Þvílíkur leikur! Glæsilegur fyrri hálfleikur hjá okkar mönnum sem voru greinilega staðráðnir að reka af sér slyðruorðið eftir leikinn við Bolton enda átti Chelsea varla skot að marki fyrstu 20-25 mínúturnar. Við náðum þó ekki að nýta okkur yfirburðina og vorum síðar heppnir að fá ekki á okkur víti. Chelsea komst mun betur inn í leikinn í seinni hálfleikinn en hvorugt lið náði að setja inn mark ef frá er skilið mark frá Fellaini sem réttilega var dæmt af vegna rangstöðu. Því var framlengt.
Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks framlengingar hitti Lampard loks á markið og setti inn mark fyrir Chelsea og þyngdist þá brúnin á okkar mönnum all verulega. Rétt undir blálok seinni hálfleiks fengum við svo aukaspyrnu rétt fyrir utan teig og alveg eins og á móti Tottenham setti Baines inn stórglæsilegt mark beint í vinkilinn úr aukaspyrnu. Alveg hreint magnað mark sem kom okkur í vítaspyrnukeppnina!
Vitaspyrnukeppnin byrjaði með því að Baines lét verja frá sér, en honum er algjörlega fyrirgefið því hann hafði nokkrum mínútum áður bjargað leiknum fyrir okkur. Howard varði þriðja víti Chelsea (frá Anelka) og í því fimmta skaut Ashley Cole yfir. Spurning hvort Heitinga hafi tekið hann á taugum þegar hann rak "óvart" öxlina í hann þegar Cole gekk að punktinum. 🙂 Phil Neville rak svo endahnútinn á þetta og senda Chelsea í sturtu. Við hins vegar mætum Reading í fimmtu umferð. Góður dagur hjá okkar mönnum.
Einkunnir Sky Sports eru ekki komnar inn (og ekki víst að þeir gefi einkunnir fyrir bikarleikinn) en ég uppfæri færsluna ef þær detta inn.
Þangað til eru hér einkunnir frá Goal.com: Howard 8.5, Jagielka 7.5, Distin 7, Baines 9 (maður leiks), Coleman 6.5, Neville 6.5, Arteta 6.5, Fellaini 7.5, Osman 5.5, Cahill 5 (flopp leiksins), Beckford 5.5. Varamenn: Heitinga 6, Bily 5.5, Anichebe 6. Hjá Chelsea fengu Terry og Cole 7, Lampard 7.5 og Essien 7 (kom inn sem varamaður). Aðrir voru lægri.
Comments are closed.