Leeds – Everton 2-2

Mynd: Everton FC.

Klukkan 14:00 að íslenskum tíma verður flautað til leiks Everton við Leeds á heimavelli þeirra síðarnefndu. Þetta er annar leikur tímabilsins og munu Leeds menn örugglega mæta dýrvitlausir til leiks, í sínum fyrsta heimaleik fyrir líkast til fullum velli, til að svara fyrir 5-1 tap gegn United. Það reyndist stærsta tap fyrstu umferðar og þeir því á botninum eftir aðeins einn leik. Þeir hafa hins vegar endurheimt Phillips, lykilmann á miðjunni, sem lék ekki gegn United. Hjá Everton lítur þetta svona út:

Uppstillingin: Pickford, Digne, Mina, Keane, Coleman (fyrirliði), Allan, Gray, Doucouré, Iwobi, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Begovic, Kenny, Branthwaite, Holgate, Delph, Gbamin, Davies, Townsend, Moise Kean.

Flott stemning á vellinum og leikurinn byrjaði fjörlega. Doucouré átti skot rétt utan teigs eftir aðeins 20 sekúndna leik en rétt framhjá. Eftir það róaðist leikurinn nokkuð og Leeds náðu undirtökunum. Voru mun meira með boltann í fyrri hálfleik (70 og eitthvað prósent). Þeir náðu þó ekki skoti á mark fyrr en á 9. mínútu, en skotið slakt, enda leikmaðurinn undir pressu og engin hætta skapaðist.

Demarai Gray bjó til frábært færi fyrir Calvert-Lewin á 17. mínútu. Notaði hraðann upp hægri kantinn til að fara illa með bæði bakvörð og miðvörð Leeds og sendi stórhættulegan lágan bolta fyrir mark. Calvert-Lewin þar mættur til að pota inn en var einhverjum centimetrum frá þvi að ná að renna sér á boltann og setja hann í autt netið. Besta færi leiksins fram að því.

Gray endurtók leikinn á 25. mínútu, í þetta skiptið á vinstri kanti, en aftur munaði bara hársbreidd. Örskömmu síðar náði Digne að senda háan bolta fyrir mark frá vinstri yfir á fjærstöng þar sem Calvert-Lewin lúrði. Varnarmaður Leeds, Cooper, togaði Calvert-Lewin niður og kom þannig í veg fyrir að hann næði að reyna að setja boltann í netið. Víti allan daginn. Dómari skoðaði VAR sjána og komst að réttri niðurstöðu. Víti!

Calvert-Lewin á punktinn, tók stutt tilhlaup (bara tvö þrjú skref) og negldi boltann í hliðarnetið vinstra megin. Ekkert kjánalegt andahlaup a la Pobga. Bara svona almennilegt hefðbundið víti sem markvörður átti engan séns í, þrátt fyrir að kasta sér í rétt horn. 0-1 fyrir Everton! Raphina reyndi að svara á 32. mínútu með skoti utan teigs, fast skot á vinstri stöng en framhjá marki. Sama uppi á tengingnum á 39. mínútu hjá honum en framhjá hægra megin. 

Leeds menn náðu hins vegar að jafna á 40. mínútu eftir skyndisókn. Bamford var fljótur að senda fram á Kliche sem komst inn í teig og lagði boltann framhjá Pickford. 1-1. 

Doucouré reyndi skot af löngu færi á 43. mínútu en markvörður Leeds varði í horn.

1-1 í hálfleik.

Everton fékk óskabyrjun á seinni hálfleik þegar Gray náði að skora á 50. mínútu. Doucouré hafði reynt sendingu inn í teig á Calvert-Lewin en varnarmaður blokkerað. Boltinn barst aftur til Doucouré sem sendi þá til vinstri á Gray, sem náði flottu skoti gegnum klofið á Dallas, miðjumanni Leeds, og í hliðarnetið. 1-2 fyrir Everton! 

Gray var búinn að vera mjög hættulegur í fyrri hálfleik og átti markið skilið. Hann var svo næstum búinn að næla sér í stoðsendingu í næstu sókn eftir þríhyrningaspil við Calvert-Lewin sem setti Gray inn í teig hægra megin. Hann sendi fyrir mark, þar sem Calvert-Lewin náði skoti á mark, en markvörður Leeds varði með einhverjum undraverðum hætti.

