Brighton – Everton 1-5

Mynd: Everton FC.

Everton lék við Brighton á þeirra heimavelli í dag í fjórðu síðustu umferð Úrvalsdeildarinnar. Staðan var dökk fyrir leik, en Everton var í fallsæti og ég held að flestir stuðningsmenn hafi ekki búist við miklu úr þessum leik, en annað kom aldeilis á daginn! Ekki skemmdi heldur fyrir að úrslit fyrir leikinn voru Everton afar hagstæð en Leicester töpuðu mjög illa fyrir Fulham.

Tölfræðin fyrir leik leit svona út:

Maður hafði áhyggjur af því að Everton væri í fallsæti, stigi á eftir liðunum þremur fyrir ofan, því það gæti gerst að markatala felli lið niður í Championship. Hvert stig skiptir máli og eins og bent hefur verið á, og þetta gæti auðveldlega ráðist á óvæntum úrslitum.

Uppstillingin: Pickford (fyrirliði), Mykolenko, Mina, Tarkowski, Patterson, Gana, McNeil, Garner, Iwobi, Doucouré, Calvert-Lewin.

Varamenn: Begovic, Holgate, Keane, Coady, Davies, Onana, Gray, Maupay, Simms.

Sem sagt, Mina kemur inn fyrir Keane og Garner er enn í byrjunarliðinu á kostnað Onana, sem er á bekknum.

Ritari var á ferðalagi um Kaupmannahafnarflugvöll á meðan á leik stóð en meistari Georg tók að sér að skrifa skýrsluna. Við kunnum honum bestu þakkir fyrir og gefum honum orðið:

Everton byrjaði leikinn hreint frábærlega, eftir aðeins 34 sekúndur skorar Everton eftir flotta sókn, góð pressa Everton á miðjunni varð til þess að þeir ná boltanum af Brighton, Iwobi sendir á Calvert-Lewin, hann snýr og sendir boltann inn í á Doucouré sem setur boltann í markið, staðan 0-1 fyrir Everton. Besta mögulega byrjun á leiknum!

Eftir markið hélt Brighton boltanum mikið en Everton var að verjast vel og koma í veg fyrir að Brigthon næðu almennilegum skotum.

Annað mark Everton kom á 29. mínútu eftir flotta sókn þegar McNeil á frábæra sendingu á Doucouré sem gerði frábærlega vel og skoraði á lofti í nærhornið framhjá Steel í marki Brighton. Staðan orðin 0-2 fyrir Everton.

En Everton voru ekki hættir í fyrri hálfleik því þriðja mark Everton kom á 39. mínútu þegar Iwobi fer fram, sendir á Doucouré sem sendir á McNeil sem setur hann fastann fyrir mark, sem endar með að fara í fótinn á Steel í marki Brighton og þaðan í markið. Sjálfsmark og staðan orðin 0-3.

Everton átti meira að segja annað dauðafæri í lok fyrri hálfleiks, þegar Calvert-Lewin sendi á McNeil sem sendi á Garner en hann náði ekki að setja boltann í netið.

Staðan því 0-3 í hálfleik fyrir Everton, þar sem Everton átti 7 skot á móti 3 hjá Brighton.

Brighton gerði 4 breytingar strax í í hálfeik og settu mikla pressu á Everton. Eins búast mátti við þróaðist seinni háleikurinn þannig að Everton féll mikið til baka og Brighton sótti látlaust en bæði vörnin og Pickford gerðu frábærlega.

Það var svo á 76. mínútu sem að Everton skoraði gegn gangi leiksins í seinni hálfleik, Gana náði boltanum, sendi á Iwobi, sem fór upp kantinn, átti glæsilega sendingu á McNeil sem fór illa með Steel í markinu og varnarmann Brighton og labbaði með boltann inn í markið. Staðan því orðin 0-4 fyrir Everton!

Brighton náði loksins að skora á 79. mínútu þegar sending kemur fyrir markið, Mitoma setur boltann í stöngina og boltinn lendir í Mac Allister sem lá á jörðinni og þaðan fór boltinn inn. Staðan því orðin 1-4 fyrir Everton.

