Mynd: Everton FC.
Fyrri hálfleikur allur svolítið í járnum, jafnræði með liðum og bæði lið náðu að halda sóknarmönnum hins liðsins í skefjum, að mestu. Everton mun betri í seinni hálfleik, fengu mun betri færi en Swansea og áttu að uppskera þrjú stig en enduðu í staðinn manni færri.
Uppstillingin: Howard, Galloway, Stones, Jagielka, Browning, Barry, McCarthy, Naismith, Barkley, Kone, Lukaku. Bekkurinn: Robles, Gibson, Mirallas, Lennon, Deulofeu, Osman, Funes Mori.
Sem sagt, Naismith hélt sæti sínu í liðinu eftir frábæra frammistöðu í síðasta leik en Coleman ekki orðinn nægilega góður af meiðslunum sem hann hlaut í leiknum gegn Chelsea og náði ekki einu sinni á bekkinn. Ungliðar þar með í báðum bakvarðarstöðunum. Gylfi í byrjunarliðinu hjá Swansea.
Leikurinn var stöðvaður nánast um leið og hann byrjaði þegar Jagielka og André Ayew, sóknarmaður Swansea, lentu í samstuði og leikurinn tafðist nokkuð, sem leiddi til þess að fjórum mínútum var bætt við í lok hálfleiks. Hvorugur fór þó út af en fossblæddi úr nefi Ayew.
Everton betra liðið fyrsta korterið og meira ógnandi. Swansea uxu inn í leikinn eftir því sem leið á. Þeir fengu besta færi hálfleiksins þegar Barry átti slakan skalla aftur sem setti Gomis í dauðafæri, einn á móti markverði en sá hitti ekki boltann sem sigldi framhjá marki. Þar hefði staðan átt að vera 1-0 fyrir Swansea og okkar menn stálheppnir. Gomis hafði stuttu áður átt skot innan teigs eftir fyrirgjöf en beint á Howard.
Naismith fékk færi hinum megin á 19. mínútu eftir skyndisókn, lék á einn varnarmann en náði svo ekki nógu góðu skoti eftir pressu frá öðrum varnarmanni. Naismith átti svo skot utan teigs 10 mínútum síðar eftir hreinsun úr teig, Lukaku reyndi breyta stefnu boltans lítillega en markvörður Swansea varði.
Everton átti skyndisókn á 37. mínútu, Barkley bar boltann að vítateig og sendi á Lukaku til hægri en ágætt skot frá honum var varið í horn.
Swansea náði upp pressu á Everton rétt undir lok hálfleiks en uppskáru ekkert. Skyndisókn frá Everton í lokin líka en staðan 0-0 í hálfleik og líklega sanngjarnt miðað við ganginn í leiknum. Búið að vera nokkuð í járnum.
Mun betra að sjá til Everton í seinni hálfleik, bæði betri leikur og betri (og fleiri) færi og Swansea hefðu ekki getað kvartað mikið þó þeir hefðu lent tveimur til þremur mörkum undir.
Kone fékk í dauðafæri strax á upphafsmínútu. Fékk fyrirgjöfina frá vinstri frá Barkley en eiginlega áttaði sig ekki á því að hann væri í færi alveg upp við mark og færið fjaraði því út.
Galloway átti bráðskemmtilega hreyfingu stuttu síðar þegar hann sneri á varnarmenn Swansea inni í teig, var kominn einn á móti markverði öllum að óvörum og tók skotið á fjærstöng en rétt framhjá. Mjög vel gert hjá ungliðanum.
Lukaku komst í dauðafæri eftir stungu frá Barry á 52. mínútu en skaut yfir markið. Besta færi leiksins fram að því. Þar hefði hann átt að skora. Swansea voru svo stálheppnir örfáum mínútum síðar þegar Naismith vann boltann vel á miðju og náði góðri skyndisókn. Hún endaði með því að Lukaku fékk háan bolta á fjærstöng vinstra megin en hitti ekki í fyrra skiptið. Hann reyndi svo í seinni tilraun að skófla boltanum inn í markið með markvörðinn á jörðinni en Swansea menn náðu að bjarga á línu. Swansea svöruðu með því að skipta Gylfa út á 60. mínútu.
Swansea fengu líka sín færi í seinni, Montero átti skot innan teigs en Howard varði vel í horn, og hann varði líka vel frá Gomis á 68. mínútu, rétt eftir að Kone hafði verið skipt út fyrir Deulofeu.
