Newcastle vs. Everton

Á laugardaginn kl. 15:00 er leikur við Newcastle á útivelli. Tölfræðin er ekki með okkur að þessu sinni því Newcastle hefur aðeins tapað einu sinni frá áramótum og á heimavelli Newcastle höfum við aðeins unnið einn af síðustu 10 leikjum (og gert fjögur jafntefli). Þeir hafa reyndar ekki unnið heima í tvo mánuði, þannig að það er aldrei að vita. Leikmenn Everton verða væntanlega erfiðir viðureignar þar sem þeir vilja örugglega reka af sér slyðruorðið (enn á ný) eftir leikinn við Reading. 🙂

Fellaini og Cahill verða ekki með, Cahill er þó nær því að spila en Fellaini sem fer í uppskurð og verður ekki meira með á tímabilinu. Það verður skarð fyrir skildi. Aðrir ættu að vera leikfærir.

Í tengdum fréttum þá var Anichebe að fá dæmdar skaðabætur frá Newcastle sökum tekjumissis eftir ruddalega tæklingu frá Kevin Nolan í febrúar árið 2009 sem ollu slæmum meiðslum. Nú er málaferlunum lokið og hann getur farið að einbeita sér að því að skora mörk.

 

Comments are closed.