í undanförnum leikjum og virðist ætla að gera það áfram. Vellios fékk svo annað tækifæri og líka ungliðinn Adam Forshaw (sem skoraði glæsilega markið á móti varaliði Liverpool á dögunum).

Gueye fékk að byrja inn á í fyrsta sinn með aðalliði Everton. Hann stóð sig bara ágætlega, náði að skapa svolítinn usla, sérstaklega þegar hann tók sprettinn inn fyrir eftir sendingu Jagielka, að mig minnir, en skotið ekki nógu gott einn á móti markverði. Hefði verið flott fyrir hann að setja inn eitt. 🙂

Wolves var búið að sigra Manchester United, City og Chelsea á heimavelli en Everton liðið reyndist þeim einfaldlega of sterkt. Everton er jafnframt fyrsta úrvalsdeildarliðið á tímabilinu (sagði þulurinn) sem kemst 3-0 yfir og sigrar leikinn — sem er kannski til marks um það hvað tímabilið er búið að vera skrýtið.

Einkunnir Sky Sports: Howard 8, Heitinga 7, Jagielka 8, Hibbert 7, Baines 8, Distin 7, Bily 8, Osman 8, Neville 9, Gueye 7, Beckford 7. Varamenn: Forshaw 6, Anichebe 6, Vellios 6. Hjá Wolves voru allir með 6 nema Jarvis, Henry og Guedioura sem fengu 7.

Í öðrum fréttum má geta þess að Seamus Coleman komst í lokahópinn sem valið stendur um þegar PFA ungliði ársins verður kjörinn, ásamt Gareth Bale, Jack Wilshere, Nani, Joe Hart, Samir Nasri og Javier Hernandez. Glæsilegt framtak hjá honum og á hann það vel skilið. Ekki slæmt fyrir mann sem kom frá Írlandi fyrir smáaura!

Og talandi um óslípaða demanta… Fréttir bárust af því að Moyes hefði boðið í annan slíkan, Dan  Burn (18 ára) hjá Darlington. Upphaflega átti það ekki að fréttast að hann væri að fylgjast með leikmanninum spila en hann var spottaður. 

Comments are closed.