Everton og Aston villa áttust við í dag í fjörugum leik sem endaði í 2-2 jafntefli.
Við fengum hér frábært tækifæri til að minnka bilið á milli okkar og liðanna fyrir ofan okkur þar sem Tottenham (og reyndar Chelsea og Arsenal) gerðu jafntefli og bæði Liverpool og Bolton töpuðu gegn liðum í botnslagnum. Okkur var það þó ekki ætlað í þessum leik.
Bily gerði mjög vel í fyrri hálfleik þegar hann vann boltann og sendi Osman inn fyrir sem lék vel á varnarmenn Villa og skoraði fram hjá Friedel (sjá mynd). Þar við sat í fyrri hálfleik, þrátt fyrir mörg marktækifæri. Aston Villa byrjaði síðari hálfleikinn af krafti og jafnaði eftir flott samspil. Það hefði svo verið gaman að sjá hvernig leikurinn hefði þróast ef Beckford hefði fengið dæmt markið sem hann skoraði í stað þess að við lentum undir 1-2 tíu sekúndum síðar (!) eftir það sem mér sýndist einfaldlega vera rangstaða hjá Aston Villa. 🙁
Það má kannski segja að réttlætinu hafi verið fullnægt með vítaspyrnunni sem við fengum í síðari hálfleik sem Baines skoraði úr og jafnaði leikinn. Fyrsta vítaspyrnan sem við fáum á tímabilinu, sem er með ólíkindum — sérstaklega þegar litið er til þess að það voru mörg önnur mun betri tilefni til að gefa vítaspyrnu en í þetta skiptið.
Til marks um umfang meiðsla í herbúðum Everton hafði enginn leikmaður á bekknum leikið úrvalsdeildarleik áður (Gueye hafði reyndar komið inn á sem varamaður á tímabilinu en það var í bikarleik gegn Scunthorpe) og tveir markahæstu menn Everton voru ekki leikfærir (Saha og Cahill). Ég verð þó að viðurkenna að það var gaman að sjá Gueye og Vellios fá tækifæri en þeir hafa báðir verið að standa sig vel undanfarið, Gueye skoraði mark með U21 liði Frakklands og Vellios er búinn að vera mjög heitur með varaliðinu, bæði við að skora og leggja upp mörk.
En jafnteflið er staðreynd og ekki hægt að líta öðruvísi á þetta en svo að hér hafi tveimur stigum einfaldlega verið rænt af okkur. Stigið sem við fengum nægði okkur þó til að komast í 7. sæti deildarinnar, 4 stigum á eftir Liverpool. Sjö leikir eftir (21 stig). Það getur allt gerst. 🙂
Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Distin 7, Jagielka 7, Baines 7, Neville 7, Hibbert 7, Heitinga 7, Coleman 7, Bily 7, Osman 8, Beckford 7. Varamenn: Gueye 6, Vellios 5. Hjá Villa fengu markvörðurinn Friedel og Downing 8, fimm aðrir 7. Aðrir voru lægri (Heskey með 4).
Comments are closed.