|
|
Nafn | Everton Football Club |
Viðurnefni | The Toffees, The Blues, The Peoples Club |
Stofnað | 1878 sem St. Domingo F.C. |
Leikvöllur | Goodison Park |
Sæti | 40,569 |
Stjórnarformaður | Bill Kenwright |
Knattspyrnustjóri | David Moyes |
Deild | Premier League |
2007-8 | Premier League |
Everton er enskur knattspyrnuklúbbur sem að er frá Liverpool borg. Everton keppir í ensku úrvalsdeildinni og hefur verið meðal efstu klúbba Englands lengur en nokkur annar. Everton er eitt af topp fimm félögum á Englandi ef tekið er tillit til stórtitla. Þeir hafa unnið efstu deild níu sinnum. F.A. bikarkeppnina fimm sinnum og UEFA Cup Winners´ Cup einu sinni. Síðasti titill Everton var árið 1995 þegar liðið vann FA bikarinn. Núverandi knattspyrnustjóri Everton er David Moyes. Liðið hefur náð miklum framförum undir hans stjórn, en tvisvar hefur liðið náð að tryggja sér Evrópusæti (til samanburðar má nefna að liðið náði aðeins að tryggja sér einu sinni Evrópusæti á 11 ára tímabili áður en Moyes tók við stjórn). Liðið hefur einnig klárað þrisvar í topp tíu á þeim sex árum sem Moyes hefur verið við stjórnvölinn.
Erkifjendur Everton eru grannarnir Liverpool F.C., en Liverpool var stofnað eftir deilur sem komu upp vegna leigu á gamla heimavelli Everton, Anfield, þetta var árið 1892. Síðan þá hefur heimavöllur Everton verið Goodison Park.
Everton var upprunalega stofnað sem St. Domingo F.C. árið 1878, til þess að sóknarbörn kirkju St. Domingo gætu stundað íþróttir utandyra yfir sumarmánuðina. Ári seinna var nafninu breytt í Everton F.C. í höfuðið á hverfinu sem félagið var í. Þetta var gert þar sem fólk utan sóknar St. Domingo óskaði eftir að fá að ganga í félagið. Everton tók þátt í að stofna ensku knattspyrnudeildina (The Football League) árið 1888 og vann Everton sinn fyrsta titil tímabilið 1890-91. Þeir unnu síðan FA Cup tímabilið 1905-06 og síðan deildartitilinn aftur tímabilið 1914-15. Það var þó ekki fyrr en 1927 að gullaldarár Everton gengu í garð. Árið 1925 gekk Dixie Dean (William Ralph Dean). Hann setti markamet á einu tímabili, tímabilið 1927-28, en þá skoraði hann 60 mörk í 39 leikjum. Þetta met stendur enn þann dag í dag. Þetta markamet Dixie átti stóran þátt í því að Everton fagnaði sínum þriðja deildartitli þetta tímabil.
Everton féll í aðra deild tveimur árum eftir þetta góða tímabil, en unnu aðra deildina og komu strax upp aftur. Þeir sóuðu engum tíma tímabilið 1931-32 og unnu sinn fjórða deildartitil. Þeir unnu síðan sinn annan FA Cup titil tímabilið 1932-33 en þá unnu þeir Manchester City 3-0 í úrslitaleiknum. Gullaldarárin enduðu síðan tímabilið 1938-39 en þá vann Everton sinn fimmta deildartitil. Vegna Seinni Heimstyrjaldarinnar var keppni í ensku deildinni frestað og byrjaði ekki aftur fyrr en árið 1946. Eftir stríð var Everton liðið ekki sjón að sjá og fölnaði í samanburði við gullaldar liðið fyrir stríð. Everton féll í aðra deild tímabilið 1950-51 og kom ekki upp í efstu deild aftur fyrr en eftir tímabilið 1953-54 og hafði liðið þá eytt þremur tímabilum í annarri deild. Everton hefur verið í efstu deild ensku knattspyrnunnar síðan.
Annað gullaldar tímabil Everton rann upp þegar að Harry Catterick varð knattspyrnustjóri árið 1961. Tímabilið 1962-63, annað tímabilið undir stjórn Harrys, vann Everton sinn sjötta deildar titil og árið 1966 unnu þeir Sheffield Wednesday 3-2 í úrslitaleik FA bikarkeppninnar.. Tveimur árum seinna komst Everton aftur í úrslitaleik FA bikarkeppninnar en tapaði fyrir West Bromwich Albion á Wembley. Ári seinna tímabilið 1969-70 vann Everton fyrstu deildina og kláraði með níu stigum meira en liðið í öðru sæti, Leeds United. Hinsvegar entist þetta ekki hjá liðinu og á næstu árum kláraði liðið tímabilin í 14, 15, 17 og 7 sæti. Catterick settist í helgan stein en sá er kom á eftir honum náði ekki að vinna neina titla það sem eftir var af áttunda áratugnum. Reyndar var liðið í þriðja sæti tímabilið 1977-78 og í því fjórða tímabilið á eftir. Knattspyrnustjórinn Gordon Lee sagði af sér árið 1981, eftir að Everton hafði hrapað niður töfluna og voru orðnir nokkuð langt fyrir neðan erkifjendurna í Liverpool.
