Tim Cahill

 

Í nútíma knattspyrnu eru leikmenn seldir mjög dýru verði, menn eins og Owen Hargreaves sem kostaði 18 milljónir punda og talað er um að verðmiðinn á Carlton Cole sé 15 milljónir punda. En er hægt að gera virkilega góð kaup fyrir lítinn pening? Þetta gerði David Moyes sumarið 2004 þegar hann bauð 1,5 milljónir punda í Tim Cahill og fékk hann frá Millwall.
Á þeim tíma var Cahill hæfileikaríkur leikmaður í næst efstu deild á Englandi. Það hafði verið talað um að hann ætti möguleika í Úrvalsdeildinni en ekkert lið leit mikið á hann. Stóru klúbbarnir sögðu að hann væri of smávaxinn og þó svo að hann gæti skorað mörk í næst efstu deild þá gæti hann það örugglega ekki í efstu deild. Hann sannaði þó tilveru sína í undanúrslitum FA bikarkeppninnar 2004 gegn Sunderland, þar sem hann átti stórleik og skoraði sigurmarkið.
David Moyes náði samkomulagi við Millwall um samning sem nú hljómar eins og móðgun við Millwall, en hann hljóðaði upp á 1,5 milljónir punda. Allur vafi annarra um getu Tim Cahill í efstu deild varð fljótt að engu. Fyrsta tímabil hans hjá Everton endaði hann sem markahæsti maður Everton og fljótlega varð hann gríðarlega vinsæll hjá aðdáendum Everton fyrir það hversu öflugur á vellinum hann er og hversu góður hann er að klára dæmið fyrir utan og innan teigs.
Árið 2006 komst Ástralía á HM eftir að hafa unnið Japan 3-1 í leik þar sem Cahill kom inn á völlinn á 84 mínútu. Með aðeins sex mínútur eftir af leiknum tóks Cahill að skora úr vítateignum og jafnaði leikinn fyrir Ástralíu. Þegar ein mínúta var eftir þá tók Cahill skot rétt fyrir utan vítateig og skoraði glæsilegt mark og kom þar með landi sínu yfir. Í uppbótatíma lagði hann upp mark fyrir John Aloisi og innsiglaði þar með 3-1 sigur. Eftir frammistöðu hans árið 2006 var hann meðal 50 knattspyrnumanna sem voru tilnefndir til Ballon´ d´Or, sem eru verðlaun sem íþróttafréttamenn Evrópu veita ár hvert.
Þó svo að meiðsli hafi hrjáð Tim Cahill meðan á dvöl hans hefur staðið hjá Everton, þá hefur hann náð þeim árangri að vera með markahæstu mönnum hjá liðinu. Hann hefur skorað að meðaltali 8-12 mörk á tímabili. Þá á hann það til að skora mörk sem eru gríðarlega mikilvæg eins og jöfnunarmarkið sem hann skoraði gegn Liverpool á Anfield í janúar 2009. Með því marki er Tim Cahill eini leikmaður Everton síðan Dixie Dean var og hét, sem hefur skorað þrjú mörk í þremur mismunandi „derby“ leikjum gegn Liverpool á Anfield.
Þannig að 1,5 milljónir punda fyrir þennan mann eru líklega ein bestu kaup fyrr og síðar í ensku Úrvalsdeildinni. Nú er bara spurning hvort Moyes geti gert eins góð kaup í framtíðinni.
Góðar stundir!

Comments are closed.