Everton – Bournemouth 1-0

Mynd: Everton FC.

Lokaleikur þessa tímabils er gegn Bournemouth á Goodison Park kl. 15:30 í dag og þá eftir hann kemur í ljós í hvort Everton leiki í Úrvalsdeildinni að ári.

Hér að neðan má sjá allar mögulegar niðurstöður í leikjum Everton, Leicester og Leeds og hvað það myndi þýða fyrir útkomuna.

Þetta eru samtals 27 mismunandi útkomur og 17 af þeim eru góðar fyrir Everton. Tvær að auki eru einnig góðar ef markatala er Everton verður nægilega hægstæð að umferð lokinni.

Eins og sjá má myndi sigur gulltryggja Everton áframhaldandi veru í Úrvalsdeildinni en ef Everton gerir jafntefli þarf liðið að treysta á að Leicester vinni ekki sinn leik (gegn West Ham) og að Leeds vinni ekki með þremur mörkum eða meira (gegn Tottenham). Tap þýðir að Everton þarf að treysta á að bæði Leicester og Leeds tapi.

Uppstillingin: Pickford (fyrirliði), Tarkowski, Coady, Mina, Gana, McNeil, Doucouré, Garner, Onana, Iwobi, Gray.

Varamenn: Begovic, Lonergan, Holgate, Keane, McAllister, Maupay, Welch, Simms.

BBC telur að þetta verði 4-1-4-1 uppstilling, með McNeil í vinstri bakverði, en allavega eru þrír miðverðir inn á og Gray frammi. Enginn Calvert-Lewin er í hóp, sem er afar slæmt, og bekkurinn er þunnskipaður, svo ekki sé meira sagt — tveir markverðir, tveir miðverðir, þrír kjúklingar og Maupay. Það segir líka ýmislegt um breiddina í liðinu og ástandið á hópnum að Everton er bara með 8 leikmenn á bekknum en ekki 9, eins og hefðbundið er.

Á móti kemur að það eru þrír miðverðir í byrjunarleiðinu, en þeir virðast vera að bera uppi markaskorunina þessa dagana. Þetta verður því eitthvað.

Ritari missti af fyrstu mínútunum vegna bilunar í útsendingu en eftir það var lítið um færi — allavega framan af. Helstu fréttirnar voru þær að Leeds lentu undir 0-1 strax á 2. mínútu, sem hjálpaði að létta pressunni af Everton.

Onana náði að skapa dauðafæri fyrir Everton með flottri sendingu í hlaupaleiðina hjá Gana, sem kom á siglingu upp völl og inn í teig hægra megin. Hann tók skot í fyrstu snertingu en markvörður varði í horn. Þar hefði maður viljað sjá sóknarmann skjóta. 

Fjörugar mínútur fylgdu í kjölfarið þar sem Everton jók pressuna. Gana átti skot af löngu færi sem markvörður Bournemouth þurfti að kasta sér á til að verja til hliðar.

Í kjölfarið bárust mjög þungbærar fréttir af því að Leicester væru komnir yfir gegn West Ham og Everton þar með komið í fallsæti, ef þau úrslit myndu ekki breytast.

Á 41. mínútu átti Gray að fá víti þegar hann fékk spark í hælinn inni í teig eftir að hafa náð að stýra boltanum í burtu frá varnarmanni. Ekkert dæmt.

Rétt áður en uppbótartími var tilkynntur gerði Tarkowski sig sekan um mistök þegar hann missti boltann á hættulegum stað og tveir sóknarmenn Bournemouth komust í bullandi sókn og náðu inn í teig Everton. En sem betur fer náði varnarmaður Everton að komast fyrir skotið og blokkera það í horn. Besta færi Bournemouth í fyrri hálfleik, en þeir höfðu verið afar bitlausir fram á við.

Ekkert kom úr horninu þeirra en hinum megin hélt pressa Everton áfram og Garner náði flottu skoti, utan teigs aðeins til hægri. Boltinn stefndi upp í skeytin vinstra megin en markvörður varði vel.

