Man United – Everton 2-0

Mynd: Everton FC.

Það er næstum heil umferð í ensku í dag og hún hefst á stórleiknum á Old Trafford, þar sem Everton mætir á heimavöll Manchester United, kl. 11:30 að íslenskum tíma.

Doucouré er í banni í leiknum og maður vonaðist eftir að sjá kannski Garner á miðsvæðinu, á sínum fyrri heimavelli. En, Dyche ákvað að setja Simms í liðið fyrir hann. Það er svo sem ekki verra. Ætli þetta sé ekki sama leikjaplan og áður, nema Iwobi tekur stöðu Doucouré á miðjunni, Gray fer á vinstri kantinn og Simms í framlínuna.

Uppstillingin: Pickford, Godfrey, Keane, Tarkowski, Coleman (fyrirliði), Gana, McNeil, Gray, Onana, Iwobi, Simms.

Varamenn: Begovic, Mykolenko, Mina, Coady, Holgate, Patterson, Davies, Garner, Maupay.

Smá taugaveikluð byrjun á leiknum frá United og Everton náði að setja pressu á vörnina en það reyndist skammlifað og svo tóku United menn öll völd á leiknum. 

Rashford fékk dauðafæri strax á 7. mínútu, þegar hann komst einn á móti Pickford með Tarkowski á hælum sér en skaut sem betur fer eiginlega beint á Pickford sem náði að slá boltann frá.

Onana fékk fínt skallafæri á 10. mínútu, eftir háa fyrirgjöf utan af kanti frá Gray, en náði ekki að stýra boltanum á mark og boltinn því hátt yfir.

Á 11. mínútu átti United að komast yfir þegar Antony fékk boltann rétt utan teigs eftir hornspyrnu. Hann náði að leggja boltann fyrir sig með einni snertingu og skaut í innanverða stöng vinstra megin. Boltinn laus út í teig þar sem Wan-Bisakka var mættur og þurfti bara að vera snöggur að hugsa til að setja hann í autt netið. En sem betur fer hitti hann ekki markið því boltinn rúllaði rétt framhjá fjærstönginni.

Á 19. mínútu hefði Everton átt að komast yfir þegar Everton náði flottu þríhyrningaspili upp hægri kant sem endaði með því að Simms komst í dauðafæri upp við mark en hitti boltann illa og hann rúllaði framhjá stönginni. Besta færi Everton í fyrri hálfleik.

United menn stöðugt hættulegir í skyndisóknum og Everton mætti ekkert hætta sér framar á völlinn því United menn voru alltaf mættir í áhlaupið á vörnina. Úr einu slíku tækifæri komst Sabitser í flott færi innan teigs en brást bogalistin. Stuttu síðar komst Antony í algjört dauðfæri eftir hlaup upp hægri kant. Náði að komast einn á móti Pickford en Pickford sá við honum með landsliðsklassa-vörslu.

Hinum megin komst Gray næstum einn á móti markverði, en Maguire náði að loka á hann og koma boltanum í horn, sem ekkert kom úr.

Enn á ný komust leikmenn United einir á móti markverði, í þetta skipti aftur Antony, en Godfrey náði að hlaupa hann uppi og setja fótinn fyrir á hárréttu augnabliki. 

Everton stöðugt að leika sér að eldinum og það hélt áfram því stuttu síðar kom hár bolti yfir varnarlínuna, í hlaupið hjá Rashford en Pickford, sem var svolítið seinn út úr marki, náði að loka á hann — en bara rétt svo, því boltinn fór í ökklann á honum.

Stíflan brast svo loks á 35. mínútu eftir — enn á ný — stungusendingu gegnum vörnina. Scott McTominay fékk lágan bolta og var mættur nálægt stöng. Tók skot í fyrstu snertingu, framhjá Pickford sem kom út á móti honum. Þetta var búið að vera skrifað í skýin frá nánast upphafi leiks. United komnir 1-0 yfir.

