Brentford – Everton 1-1

Everton átti leik við Brentford á útivelli í dag kl. 14:00.

Uppstillingin: Pickford (fyrirliði), Mykolenko, Tarkowski, Coady, Holgate, Patterson, Onana, Iwobi, McNeil, Gray, Gordon.

Varamenn: Begovic, Keane, Allan, Coleman, Davies, Vinagre, Rondon, Warrington, Mills.

Brentford settu pressu á vörn Everton í upphafi en lítið að gerast í upphafi leiks. Á um 15. mínútu lifnaði aðeins yfir þessu þegar Tarkowski var næstum búin að næla sér í stöðu einn á móti markverði eftir aukaspyrnu en náði ekki stöðva boltann sem sigldi framhjá honum. Brentford menn svöruðu með skoti í stöng og út, strax í næstu sókn og Gordon fékk skotfæri í næstu sókn Everton en varið. Svo róaðist þetta aðeins.

En á 24. mínutu skoraði Anthony Gordon frábært mark. Löng sending úr öftustu vörn fram á við, beint á Gordon, sem tók eina snertingu inn í teig með miðvörð á hælunum og lagði boltann í hliðarnetið framhjá markverði. Gúrkuslakur, eins og enski þulurinn orðaði það („cool as a cucumber“).

Önnur tilraun var framkvæmd með von um sama árangur á 30. mínútu, í þetta skiptið á Gray inni í teig, en skotið blokkerað af varnarmanni.

Á 33. mínútu gerði Patterson mistök og hleypti sóknarmanni inn fyrir sig. Hár bolti fyrir mark sem sóknarmaður Brentford skallaði í innanverða stöng og út. Frákastið beint á annan sóknarmann Brentford, sem þurfti bara að skalla boltann inn, eða setja hann í autt netið með fætinum og sem betur fer reyndi hann það síðarnefnda og lúðraði boltanum yfir mark. 
Þeir fengu svo ákjósanlegt skotfæri á 40. mínútu en boltinn rétt framhjá samskeytunum.

Ekkert að ganga hjá Brentford mönnum að klára færin.

Lok fyrri hálfleiks átti Everton þó, með tveimur hálffærum. Engin mörk þó. 0-1 í hálfleik.

Brentford menn pressuðu mun stífar í seinni hálfleik og var greinilega uppálagt að dæla háum boltum inn í teig, sem skapaði oft usla.

Varnarleikur beggja var liða ekki upp á marga fiska en Brentford mönnum virtist fyrirmunað að skora. Þeir komust í fína pressu og fengu tvö færi, það seinna sínu betra, hjólhestaspyrna sem fór í neðanverða slá og þaðan í fangið á Pickford. Enn á ný hurð að skella nærri hælum fyrir Everton.

Everton komst í skyndisókn á 55. mínútu eftir frábæra tæklingu frá Onana. Skot frá McNeil, hins vegar, blokkerað af varnarmanni, hægra megin í teig. Boltinn barst til Gray (?) sem reyndi skot en markvörður náði að verja í horn.

Brentford menn reyndu skot utan teigs á 63. mínútu en boltinn sigldi rétt framhjá samskeytunum. 

Miðvarðarbölvun tímabilsins hélt áfram þegar Holgate var skipt út af á 66. mínútu vegna meiðsla. Keane kom inn á fyrir hann og hans fyrsta verk var að gefa horn, sem Brentford menn voru næstum búnir að skora úr. Þeir útfærðu hornspyrnuna vel og náðu að skalla lágan bolta alveg út við stöng vinstra megin, frá Pickford séð, sem kastaði sér á boltann og varði stórglæsilega í horn. Stefndi í taugatrekkjandi 20 mínútur, enda virtist markið liggja í loftinu.
Gray komst svo í algjört dauðafæri þegar Onana setti hann inn fyrir vörn Brentford með stungusendingu en Gray beið of lengi með skotið, sem hleypti Ben Mee í blokkeringu og færið fór forgörðum. Þar hefði Everton átt að gera út um leikinn.

Brentford menn töldu sig eiga að fá víti á 76. mínútu þegar boltinn fór í hendina á Iwobi innan teigs, en endursýning sýndi að boltinn hafði farið í mjöðmina á honum fyrst og þaðan í hendina og þar með ekki víti. Davies kom inn á fyrir Onana í kjölfarið.

Innskot ritara: Svo virðist sem restin af skýrslu hafi fallið niður, einhverra hluta vegna, en hér kemur endinn aftur:

Mark Brentford lá í loftinu og þeim tókst að jafna rétt undir lokin, eftir hornspyrnu, þegar skalli var framlengdur á fjærstöng þar sem leikmaður Brentford þurfti bara að pota inn. Varnarvinnan ekki upp á marga fiska þar, enda þrír lausir Everton menn í kringum markaskorarann en engum datt í hug að dekka hann.

1-1 jafntefli því niðurstaðan.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Holgate (6), Coady (7), Tarkowski (8), Patterson (5), Onana (7), Iwobi (7), Mykolenko (6), Gordon (7), McNeil (6), Gray (6). Varamenn: Keane (6), Davies (6).

Maður leiksins að mati Sky: James Tarkowski.

6 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Enn enginn framherji, þá er það besta sem við getum vonast eftir jafntefli. Annars skorar Brentford yfirleitt 2 mörk í leik svo ég spái 2-0 (lágmark) fyrir Brentford.

 2. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Okkar menn eru að komast upp með allskonar skrípalæti í vörninni svo það jaðrar við kraftaverk að staðan skuli vera 0-1 í hálfleik. Vonandi taka menn sig saman í andlitinu í seinni hálfleik og spili eins og atvinnumenn en ekki eins og skólastrákar. Annars er ég sæmilega sáttur við fyrri hálfleikinn að öðru leyti, þó mætti sóknarleikurinn vera hraðari.

 3. Gunnþór skrifar:

  Hvernig er kaupstefna Everton eru menn að stefna niður hvað er málið

 4. AriG skrifar:

  Ég var fyrir miklum vonbrigðum með leik Everton. Varnarleikurinn var hræðilegur og bara heppni kom fyrir sigur Brentford 3 stangarskot t.d. Flott markið hjá Anthony Gordan. Mér fannst báðir bakverðirnir koma best frá leiknum. Miðjan öll var í tómu tjóni Onana þarf nokkra leiki að komast í form en örugglega mikið efni þarna. Mér fannst sóknarmennirnir 3 komast þokkalega frá þessum leik þótt McNeil heillar mig ekkert sérstaklega ennþá en kemur vonandi með betri sóknarmönnum inní teig.

 5. Gestur skrifar:

  Nú er búið að reka stjóra hjá liði sem er fyrir ofan okkur, hvað fær Lampard langan tíma hjá Everton? Það hefur ekki gengið vel hjá Everton í þessum fjórum leikjum og útileikur í kvöld sem er ekki gott.

%d bloggers like this: