Everton – Burnley 3-1

Mynd: Everton FC.

Fjórðu umferð ensku Úrvalsdeildarinnar lauk með sigurleik Everton gegn Burnley í kvöld en með sigri komst Everton upp í fjórða sætið og jafnaði þar með stigafölda efsta liðsins, sem í augnablikinu er Man United. Stærðfræðilegur möguleiki var á að ná efsta sætinu af þeim (með hrúgu af mörkum) og um tíma leit það út fyrir að ætla að verða að veruleika, þegar Everton virtist vera að kafsigla Burnley og komast í 4-1 en markið var (réttilega) dæmt af og tveggja marka (3-1) sigur Everton reyndist því niðurstaðan. Everton er þar með enn taplaust á tímabilinu og maður getur ekki annað en hugsað til dauðafærisins sem Calvert-Lewin fékk gegn Leeds, sem hefði tryggt fullt hús stiga á þessum tímapunkti. En núverandi stigasöfnun er eins og best verður á kosið á þessum tímapunkti, þannig að það er ekki hægt að kvarta yfir því.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Mina, Kane, Godfrey, Coleman, Allan, Doucouré, Gray, Townsend, Richarlison.

Varamenn: Begovic, Holgate, Kenny, Gbamin, Davies, Gomes, Iwobi, Gordon, Rondon.

Sem sagt, 3-5-2 með Digne og Coleman sem wingbacks. En þá að leiknum…

Everton liðið var lengi að komast í gang í fyrri hálfleik og Burnley menn gengu á lagið og sköpuðu sér nokkur ágætt færi. 

Besta færi þeirra kom snemma í leiknum þegar há sending barst inn í teig, sem Chris Wood sóknarmaður Burnley var ekki langt frá því að ná að skalla í netið af stuttu færi.

Everton fékk fyrsta almennilega færi sitt á 26. mínútu þegar boltinn barst til Doucouré inni í teig, eftir smá darraðsdans, og Doucouré náði flottu skoti af stuttu færi eftir snúning, en Pope varði glæsilega. Besta færi fyrri hálfleiks. 

Ekki svakalega mikið annað að frétta – en Everton getur betur en þetta.

Burnley menn byrjuðu seinni hálfleik af miklum krafti og fengu að fljúga í tæklingar óáreittir, áhorfendum til mikillar gremju. Og þeir náðu að skora á 55. mínútu þegar Jóhann Berg fékk boltann utan við vítateigshornið og var fljótur að hugsa, sneri á punktinum og sendi háa sendingu inn í teig. Ben Mee þar mættur upp við mark og skallaði inn. 0-1 fyrir Burnley. 

En Everton jafnaði á 59. mínútu. Townsend var lykilmaður í því marki – með boltann á hægri kanti, lék á bakvörð Burnley og sendi geggjaðan bolta, háan inn í teig, beint á pönnuna á Michael Keane, sem skallaði boltann í netið óáreittur. Af nokkuð löngu færi, í þokkabót, svona af skalla að vera. 1-1! Gomes kom svo inn á fyrir Godfrey í kjölfarið.

Everton skipti um gír við þetta, eina tvo þrjá gíra eiginlega, og röðuðu inn mörkum. Fyrst var það áðurnefndur Townsend, með geggjað skot af löngu færi. 2-1! Smellhitti boltann yfir markvörð og undir slána út við vinstri stöng.

Maður hafði varla náð sér eftir markið þegar Doucouré sá sprett Gray upp miðjuna og fletti vörn Burnley í sundur, eins og Moses sjálfur væri mættur við Rauðahafið. Gray ekki í neinum vandræðum með að afgreiða boltann framhjá Pope. 3-1 fyrir Everton!

Og áður en maður vissi af var Doucouré búinn að setja eitt mark í viðbót stuttu síðar, en það var of gott til að vera satt og hann réttilega dæmdur rangstæður.

Townsend átti geggjað skot upp í samskeytin hægra megin stuttu síðar en Pope sá við honum með geggjaðri vörslu.

Burnley menn héldu svo að þeir hefðu minnkað muninn stuttu síðar en dæmdir brotlegir við Pickford, sýndist mér, í aðdragandanum. 

Á 81. mínútu kom Salomon Rondon inn á fyrir Richarlison. Fyrsti leikur þess fyrrnefnda í Everton treyju. Þetta var hins vegar ekki nægilegur tími til að setja mark sitt á leikinn. Það kemur síðar.

Gray fékk svo heiðursskiptingu á 88. mínútu fyrir Iwobi, og var vel fagnað.

Eftir þetta fjaraði leikurinn hins vegar út og Everton sigldi þessu í höfn. 3-1 sigur Everton niðurstaðan og liðið enn ósigrað undir stjórn Rafa Benitez. Everton endar þar með fjórðu umferð í fjórða sæti, með jafn mörg stig og öll liðin fyrir ofan.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Coleman (6), Mina (6), Godfrey (6), Keane (7), Digne (6), Townsend (8), Allan (6), Doucoure (8), Gray (7), Richarlison (6). Varamenn: Gomes (7). Aðeins fyrirliðinn, Ben Mee, náði upp fyrir 6 í einkunn hjá Burnley, en restin fékk lægri einkunn. Andros Townsend var réttilega valinn maður leiksins.

8 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Ef Everton vinnur með fjórum mörkum eða meira þá fara þeir í efsta sætið.
  Ætli þetta fari þá ekki 1-1.

  • Ari S skrifar:

   Lítur ekki vel út þegar 30 mínútur eru liðnar. Burnley betri aðilinn eins og er. En enn 0-0.

 2. Haraldur Anton skrifar:

  Áfram Everton 🙂 þurfum að fara taka leiki saman aftur höfðingjar.

 3. Ari S skrifar:

  Þvííílíkt og annað eins, þvílíkar mínútur… Everton komnir í 3-1

 4. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Flottur seinni hálfleikur, það var hreinlega eins og Evertonliðið hefði skipt um gír og þá átti Burnley engin svör og sigurinn hefði vel getað orðið stærri. Mér fannst Burnley vera mættir til að gera eitthvað annað en að reyna að spila fótbolta og mesta furða að allir okkar menn komust heilir frá þessum leik.
  Aston Villa næst, vonandi heldur Everton áfram að vinna.

 5. Eirikur skrifar:

  Flottur sigur og liðið hrökk í gang við að fá á sig mark. Uppstilling á 3 miðvörðum var ekki að virka og gott að hafa náð að prófa það og koma til baka og vinna þrátt fyrir dapran fyrri hálfleik. Verður spennandi að sjá framhaldið.

 6. AriG skrifar:

  Flottur seinni hálfleikur hjá Everton. Fyrri hálfleikur var mjög slakur vonandi hættir Benetez að hafa 3 miðherja virkar ekki. Gray enn mjög góður. Townsend stórkostlegur. Svakalega sveiflur í leik Everton í leiknum eins og þeir hafi sett í 3 gír eftir Burnley skoraði. Vonandi fær James R eitthvað að spila enda með mjög há laun og mér finnst að hann eigi að sýna það á vellinum að hann eigi skilið góð laun. Vonandi heldur Benetez við 4-5-1 eða 4-4-2 eða 4-3-3 fer eftir styrkleika liðanna sem Everton spilar við.

Leave a Reply

%d bloggers like this: