Sydney Super Cup: Sigur á Celtic í fyrsta leik

Mynd: Everton FC.

Í dag hófst mikil fótboltaveisla, eins og alþjóð veit, þegar Everton mætti skosku deildar- og deildarbikarmeisturum Celtic í Sydney Super Cup í Ástralíu. Everton var án nokkurra leikmanna, sem allir voru kallaðir til liðs við sitt landslið til að spila á einhverjum alþjóðlegum leikum í Katar. Held það séu vináttuleikir — hlýtur að vera. Allavega…

Sydney Cup er fjögurra liða mót sem ætti að hjálpa að stytta okkur stundir fram að næsta leik í Úrvalsdeildinni, sem er í aðdraganda jóla (!), en auk Everton og Celtic taka tvö önnur lið þátt, sem teljast spila á heimavelli: Sydney FC og Western Sydney Wanderers.

Yfir 41 þúsund manns voru á pöllunum til að fygjast með þessum vináttuleik. Ekki slæmt! Hægt að horfa á upptökuna hér.

Uppstillingin: Begovic, Mykolenko, Tarkowski, Mina, Keane, Patterson, Gordon, Gray, Doucouré, Maupay, Price.

Varamenn: Lonergan, Vinagre, Crellin, Holgate, McNeil, Cannon, Quirk, Anderson, Mills.

Hvað á maður að segja um þessa uppstillingu…? Fjórir leikmenn úr aðalliði Everton fóru náttúrulega á HM í Katar (Pickford, Coady, Gana, Onana) og því kemur Begovic í markið fyrir Pickford, Mina og/eða Keane inn fyrir Coady í miðvörðinn og ungliðinn Isaac Price (19 ára) sem og Anthony Gordon komu inn fyrir Gana og Onana á miðjunni.

Varamannabekkurinn, tja… verður að viðurkennast að er mjög óreyndur, svo ekki sé meira sagt. Ég held að enginn annar en Holgate og McNeil séu með meira en handfylli leikja fyrir aðallið Everton. Jafnvel spurning hvort nokkur hinna nái… umm… eigum við að segja þremur leikjum með aðalliðinu (?). Maður veltir fyrir sér hvar nöfn eins og Coleman, Godfrey, Iwobi, Davies, Garner og Calvert-Lewin væru. Vissulega er eitthvað um meiðsli í þeim lista en það vakti athygli manns að þeir væru allir fjarverandi.

En þá að leiknum… 

Skosku meistararnir höfðu mætt til Ástralíu nokkrum dögum áður en Everton mættu og því náð að jafna sig á flugum og tímamismuni og mættu einbeittir til leiks. Þeir höfðu tapað sínum fyrsta leik 2-1 í þessari keppni gegn Syndey FC og því staðráðnir í að gera betur Leikurinn var því að mestu leikinn á vallarhelmingi Everton til að byrja með, sem gerðu vel í að standast álagið.

Fyrsta færið kom hins vegar eftir fína skyndisókn Everton þar sem Maupay fann Gray inni í teig. Skotið þó blokkerað af varnarmanni. Besta færi leiksins fram að því. 

En næsta færi Everton var ennþá betra. Mykolenko sendi frábæra langa sendingu fram völlinn á Maupay, sem reyndi að lyfta boltanum yfir markvörð, en boltinn skoppaði rétt framhjá stöng. Óheppinn að skora ekki.

Tarkowski fékk svo frían skalla á mark eftir hornspyrnu á 19. mínútu, en skallaði hátt yfir. Annað gott færi fór þar forgörðum.

Celtic menn fengu fínt færi á 29. mínútu eftir aukaspyrnu en boltinn fór í ofanverða þverslá og þaðan út.

Everton náði frábærri skyndisókn á 33. mínútu þegar Gordon brunaði upp völlinn með boltann og fann Gray inn í teig en skotið í varnarmann og í horn (sem ekkert kom úr).

Celtic menn náðu skoti á mark á 35. mínútu, eiginlega pínulítið gegn gangi leiks, en skotið beint á Begovic. Þeir áttu svo langskot á mark á síðustu sekúndu hálfleiksins en það var varið.

0-0 í hálfleik. Tvær breytingar á liði Everton: Holgate og McNeil komu inn á fyrir Mina og Doucouré.

Everton fékk frábæra skyndisókn strax í upphafi seinni hálfleiks sem endaði með því að Mykolenko sendi frábæra sendingu fyrir mark en enginn var þar mættur til að pota inn (Gray aðeins of aftarlega til að ná að nýta sér það).

Celtic svöruðu með algjöru dauðafæri, einn á móti markverði af „point blank range“ en Begovic varði glæsilega. Samt líklega rangstaða, að mati þular.

Everton komst ansi nálægt því að skora í næstu sókn þegar fyrirgjöf frá hægri breytti stefnu af varnarmanni og endaði næstum því í netinu en fór í hliðarnetið utanvert. Joe Hart í marki Celtic mátti þakka fyrir það. Hornið í kjölfarið var hár bolti inn í teig sem Keane skallaði framhjá.

Celtic menn svöruðu með skoti á mark eftir að Patterson missti boltann nærri jaðar vítateigs hægra megin (frá Everton séð) en skotið yfir. Begovic reyndar með þetta allan tímann. Engin hætta, enda hafði hann leyft boltanum að fara yfir. Áhorfendur vel á bandi Everton og sungu Spirit of the Blues í kjölfarið. Fjörugur og skemmtilegur leikur.

Vinagre kom svo inn á fyrir Mykolenko á 67. mínútu. 

Holgate átti mjög flott móment á 68. mínútu þegar Celtic menn komust óvænt í skyndisókn og sendu langa sendingu á sinn fremsta mann. Holgate náði að trufla Celtic manninn aðeins með góðri handavinnu og kom sér þannig fram fyrir hann og náði að láta brjóta á sér, sem kláraði þetta dauðafæri Celtic.

Tvöföld skipting á 75. mínútu: Cannon og Mills inn á fyrir Maupay og Gray og mannabreytingunni fylgdi líka skipun frá Lampard að auka á pressuna, að því er virtist. 

Lítið um færi þó, fram undir lok leiks þegar Celtic fengu algjört dauðafæri. Brutu reyndar á Vinagre (sem var að reyna að láta boltann rúlla út af) til að skapa færið en sá sem það gerði sendi fyrir og sóknarmaður Celtic missti af algjörum „sitter“ eins og þulurinn kallaði það.

0-0 lokastaðan og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni.

Michael Keane átti fyrstu spyrnuna, lágt í hægra hornið og Joe Hart hreyfði sig varla í markinu. Líklega búist við einhverju öðru. Celtic menn svöruðu með skoti hátt yfir mark og staðan því 1-0 fyrir Everton eftir fyrstu umferð vítaspyrnukeppninnar.

Ungliðinn Tom Cannon setti boltann einnig niðri í hægra hornið og Celtic menn svöruðu með því að klúðra sínu öðru víti í röð með skoti í stöng! 2-0 fyrir Everton eftir aðra umferð!

Patterson setti boltann í innanvert hliðarnetið vinstra megin úr sinni spyrnu og Celtic menn svöruðu í sömu mynt (vinstra megin). 3-1 fyrir Everton.

Stanley Mills hefði þar með getað endað vítaspyrnukeppnina með sigri Everton með því að skora en Joe Hart náði að verja frá honum. Celtic menn skoruðu svo uppi í vinstra hornið. Gríðarlega öruggt víti sem hélt þeim á lífi. Staðan orðin 3-2 fyrir Everton.

Gordon þurfti svo bara að skora úr sinni spyrnu til að tryggja Everton sigurinn og það gerði hann með stæl. 4-2 sigur Everton staðreynd úr fyrsta leik þeirra á Sydney Super Cup. Fín byrjun. 

3 Athugasemdir

 1. Ari S skrifar:

  0-0 eftir 90 mínútur. 4-2 sigur eftir vítaspyrnukeppni þar sem að Anthony Gordon skoraði 4. vítið og tryggði Everton sigur. Ég ætla as ð reyna að sjá leikinn á eftir. Kær kveðja, Ari.

 2. Ari S skrifar:

  Keane – scored (0-1)
  Giakamakis – missed (0-1)
  Cannon – scored (0-2)
  Hatate – missed (0-2)
  Patterson – scored (0-3)
  Forest – scored (1-3)
  Mills – saved (1-3)
  – scored (2-3)
  Gordon – scored (2-4)

 3. Finnur skrifar:

  Takk Ari! 🙂