Chelsea – Everton 2-2

Mynd: Everton FC.

Lokaleikur dagsins í ensku Úrvalsdeildinni var leikur Everton á Brúnni við Chelsea. Maður hefði kannski viljað að þessi leikur hefði verið leikinn fyrr, því þeir voru mikið í basli með úrslit fyrir nokkru en virtust loks vera að smella undir Graham Potter. Everton var í 15. sæti, fyrir leiki dagsins, en aðeins einu stigi frá fallsæti.

Uppstillingin: Pickford, Godfrey, Keane, Tarkowski, Coleman (fyrirliði), Gana, McNeil, Onana, Doucouré, Iwobi, Gray.

Varamenn: Begovic, Mykolenko, Coady, Holgate, Mina, Maupay, Garner, Davies, Simms.

Stóra spurningin var (enn á ný) hvort Calvert-Lewin yrði kominn í leikform fyrir þennan leik en svo var ekki. Það kom því í hlut Gray að leiða línuna fyrir Everton í dag. En þá að leiknum…

Chelsea menn líflegir frá upphafi, miklu meira með boltann og Everton liðið sat djúpt og biðu átekta en voru oft að elta skugga. Chelsea menn sterkari en ekkert alvarlegt skot rataði á mörkin (frá hvorugu liði). 

0-0 í hálfleik.

Líf og fjör var allan seinni hálfleikinn. Ákefð var í leik Everton frá upphafi en Chelsea menn með fyrsta færið sem reyndi eitthvað á Pickford, skalli utan úr teig, sem hann sló frá. Engin sérstök hætta, samt, en það þarf að verja þetta líka. 

En markið frá Chelsea kom á 53. mínútu, eftir hreinsun frá Keane (?) út úr teig, beint á Joao Felix, sem reyndi skot og var heppinn að boltinn fór milli fóta á varnarmanni og rétt í innanverða stöng og inn. 1-0 fyrir Chelsea.

En Everton jafnaði á 69. mínútu — úr horni. Surprise, surprise! Tarkowski náði að koma boltanum á mark, með einhverju sem leit út eins og skalli, en var eiginlega öxl. Það skiptir þó engu, því Doucouré náði að stýra boltanum framhjá markverði með skalla og þó Chelsea maður reyndi að hreinsa af marklínu þá var það of seint. Boltinn var kominn inn fyrir línuna og staðan orðin 1-1! Game on!

En þetta reyndist skammlifað, fannst manni, því Chelsea fékk víti á 73. mínútu þegar Godfrey felldi Reece, sóknarmann Chelsea, innan teigs. Lítið við því að segja og Havertz skoraði örugglega. 2-1.

Gana, sem var á gulu, fór út af fyrir Simms á 78. mínútu. Sóknarsinnuð skipting — mjög athyglisvert! En eitthvað sá Dyche, sem reyndist rétt, því Everton átti betri færi það sem eftir lifði leiks.

Á 82. mínútu átti McNeil flott skot utan úr teig vinstra megin, en boltinn sigldi ekki mjög langt framhjá stönginni hægra megin. Simms var mættur ef boltinn skyldi detta fyrir hann, en það gerði hann ekki.

Mykolenko kom svo inn á fyrir Coleman á 84. mínútu og Godfrey tók stöðu Colemans við það. 

Rétt fyrir lok venjulegs leiktíma náði Everton hins vegar að jafna! Og hver var þar að verki, annar en 22ja ára guttinn, Ellis Simms, sem Dyche hafði skipt inn á. Og sá launaði aldeilis greiðann með sínu fyrsta mark fyrir aðalliðið! Fékk boltann frá Doucouré, afgreiddi Koulibali með fyrstu snertingu og komst einn inn fyrir. Þar mætti hann Kepa í markinu en náði lágu skoti á fjærstöng, alveg upp við líkama markvarðar — skot sem alltaf er erfitt að eiga við. Markvörður rétt náði fingrum á bolta en inn fór hann. Staðan orðin jöfn aftur, 2-2!! 

Og þannig endaði leikurinn. Gríðarlega mikilvægt stig á Stamford Bridge í kvöld. Fín frammistaða hjá okkar mönnum.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Coleman (6), Keane (7), Tarkowski (6), Godfrey (6), Iwobi (6), Onana (6), Gueye (6), Doucoure (7), McNeil (6), Gray (6). Varamenn: Simms (7).

9 Athugasemdir

 1. Ari S skrifar:

  Hæ, gæti verið athuyglisvert að hlusta á þennann hlaðvarpsþátt. Ég var beðinn um að setja þetta á síðuna af dyggum stuðningsmanni hér á landi.

  https://www.mbl.is/hladvarp/hlusta/fotboltinet/thattur/688cd305376cf4090d70a100206c0753/

 2. Ari S skrifar:

  Vel gert hjá Ellis Simms. Gott að fá stig í dag. Karakter liðsins er á uppleið greinilega. Með baráttuna að leiðarljósi. Áfram Everton!

  • Ari S skrifar:

   … smá leiðrétting, þetta var náttúrulega meira en vel gert hjá Ellis Simms. Þetta var frábært mark sérstaklega vegna þess að hann fór auðveldlega fram hjá varnarmanni og þetta var hans fyrsta mark í ensku úrvalsdeildinni. Frábærlega gert hjá stráknum, vonandi heldur hann þessu áfram og skorar fleiri mörk 🙂

 3. Finnur skrifar:

  Frábært stig á útivelli sem hefur reynst okkur erfiður hingað til.

 4. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Er ekki bara hægt að láta okkur í friði, andskotinn hafi það?

  Þetta fær pottþétt flýtimeðferð og það verða dregin af okkur hæfilega mörg stig í lok tímabils til að koma okkur niður, svona ef við skyldum nú álpast til bjarga okkur frá falli.

  https://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/football-news/everton-statement-premier-league-breaking-26555847

  Ef allt fer á versta veg þá vitum við amk hverjum er um að kenna, Kenwright, Moshiri og hinum fíflunum í stjórninni.

  • Finnur skrifar:

   Það eru ekki nema tveir mánuðir eftir af tímabilinu og svona hlutir eiga það til að gerast hægt. Kæmi mér ekkert á óvart þó að þetta yrði ákveðið eftir að þessu tímabili lýkur og að refsing (ef einhver) fari í gildi á næsta tímabili, sem gefur allavega smá andrými.

   Everton er annars búið að vera að vinna með knattspyrnuyfirvöldum og fá samþykkt bæði sitt plan og útfærsluna á því, sem gerir þetta mál pínu spes fyrir Premier League að segja allt í einu að þetta gangi ekki upp. En, hvað veit ég…

 5. Finnur skrifar:

  Pickford með tvær vörslur í samantekt yfir bestu vörslurnar á tímabilinu hingað til…
  https://www.mbl.is/sport/enski/2023/03/27/bestu_markvorslur_timabilsins_til_thessa_myndskeid/

  Svo er einn Everton leikmaður líka með tilkall til marks tímabilsins (leyfi ykkur að rifja upp hver það gæti verið)…
  https://www.mbl.is/sport/enski/2023/03/27/fallegustu_mork_timabilsins_til_thessa_myndskeid/

 6. Diddi skrifar:

  ég treysti mér allavega til að spá því að ef Richarlison hefur jafnað sig af meiðslunum og leikur gegn okkur á mánudagskvöldið þá muni hann skora sitt fyrsta úrvalsdeildarmark fyrir tottarana.