Everton – Fulham 2-1

Flottur sigur í höfn. Það var klassamunur á liðunum í fyrri hálfleik og ég stóð mig að því að hugsa að þegar Fulham leikmaður datt, var hann yfirleitt að reyna aðeins of mikið, en þegar Everton leikmaður datt var það vegna þess að honum var hrint. Kannski full harkalegt mat, en ég var mjög ánægður með spilamennskuna í fyrri hálfleik. Glæsilegt skallamark hjá Coleman (sjá mynd), minnsta manninum á vellinum, og vel gert hjá Osman líka í aðdragandanum og stoðsendingunni en ég held að Osman sé mjög vanmetinn leikmaður.

Í seinni hálfleik komu Fulham grimmir til leiks, enda þekktir fyrir það. Ef bara seinni hálfleikir giltu til stigagjafar væru Fulham í 4. sæti deildarinnar fyrir leikinn. Það var þó glæsileg aukaspyrna hjá Saha sem gerði útslagið, en Rodwell fiskaði hana vel. Dempsey náði að minnka muninn á 62. mínútu og síðasti þriðjungurinn reyndi pínulítið á taugarnar. Við vorum þó betri aðilinn í leiknum á heildina litið og áttum mun betri færi og sigurinn skilið. Ef Dempsey hefði ekki minnkað muninn værum við í 7. sæti, marki á undan Bolton. Kvarta þó ekki yfir 8. sætinu eftir það sem á undan er gengið.

18. tap Fulham í deildinni á Goodison Park er því staðreynd. Eini gallinn við leikinn var að Saha meiddist eina ferðina enn. Ég held hann sé á góðri leið með að hljóta titilinn óheppnasti maðurinn í deildinni þar sem hann var á leiðinni út af þegar hann lenti illa; varamaðurinn (Beckford) stóð á hliðarlínunni og beið eftir að koma inn á fyrir hann. Það var eins gott að Cahill virðist nálægt því að vera búinn að jafna sig að mestu og náði því að byrja inn á.

En tíunda ár Moyes við stjórnvölinn byrjar með sigri og er það vel. 

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Jagielka 6, Hibbert 6, Distin 6, Coleman 6, Baines 8, Neville 6, Osman 6, Cahill 6, Rodwell 6 og Saha (jú, þú giskaðir á það…) 6. Varamenn: Heitinga 6, Bily 5, Beckford n/a. Fulham fengu 6 yfir línuna líka, nema Salcido, Dempsey og Duff sem fengu 7. Eiður kom inn á á 84. mínútu, snerti boltann fyrst á 92. mínútu og fékk 5 í einkunn.

Comments are closed.