Iwobi fór auðveldlega framhjá miðjumanni Leeds á 57. mínútu og sendi frábæra stungu inn fyrir vörn Leeds á Calvert-Lewin sem var á auðum sjó og náði skoti á mark en aftur varði markvörður Leeds. Maður hafði á tilfinningunni að þetta myndi reynast Everton dýrt og svo varð raunin.
Leeds menn reyndu hvað þeir gátu til að jafna og það tókst loks á 72. mínútu þegar Raphina fékk boltann utarlega í teighorninu hægra megin, frá þeim séð, og smellhitti boltann í sveig í hliðarnetið. 2-2.

Andros Townsend kom inn á fyrir Iwobi á 75. mínútu og Delph kom svo inn á fyrir Gray stuttu síðar. Í millitíðinni átti Richarlison flott skot utan teigs á 76. mínútu en sleikti stöngina utanverða. 

Townsend átti einnig fínt skot utan teigs á 88. mínútu en markvörður varði.
Leeds menn settu þunga pressu á Everton undir lokin en náðu ekki yfirhöndinni. Jafntefli, 2-2 því niðurstaðan.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Coleman (6), Keane (7), Mina (6), Digne (6), Doucoure (6), Allan (6), Iwobi (6), Gray (8), Richarlison (7), Calvert-Lewin (7). Varamenn: Townsend (5).

Maður leiksins: Demarai Gray.

5 Athugasemdir

 1. Ari S skrifar:

  Hvar er Ingvar? (smá grín, ekki illa meint)

  Mér fannst liðið spila fínt í dag. 2-2 er ekki svo slæmt þegar uppi er staðið. DCL hefði mátt nýta færin sín betur. Menn að tala um að akkúrat þarna skilur á milli þess að vera heimsklassa skorari eða ekki. Bara að „chippa“ segja margir. En hann er samt alltaf á réttum stöðum og spilar sig mjög vel oft frían. Frábær leikmaður en þarf að nýta þessi færi!

  Demarai Gray átti flottan leik og stefnir í að vera „bargain of the year“ Frábær leikmaður sem að kostaði ekki mikið. Er sennilega mun meira virði en kaupverð hans til okkar segir til um.

  Til þess að verða betra lið þá þurfum við að laga varnarleikinn eða öllu heldur minka einstaklingsmistök. Þau eru of mörg. Michael Keane er orðinn eitthvað óöruggur í staðsetningum sínum. Mín vegna mætti selja hann og fá Kaoulibaly í staðinn en það er nú bara óskhyggja.

  Heilt út sagt þá lítur liðið vel út og vonandi náum við að styrkja vörnina á næstu 9 dögum.

 2. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Hér er ég Ari minn 🙂
  Mér fannst liðið spila ágætlega en aftur gaf Keane andstæðingunum mark og í þetta skiptið kostaði það tvö stig, næst gæti það verið verra. Mér finnst að það ætti að selja hann, hann er orðinn 28 ára og fer að falla í verði. Hann er líka einn af þessum leikmönnum sem eru ekki nógu stöðugir og það er ekki hægt að vera með svoleiðis menn í miðri vörninni, þar vill maður hafa einhvern sem alltaf skilar sínu en ekki bara stundum.
  DCL þarf að æfa sig betur einn á einn, toppklassa framherji hefði klárað þessi tvö dauðafæri sem hann fékk í seinni hálfleik, sérstaklega það seinna.
  Jafntefli er sennilega sanngjörn úrslit en þetta var samt drullu svekkjandi.

  • Ingvar Bæringsson skrifar:

   Gleymdi að nefna eitt.
   Hvaða aulaskapur var þetta að setja Delph inn á í staðinn fyrir Gray? Hann gerði akkúrat ekkert og þessi skipting sendi þau skilaboð að eitt stig væri nóg, svolítið röng skilaboð finnst mér.

   • Ari S skrifar:

    Eina sem mér dettur í hug að Benitez sé að reyna að selja hann. Þ.e. telja öðrum lliðum trú um að Delph geti eitthvað ennþá. 😉

 3. Finnur skrifar:

  Dermian Gray er í liði vikunnar að mati BBC:
  https://www.bbc.com/sport/football/58298530

Leave a Reply

%d bloggers like this: