Everton – Leicester 0-2

Mynd: Everton FC.

Það kemur í hlut Everton að spila síðasta leik dagsins í ensku en hann er á heimavelli kl. 17:30 gegn Leicester í 14. umferð Úrvalsdeildarinnar. Til merkis um það hversu þétt þetta er í augnablikinu þá eru Leicester menn í fallsæti (17. sæti) en myndu jafna Everton (í 13. sæti) að stigum ef þeir ná sigri. Á hinn bóginn myndi Everton, með sigri í dag, lyfta sér rétt svo upp fyrir miðja töflu, og enda í 9. sæti — einu stigi fyrir ofan Liverpool en þá væru aðeins fjögur stig í Evrópusæti. Þetta getur verið fljótt að gerast en Everton er nú taplaust í tveimur leikjum (með fjögur stig úr síðustu tveimur) en Leicester menn töpuðu síðasta leik sínum (reyndar gegn City) eftir tvo sigurleiki í röð þar á undan, gegn andstæðingum við neðri hluta töflunnar (Leeds og Wolves).

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Coady, Tarkowski, Coleman (fyrirliði), Gana, Onana, Iwobi, McNeil, Gray, Calvert-Lewin.

Varamenn: Begovic, Holgate, Keane, Patterson, Doucouré, Davies, Garner, Gordon, Maupay.

Leicester var mun betra liðið í fyrri hálfleik þó að bestu færin voru Everton megin. Það tók Everton heilar fimm mínútur að vakna til lífsins í leiknum og á þeim tíma höfðu Leicester menn náð tveimur tilraunum á rammann, það seinna fínt skot sem Pickford þurfti að kasta sér niður og slá til hliðar. 

En færið sem Everton fékk á 5. mínútu, þegar risinn vaknaði loks, var frábært. Gana pressaði varnarmann vel við vítateig Leicester og vann af honum boltann. Sendi á Calvert-Lewin inn í teig en hann var ekki í góðu færi. En Calvert-Lewin náði að renna boltanum inn fyrir vörnina á Iwobi, sem kom á hlaupinu gegnum vörnina, en hann skaut rétt framhjá. Hefði átt að skora þar.

Ég missti af um nokkurra mínútna kafla frá um 10. mínútu þegar ég þurfti að þrífa upp ælu eftir Llama dýrið mitt en ekki var mikið að frétta þegar ég byrjaði að horfa aftur fyrr en á 23. mínútu, þegar Tarkowski átti frábæran skalla á mark sem var varið í horn.

Leicester menn voru hins vegar sífellt að gera sig líklegri og eftir tæplega hálftíma komst Madison í skotfæri en blokkerað í horn. Þeir komust svo stuttu síðar í skyndisókn eftir slæma sendingu fram frá Tarkowski en skotið breytti stefnu af varnarmanni og rétt framhjá stönginni í horn. Leicester menn enn að minna á sig.

Everton fékk frábært tækifæri til að skora eftir skalla frá Calvert-Lewin innan teigs sem var á leið á mark en fór í varnarmann og út aftur í teiginn. Onana náði boltanum en tókst ekki að skapa neitt og var svo dæmdur brotlegur.  

Leicester skoruðu svo rétt fyrir hálfleik og það mark var af dýrari gerðinni. Madison var í þvögu inni í teig og gaf út á Tielemans, sem tók boltann á lærið og þrumaði honum svo upp í samskeytin vinstra megin. Algjörlega óverjandi og líklega mark mánaðarins. 

Leicester 0-1 yfir í hálfleik og líklega verðskuldað miðað við spilamennsku þeirra, þó að Everton hefði átt mörg tækifæri til að skora.

Ein breyting í hálfleik: Garner inn á fyrir Gana, en Everton liðið var líflegt í upphafi seinni hálfleiks. Meiri orka og ákefð en enn vantaði bitið í sóknarleikinn.

Gray vann boltann á eigin vallarhelmingi eftir aðeins þrjár mínútur af seinni hálfleik og brunaði fram. Eftir smá samspil við Iwobi endaði sóknin með dauðafæri hjá Calvert-Lewin þegar Iwobi sá hlaup hans í gegn og sendi stungusendingu gegnum vörnina. En, því miður, kom markvörður Leicester út á móti og varði meistaralega. Leicester menn stálheppnir þar.

Lítið um færi fram að 60. mínútu þegar Madison átti þrumuskot í stöngina. Calvert-Lewin fór svo út af fyrir Maupay strax í kjölfarið. Líklega einhver smá meiðsli hjá Calvert-Lewin, vonandi ekkert alvarlegt. Ekki það sem liðið þarf á þessu augnabliki. Doucouré kom svo inn á fyrir Onana í kjölfarið og um tíu mínútum síðar fóru Coleman og McNeil út af fyrir Patterson og Gordon. En það breytti litlu.

Restin af leiknum var mjög frústrerandi að horfa á. Leicester menn höndluðu forystuna afskaplega vel og sóknarlínu Everton vantaði allt bit. Það þurfti svo bara eina skyndisókn frá Leicester til að klára þennan leik þegar Barnes kom þeim tveimur mörkum yfir. 0-2. Game over.

Leicester menn voru meira að segja líklegri til að bæta við en Everton að minnka muninn, þar sem þeir komust í skyndisókn undir lokin og Pickford varði frá Barnes sem var kominn einn í gegn.

Leicester menn vel að sigrinum komnir.

Einkunnir Sky Sports ekki komnar. Uppfæri síðar.

Restin af leikskýrslu kemur síðar. Endilega látið í ykkur heyra í kommentakerfinu.

6 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Þvílík hörmung þessi fyrri hálfleikur og mesta furða að staðan skuli bara vera 0-1. Leicester svo miklu, miklu betri en Everton sem hafa verið algjörlega hræðilegir og líta alls ekki út fyrir að vera í efstu deild enskrar knattspyrnu. Vonandi lagast leikur liðsins í seinni hálfleik en ég hef litla trú á því. Það má kallast gott ef Everton nær að jafna og halda einu stigi.

 2. Gestur skrifar:

  Hörmung þetta Everton lið, Lampard á ekki mikið eftir

 3. AriG skrifar:

  Leikur Everton var til skammar. Held að Lampard sé buinn að missa öll tök á Everton. HM veður honum til bjargar fær að hanga inni fram yfir HM og svo verður hann rekinn fljótlega eftir áramót nema það skeður kraftaverk hjá Everton. Ég er eiginlega í sjokki eftir leikinn.

  • Ari S skrifar:

   Ég var einnig í sjokki eftir leikinn. Við vitum öll að Leicester City hefur gengið illa og að þeir ættu að vera ofar. Þeir eru með góða leikmenn og eiga að vera miklu ofar en þeir eru. Þetta var þeirra dagur og alls ekki okkar dagur. Fyrir nokkrum dögum vildu margir þeirra reka Brendan Rodgers og núna vilja menn reka Frank Lampard??? Málið er að það er ekki alltaf lausnin að reka og reka.

   Núna er Heimsmeistara keppnin í Quatar á næsta leitiog svo kemur janúarglugginn, sjáum til hvað gerist á þessum tíma. Ég er alls ekki án´gður nafni enlausnin er EKKI að reka Lampard núna að mínu mati. Við erum núna í betri málum en síðasta tímabil endaði þó það sé ekki langt undan í því dæmi.

   kær kveðja, Ari S.

 4. AriG skrifar:

  Takk nafni. Ég var kannski of bráður ætlaðist ekki til að reka Lampart núna. Everton fær gott frí meðan HM stendur yfir þá getur Lampart farið yfir málin í rólegheitum. Vörnin er vissulega mun betri núna nema í þessum leik en sóknarleikurinn er oftast nær algjörlega bitlaus nema í leiknum gegn Crystal Palace þar var hann frábær. Lýst ekki á að Calvert Lewin meiðist aftur eini almennilegri sóknarmaður Everton í dag. Eins gott að Everton vinni næstu helgi annars bíður botnbaráttu aftur hjá Everton er ég hræddur um. Hlakka til HM. Lampart fær janúar mánuð til að ná sæmilegrum árangri með Everton annars er ég hræddur um að hann fái ekki meiri sjens áfram. Þurfum að kaupa alvöru sóknarmann í janúar með Calvert Lewin .

 5. Diddi skrifar:

  Eddie Howe þurfti ekki mikinn tíma til að laga leik Newcastle! Yfirleitt þarf ekki marga mánuði fyrir stjóra að gera það en til þess þarf að vita hvað þarf að gera og Lampard hefur bara ekki hugmynd um það. Og þeir sem eru á móti DCL ættu að muna að þegar voru skapandi menn með honum þá skoraði hann og ekkert óeðlilegt að hann ströggli með þessa hálfvita eins og mcneil, gray, iwobi og gordon í kringum sig. Ég er ekkert viss um að ferðataska með 60mill punda væri minna skapandi