Það er leikur við Birmingham á heimavelli kl. 20:00 á morgun (miðv.). Í hinum deildarleiknum við þá á tímabilinu stöðvuðum við sigurgöngu þeirra á heimavelli sínum með tveimur mörkum gegn engu (sjá mynd). Þeir vilja örugglega hefna þess og mæta grimmir til leiks, sérstaklega í ljósi þess að þeir töpuðu fyrir West Brom 3-1 strax eftir að hafa unnið deildarbikarinn og færðust við það í fallsæti.
Við aftur á móti erum að vonast eftir þriðja sigrinum í deildinni í röð, eftir að hafa lagt Newcastle úti og Sunderland heima. Okkur hefur gengið ágætlega á móti Birmingham í úrvalsdeildinni á undanförnum tímabilum: Unnið 5, gert 7 jafntefli og aðeins einu sinni tapað (á útivelli tímabilið 03/’04) ef frá er skilinn FA bikarleikurinn um árið. Samtals gegn þeim: 61-35-26 (Everton í vil). Við getum með sigri náð 8. sæti og þá eru bara 3 stig í 6. sætið en til merkis um það hvað deildin er skrýtin þetta tímabilið þá eru aðeins 6 stig í fallsætið.
Neville er líklega meiddur og Anichebe mögulega líka. Cahill og Fellaini eru eftir sem áður fjarverandi. Þrír meiddir hjá þeim og sex tæpir.
Í öðrum fréttum er það helst að Distan mun líklega verið boðinn nýr samningur í lok tímabils. Hann verður brátt 34 ára og með lausan samning ári eftir að þessu tímabili lýkur. Hann er búinn að vera mjög traustur í ár og ekkert meiðst og hefur séð til þess að við söknuðum Lescott lítið sem ekkert.
Félagi hans í vörninni, Jagielka, var líka í fréttum en hann sagðist (eftir að skora sigurmarkið gegn Newcastle) enn vera í mínus einum í markatölu (eftir tvö sjálfsmörk á tímabilinu). Nægur tími til að bæta upp fyrir það. 🙂
Koma svo. Klára tímabilið með stæl með Arteta í fararbroddi!
Comments are closed.