Miðar sóttir á Goodison Park

Hér að neðan eru nokkrar hagnýtar upplýsingar þegar kemur að því að sækja miða á leiki á Goodison Park:

Miðarnir eru sóttir í „Collections“ skúrinn, sem hefur undanfarin tímabil verið staðsettur á Bullens Road, alveg upp við — en á bak við — Goodison Park, nánar tiltekið hér á Google Maps.

Athugið að langar biðraðir geta myndast við skúrinn þegar nær dregur og er erfitt að leggja nógu mikla áherslu á að mæta snemma til að koma í veg fyrir að maður missi af byrjuninni á leiknum.

Sem dæmi má nefna að við heyrðum af einum sem mætti kl. 12:30 í röðina á upphafsleik tímabils (flautað til leiks kl. 15:00) en beið svo í um tvo tíma í röðinni. Þar mátti lítið út af bera til að missa ekki af hluta fyrri hálfleiks.

Við mælum eindregið með því að fólk mæti fyrir hádegi á leikdegi (helst nokkuð fyrir hádegi), fari í biðröð, fái miða í hendur og fái sér svo að borða hádegismat í rólegheitunum og skoli kverkarnar. Fiskur, franskar og live tónlist á Everton Fan Zone (bílastæðinu bak við „Collections“ skúrinn) hefur reynst vinsæll kostur.

Í einstaka tilfellum hefur komið fyrir að fólk hafi fengið þau svör að engir miðar séu til staðar á nafninu sem skráð var en það hefur í öllum tilfellum hingað til reynst vera rangt. En þetta er enn ein ástæðan til að mæta snemma, svo hægt sé að afgreiða svona hluti í rólegheitum, vel fyrir leik.

Í einu tilfelli gerðist það að hluti miðanna virkaði ekki í scanner-num þegar gengið var inn á völlinn en þá fer maður bara í miðasöluna framan við völl (u.þ.b. hér) og fær prentaða nýja miða.

Enn á ný: ekki vanmeta tímann sem getur tekið að komast í sætið. Það geta einnig myndast biðraðir að komast inn á völlinn.

Ef einhver vandræði koma upp skal tala beint við miðasöluna framan við völlinn og, ef hvorki gengur né rekur þar, biðja um Steven Richards. Steven er tengiliður stuðningsmannaklúbba Everton og ætti að geta aðstoðað ef einhver vandræði koma upp. Hann er auk þess með síma: 0151 556 1878 (og tölvupóstfangið Steven.Richards@everton.isfc.com, sem hann skoðar öðru hverju).