Deulofeu beið ekki boðanna og skóp strax glundroða í vörn Swansea með frábærri fyrirgjöf frá hægri, milli markmanns og varnar sem sigldi fyrst framhjá Lukaku og svo Naismith sem báðir höfðu tækifæri til að pota inn. Barkley náði að harðfylgni að halda boltanum inn á og halda lífi í sókninni og í kjölfarið fylgdu tvö skot frá Everton. Markið virtist liggja í loftinu.
Lukaku komst aftur í dauðafæri á 75. mínútu eftir stungusendingu. Komst einn upp að marki en varnarmaður kom á skriðtæklingu og blokkeraði skotið.
Það dofnaði aðeins yfir leiknum í kjölfarið þangað til Swansea fengu dauðafæri rétt undir lokin sem þeir náðu ekki að nýta sér. En svo gerðist það að Barkley var skipt út fyrir Mirallas á 92. mínútu og sá síðarnefndi nældi sér í rautt spjald með sínu fyrsta framtaki á vellinum. Traðkaði á fætinum á Swansea manni eftir að hafa misst af boltanum. Beint rautt og Mirallas missir því af næstu þremur. Everton manni færri í um mínútu.
Swansea menn fengu einn séns til að stela sigrinum en Ki átti skot hátt yfir innan teigs.
Maður var mjög ósáttur við stöðuna 0-0 eftir 75 mínútur en það verður að klára færin til að vinna leikina. Tvö stig töpuð þar sem ekki tókst að koma tuðrunni í netið.
Einkunnir Sky Sports: Howard (6), Galloway (7), Stones (8), Jagielka (7), Browning (7), Barry (7), McCarthy (6), Naismith (5), Barkley (7), Kone (6), Lukaku (6). Varamenn: Deulofeu (7), Mirallas (1). Einkunnir Swansea mest í fimmum og sexum en varnarmaðurinn Williams valinn maður leiksins með 9.
Grátlegt að svona yfirburðir skili ekki neinu.
Martines er að verða eins og Moyes með skiftingarnar. Koma seint eða aldrei.
rosalega gaman að koma inná í uppbótartíma og eiga að hafa áhrif á leikinn. Held að Mirallas hafi verið hundpirraður og þess vegna fór sem fór. Mirallas átti að koma inná um leið og spánverjinn og það mátti þess vegna fórna öðrum varnarmiðjumanninum. Fáránlegt að mínu mati 🙂
Akkurat það sem ég var að hugsa. Ég hefði örugglega sparkað í fyrsta mann komandi inná á 92. mínútu.
Eruð þið klikkaðir? að afsaka Mirallas….
Bara jók 🙂
Ég er mjög ánægður með varnarleikinn í þessum leik nema Barry var næstum einu sinni gefa Swansea mark. Furðuleg þessi einkunnagjöf Lukaku kann ekkert í þessum leik og Barkley var frábær. Við eigum 3 frábæra vængmenn Deulofey, Mirallas og Lennon og enginn þeirra í byrjunarliðinu af hverju. Kone heillaði mig ekkert í þessum leik átti að henda honum útaf strax í hálfleik. Browning á greinilega langt í land að ná sömu gæði og Coleman en samt ok Galloway mun betri. Stones og Jagielka frábærir saman. Finnst Naismith alltaf duglegur en MaCarthy mætti bæta sendingar sínar en Barry var góður nema einu sinni þegar hann gaf Swansea næstum mark.
Browning að mínu mati frábær í að halda Montero niðri í leiknum. Hann er að upplagi miðvörður og leysti þetta frábærlega af hendi, Mann sem reyndir bakverðir hafa átt fullt í fangi með.
Sammála Didda. Það eina sem ég sé augljóslega vanta hjá Browning er meiri ógnun fram á við því þegar Coleman vantar er hægri kanturinn okkar svolítið vængstífður og þar af leiðandi geta lið einbeitt sér svolítið að því að loka öðrum gáttum. En varnarlega stóð hann sig mjög vel (þó miðvörður væri að upplagi og að leysa af í bakverði, eins og Diddi kom inn á).
Grautfúlt að taka ekki 3 stig.
Sæll Ingvar.Ég veit ekkert um leikinn ég sá hann ekki.En miðað við sem þið segjið um hann verð ég að vera sammála þér grautfúllt að taka 3 stig.
Everton vantar framherja, Lukaku ekki að standa sig neitt vel og Naismith langt frá sínu formi. Kone er alltaf að sanna það betur og betur að hann á ekki heima í Everton liðinu og heldur miklu betri leikmönnum á bekknum. Sammála mönnum hér að ofan að, afhverju er Martinez ekki að nota kantmennina sem hann keypti í sumar? Þeir hljóta að fara að fá sín tækifæri.