Rétt fyrir hálfleik fékk Antony enn eitt frábært færið, hægra megin inni í teig, frá þeim séð en aftur sá Pickford við honum með frábærri vörslu. 

Afleitur fyrri hálfleikur hjá Everton og manni leið hálfpartinn eins og það væri bara einn varnarmaður í liðinu (Pickford). Restin var bara að elta skugga og ótrúlegt að staðan skyldi vera 1-0 í hálfleik. 

En, 1-0 var staðan og það getur allt gerst enn.

Ein breyting hjá Everton í hálfleik. Mykolenko kom inn á fyrir Godfrey, sem sýndi eiginlega vandræðalega lélega frammistöðu í vinstri bakverðinum í dag.

Eitthvað breytti Dyche líka áherslunum á miðjusvæðinu, því Fernandes fékk meiri dekkun og leikur Everton batnaði nokkuð. Lítið um færi samt báðum megin.

Davies og Garner komu inn á á 60. mínútu fyrir Gana og Onana en sá síðastnefndi var eitthvað að kveinka sér vegna meiðsla. Leit út fyrir að vera smávægilegt samt.

Everton náði ágætis kafla í seinni hálfleik og United fengu ekki almennilegt færi fyrr en á 66. mínútu, eftir skyndisókn frá United þar sem Fernandes var mættur fremstur til að reyna að skalla bolta yfir Pickford, en Pickford varði vel.

Maupay kom inn á fyrir Simms á 70. mínútu en aðeins tveimur mínútum síðar náðu United að innsigla sigurinn. Everton verið inni í leiknum allan seinni hálfleik og haldið United niðri en það tók smá varnarmistök frá Coleman fyrir þá að skapa sér almennilegt færi. Coleman reyndi að ná stjórn á háum bolta en tókst ekki, lagði hann eiginlega bara fyrir Rashford (?) sem náði að koma boltanum á Martial fyrir framan markið og honum brást ekki bogalistin. Game over. 2-0.

United menn skiptu við þetta yfir í hundleiðinlegan reitabolta en gerðust aðeins kærulausir og McTominay lét stela af sér boltanum. Everton brunaði beint í sókn þar sem Gray komst í færi inni í teig vinstra megin á 75. mínútu, en skotið slakt og framhjá marki.

Coleman reyndi skot utan teigs á 80. mínútu, hitti boltann vel en beint á De Gea. United áttu einhver hálffæri líka, en allt beint á Pickford ef það rataði á markið.

Patterson inn á fyrir Coleman á 87. mínútu. Gott að sjá hann koma aftur eftir löng meiðsli.

En United landaði sigrinum í dag, eins og kannski von var á. Útileikirnir enn ekki að gefa mörg stig og þetta mun líklega ráðast á heimavelli.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Coleman (6), Tarkowski (6), Keane (6), Godfrey (5), Onana (5), Gueye (5), Iwobi (6), McNeil (5), Gray (5), Simms (5). Varamenn: Mykolenko (5), Maupay (5), Davies (5), Garner (5).

5 Athugasemdir

 1. Ari S skrifar:

  Liðið er svona:

  Pickford, Coleman, Godfrey, Keane, Tarkowski, Iwobi, Onana, Gana, McNeil, Gray, Simms.

 2. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Ég veit ekki hvers vegna en ég er ekki alveg í hnút og með ræpu af kvíða, það getur nú varla vitað á gott. Vonum bara það besta. Jafntefli væri frábært.

 3. Ari S skrifar:

  Vonandi kemur bara Garner inná í síðari hálfleik og skorar sigurmarkið 🙂

 4. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Þvílík helvítis hörmung þessi fyrri hálfleikur. Megum þakka fyrir að vera ekki fjórum eða fimm mörkum undir.
  Vonandi verður seinni hálfleikur ekki jafn hræðilegur.

 5. Gestur skrifar:

  Everton menn mjög slappir í dag og sýnir hvað það var glórulaust að fá engann inn í síðasta glugga