Rétt fyrir lok hálfleiks fékk Everton hornspyrnu og ég sá ekki betur en að varnarmaður Bournemouth færi með höndina í andlitið á Mina sem var að reyna að ná til boltans með skalla. Fyrir mér er það víti.

0-0 í hálfleik og þar sem Leicester voru yfir á þeim tímapunkti myndi það þýða að þeir bjarga sér frá falli en Everton ekki

Seinni hálfleikur hófst á svipaðan hátt og sá fyrri, með marki Tottenham gegn Leeds, sem maður hugsaði að væri líklega síðasti naglinn í líkkistuna hjá Leeds.

Gray komst í dauðafæri á 51. mínútu eftir smá skalla-pinball inni í teig. Hann var mjög nálægt marki en var ragur við að skalla boltann í netið og því enginn kraftur í þeirri tilraun. Hefði átt að skora þar. Endursýning sýndi að varnarmaður Bournemouth komst í aðdragandanum upp með bakhrindingu inni í teig á Coady, sem var að reyna að skalla boltann. Skil ekki hvers vegna þeir fengu að sleppa þar.

En á 57. mínútu small þetta loks hjá Everton. Onana tapaði skallaeinvígi við varnarmann inni í teig Bournemouth en boltinn sveif út úr teig og féll frábærlega fyrir Doucouré, sem hlóð fallbyssufótinn og gjörsamlega hamraði boltann í netið. Staðan orðin 1-0 fyrir Everton, sem lyfti sér með þessu yfir Leicester og úr fallsæti! Hversu mikilvægt það mark átti eftir að reynast!

Allt viiiiiitlaust á pöllunum á Goodison Park, enda Everton við stjórnvölinn aftur.

Örskömmu síðar bárust fréttir af því að Leicester hefðu bætt við marki og botnlið Southampton snúið við 0-2 stöðu gegn Liverpool í 3-2. 

Hvorugt hafði áhrif á botnbaráttuna, svo lengi sem Everton gæti haldið Bournemouth í seilingarfjarlægð. Í hinum aðalleikjunum skoruðu Leeds og Tottenham skoruðu bæði, þannig að það breytti ekki jöfnunni neitt — Leeds hélt áfram að vera dauðadæmt. West Ham minnkuðu hins vegar muninn gegn Leicester á 79. mínútu, sem þýddi að West Ham væru bara einu marki frá West Ham frá því að gulltryggja veru Everton í Úrvalsdeildinni.

Leikmenn Everton litu örmagna út þegar lok venjulegs leiktíma nálguðust. Gray fór út af með tognun í læri og Simms kom inn á fyrir hann. Tíu mínútum bætt við.  TÍU!

Á 94. mínútu fengu Bournemouth menn eiginlega alveg eins færi og í marki Everton. Sóknarmaður þeirra skallaði út úr teig til annars sóknarmanns sem hamraði boltann á nákvæmlega sama stað og Doucouré en Pickford varði glæsilega. Doucouré og Pickford að halda Everton uppi í Úrvalsdeildinni. Ótrúlegir. 

Leikur Leicester og West Ham endaði með sigri Leicester, og Leeds töpuðu fyrir Tottenham áður en flautað var til leiksloka hjá Everton og Bournemouth, sem þýddi að ekkert nema sigur Everton kom til greina fyrir Everton.

Síðustu mínúturnar liðu löturhægt. 98. mínúta. 99. mínúta. 100. mínúta… 

En Everton stýrði þessu vel, náðu að loka vel á Bournemouth og nýta tímann á réttan hátt. Leicester menn gátu ekkert annað en beðið á vellinum eftir lokaflautinu hjá Everton og þeir voru ekki kátir á svip þegar það gerðist. 