Á 80. mínútu fékk Onana gult spjald fyrir að fagna of mikið fjórða marki Everton en það sem er áhugavert er að hann var ekki inná vellinum, hann var enn ónotaður varamaður. Atvikið var ekki sýnt en ansi áhugaverð uppákoma. Onana kom síðan inná á 87. mínútu, þá með gult spjald og þurfti því að passa sig en honum vr skipt inn á fyrir Gana og Maupay kom inná fyrir Calvert-Lewin.

Everton voru ekki hættir að skora í þessum leik því að á 96. mínútu leiksins skorar McNeil eftir frábæra sendingu frá Onana, Everton vann boltann aftarlega á vellinum, Iwobi sendi á Onana, sem var mjög aftarlega á vellinum, og átti magnaða sendingu fram völlinn á McNeil sem gerði virkilega vel og setur boltann fast upp í nærhornið, staðan því orðin 1-5 fyrir Everton.

Svo fór að leikurinn endaði 1-5 fyrir Everton, algjörlega mögnuð frammistaða hjá Everton gegn virkilega góðu liði. Aðeins annar útisigurinn hjá Everton á leiktíðinni staðreynd og fóru þeir úr 19. sæti upp í 16. sæti. Gríðarlega mikilvæg 3 stig fyrir lokasprettinn í baráttunni að halda sæti í deildinni.

Næsti leikur Everton er á sunnudag kl. 13:00 á Goodison Park gegn Manchester City.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (9), Patterson (9), Mina (8), Tarkowski (7), Mykolenko (8), Garner (8), Gueye (8), Iwobi (7), Doucoure (9), McNeil (9), Calvert-Lewin (8).

Dwight McNeil var maður leiksins að mati Sky Sports. Tveir úr byrjunarliði Brighton fengu 6 í einkunn, aðrir voru með lægra.

Við á everton.is þökkum Georg kærlega fyrir skýrsluna!

9 Athugasemdir

  1. Gestur skrifar:

    Þurfum að lágmarki eitt stig úr þessum leik en líst ekki vel á það þar sem Garner er inná , hann heldur sig við Iwobi sem hefur að spila ílla síðustu leiki en bót í máli að Keane er koninn á bekkinn.

  2. GunniD skrifar:

    Hvað er í gangi!?

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Vó!! Hvað er að gerast??

  4. Eirikur skrifar:

    Á dauða mínum átti ég von enn ekki þessu.
    Nánast að við höfum fengið 4 stig út úr þessum leik með fjórum mörkum í plús. Man ekki eftir 5-1 útisigri í fljótu bragði. Það er von.

  5. AriG skrifar:

    Stórkostlegur leikur Everton. Með svona spilamennsku vinna þeir rest en efast samt um að þeir vinni City. MCNeil var stórkostlegur gef honum 9. Pickford frábær 8, Doucoure frábær 8. Endalaus barátta allra leikmanna Everton. Mina er sennilega besti varnarmaður okkar verst hvað hann meiðist oft.

  6. Halli skrifar:

    Það er auðvelt að velja byrjunarliðið næst ef allir eru heilir

  7. Finnur skrifar:

    Doucouré í liði vikunnar að mati BBC:
    https://www.bbc.com/sport/football/65519818?at_medium=RSS&at_campaign=KARANGA

    Og takk fyrir góða skýrslu, Georg!

  8. Halldór skrifar:

    Þvílíkt gott að Dyche hafi séð að Keane er ekki nógu góður og setti hann á bekkinn og sömuleiðis byrjað með Patterson.
    COYB.

  9. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Jæja Chelski og skunkarnir gerðu okkur ekki sérlega mikla greiða í dag og miðað við úrslit dagsins getum við allt eins búist við Leicester sigri, eða amk jafntefli á mánudaginn. Það er þess vegna gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að fá amk stig á morgun, hvernig það á að gerast veit ég ekki en við verðum til að halda smá pressu á liðin í kringum okkur.