Howard Kendall tók við sem knattspyrnustjóri og stýrði Everton inn á þeirra stærsta gullaldartímabil. Heima á Englandi vann Everton FA bikarinn tímabilið 1983-84 og tvo deildartitla tímabilin 1984-85 og 1986-87. Everton urðu næstir á eftir fjendunum í Liverpool bæði í deildarbikar og deildarkeppni tímabilið 1985-86. Einnig töpuðu þeir fyrir Liverpool í úrslitaleik deildarbikarsins 1984 og í úrslitaleik FA bikarsins 1989. Í Evrópu vann Everton sinn fyrsta og eina bikar hingað til en það var árið 1985 í Evrópukepnni bikarhafa. Þá unnu þeir Rapid Wien 3-1 í Rotterdam. Þetta ár komst Everton mjög nærri því að vinna þrefalt en töpuðu fyrir Manchester United í úrslitaleik FA bikarsins.
Heysel slysið átti sér stað í Belgíu 1985 og ensk knattspyrnulið voru sett í ótímabundið bann frá þátttöku í Evrópukeppni. Banni þessu var aflétt fimm árum seinna. Þetta varð til þess að Evrópu draumur Everton var úr myndinni í bili. Kendall fór frá Everton til Athletic Bilbao eftir að Everton sigraði deildina 1987. Þá tók við liðinu aðstoðamaður Kendall, Colin Harvey. 1992 tóku Everton þátt í að stofna ensku Úrvalsdeildina, en áttu í miklu basli með að finna rétta stjórann. kendall kom reyndar aftur 1990 en náði ekki að endurtaka leikinn frá fyrri stjóratíð sinni. Mike Walker tók við af Kendall og er sá knattspyrnustjóri Everton sem að hefur átt verstu gengi að fagna. Fyrrverandi leikmaður Everton, Joe Royle tók við liðinu 1994 og fór þá liðinu loks að ganga betur. Í fyrsta leik liðsins undir hans stjórn vann Everton, Liverpool 2-0. Royle forðaði Everton frá falli 1994 og stjórnaði liðinu til sigurs í fimmta skipti í FA bikarkeppninni, en þá vann Everton, Manchester United 1-0 í úrslitaleiknum. Everton spilaði síðan við KR, sælla minninga, árið 1995. Royle hélt áfram uppbyggingu sinni og náði Everton sjötta sæti tímabilið 1995-96 í Úrvalsdeildinni.
Næsta tímabil, 1996-97, var ekki eins gott og endaði Everton í fimmtánda sæti. Royle hætti í mars 1997. Fyriliði Everton, Dave Watson, tók við liðinu tímabundið og bjargaði því frá falli. Howard Kendall varð knattspyrnustjóri í þriðja skipti 1997, en hann náði ekki árangri með liðið og liðið rétt bjargaði sér frá falli tímabilið 1997-98, en það eina sem skildi liðið frá falli var betra markahlutfall en Bolton. Sumarið 1998 tók Walter Smith við knattspyrnustjórastólnum en náði einungis að klára með liðið í neðri hluta deildarinnar þrjú tímabil í röð.
Stjórn Everton missti að lokum þolinmæðina við Smith og hann var rekinn í mars 2002 og var þá liðið í mikilli fallhættu. Núverandi knattspyrnustjóri, David Moyes, tók við liðinu af Smith og kláraði liðið þetta tímabil örugglega í fimmtánda sæti. Eftir þetta erfiða tímabil kláraði Everton næstu á í sjöunda sæti, sautjánda sæti, fjórða sæti (hæsta sæti eftir stofnun Úrvalsdeildarinnar) og síðan í ellefta sæti. Það var í stjórnatíð Moyes að Wayne Rooney var seldur fyrir metfé (£23 milljónir) til Manchester United. Tímabilið 2006-07 endaði Everton í sjötta sæti í Úrvalsdeildinni og náði með því að tryggja sér sæti í UEFA bikarnum.
Heimildir.
*
Corbett, James (2004). Everton: School of Science.
*
Tallentire, Becky (2004). The Little Book of Everton. Carlton Books Ltd.
*
Ball, D. & Buckland, G. (2001). Everton-The Ultimate Book og Stats & Facts.. The Bluecoat Press.
Comments are closed.