Þvílíkur léttir og til hamingju lesendur! Everton spilar í Úrvalsdeildinni á næsta ári eftir 1-0 sigur á Bournemouth. Leeds, Leicester og Southampton féllu niður í Championship deildina á tímabilinu. Við sem styðjum Everton vitum hversu þungbært það hefði verið að falla niður og höfum fulla samúð með stuðningsmönnum allra liðanna sem féllu.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7); Coady (7), Mina (7), Tarkowski (7); Garner (8), Onana (7), Gueye (7), Doucoure (8), McNeil (7); Iwobi (6), Gray (7).

Doucouré var valinn maður leiksins, að mati Sky Sports.

13 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Vonandi verður þetta ekki hræðilegt.
    Miðað við þessa töflu hér að ofan þá eru 17 möguleikar fyrir Everton að bjarga sér en 10 möguleg úrslit sem þýða fall.
    Mér sýnist líkurnar vera Everton í óhag.

    • Finnur skrifar:

      17 til 19 útkomur eru góðar fyrir Everton.

      En ef þú horfir á þetta út frá hinum liðunum, þá eru bara 6 útkomur góðar fyrir Leicester og þær byggjast allar á því að Leicester vinni sinn leik og Everton tapi stigum.

      Hjá Leeds er staðan ennþá verri, því þeir eru með versta markahlutfallið af liðunum þremur.

      • Ingvar Bæringsson skrifar:

        Já en það sem ég er að meina er að ef það er einhver möguleiki á að klúðra hlutunum þá tekst Everton það í níu skipti af tíu.

        • ARI S skrifar:

          Hefur þú ekki rangt fyrir þér þér í níu skipti af tíu?

          • Ari S skrifar:

            Sorry ég var bara að grínast Ingvar minn. Innleggin þín hérna er alltaf stórskemmtileg. Takk fyrir þau… 🙂

  2. albert skrifar:

    IT’S OVER: Everton 1-0 Bournemouth

    Full-time and Everton have won!

    Vá þetta var naumt!

  3. Diddi skrifar:

    Til hamingju öll, mikið er nú gott að þetta hafðist, vonandi þarf maður ekki að lifa svona lokadagsbjörgun (var í þriðja sinn) maður er of gamall í svona spennu

  4. ARI S skrifar:

    Vonandi gerir Dyche gott sumar. Breytinga er þörf og mér lýst nokkuð vel á fréttir af þeim sem ætla að kaupa sig inn í félagið. Ég held að það sé nokkuð öruggt að ef að það gengur eftir séu breytingar fram undan í stjórn félagsins. Bara það mun að einhverju leyti sameina stuðningsmennirnir. Þeir sem voru á vellinum voru flottir í dag. Til hamingju með þetta félagar. Ef það er hægt að segja sem svo við að sleppa við fall.

  5. Hallur skrifar:

    Fallegt var þetta
    en nú þarf að koma einhverjum stöðuleika a í klúbbnum

  6. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Nú getur maður loksins sofið rótt.

  7. AriG skrifar:

    Virkilega flottur baráttusigur. Mjög gott að sleppa við fall og markið virkilega flott. Vill að Dyche haldi áfram með liðið örugglega fínn þjálfari til að byggja upp lið. Veit ekki hvort Everton haldi öllum leikmönnunum kemur í ljós en sumir mega fara sem geta ekkert. Kaupa sóknarmann í sumar er algjör forgangur og einn kantmann sem getur spilað báðum megin og jafnvel sóknarsinnaðan miðjumann.

  8. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Heyrðu nú mig!! Ég var að fatta það að ég missti af markinu hjá Doucoure. Ég hafði nefnilega stillt yfir á Leicester leikinn í þeirri von að West Ham hefði jafnað. Það var ekki svo gott en ég ákvað að fylgjast með í smá stund því West Ham var í sókn. Skyndilega sagði lýsandinn að það heyrist kaldhæðnislegt fagn frá stuðningsmönnunum West Ham og þá skipti ég aftur yfir á okkar leik og sá restina af fagnaðarlátunum.

    • ARI S skrifar:

      Haha það var sama hérna, ég var alltaf að skipta yfir á hinn leikinn 🙂