Everton – Southampton 1-0

Mynd: Everton FC.

Everton átti heimaleik gegn Southampton og komst með 1-0 sigri aftur upp að hlið Liverpool, jafnir þeim að stigum og aðeins þrjú stig í Meistaradeildarsæti — en Everton á einmitt leik til góða á öll liðin fyrir ofan sig.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Keane, Holgate, Godfrey, Allan, Doucouré Gomes, Gylfi (fyrirliði), Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Nkounkou, Broadhead, Astley, John, Onyango, Iwobi, Bernard, King.

Frábært að sjá Allan í byrjunarliðinu aftur. James Rodriguez hins vegar hvergi sjáanlegur.

Restin af leikskýrslunni er í boði meistara Elvars, sem bauðst til að sjá um hana í fjarveru ritara. Kunnum við honum bestu þakkir fyrir og gefum honum orðið:

Everton að byrja með tvo framherja með Richarlison og Calwert Lewin og svokölluð tígulmiðja þar fyrir aftan með Gylfa í holunni og Gomez, Docoure og Allan með honum á miðjunni. Rodriguez, Davies og Coleman alveg hvíldir í þessum leik og ekki á bekknum og greinilegt að Ancelotti er að undirbúa 2 næstu leiki Everton sem fram fara á fimmtudag og næsta mánudag eða 3 leikir á 7 dögum.

Everton hafði ekki unnið á heimavelli síðan í desember svo það var mikilvægt að fylgja eftir góðum útisigri gegn Liverpool um seinustu helgi með 3 stigum á Goodison Park.

Everton skorar á 9 mínútu þegar Pickford á langa sendingu fram á Calvert-Lewin sem skallar hann niður á Gylfa sem tekur boltann fallega niður og á glimrandi sendingu innfyrir vörn Southampton þar sem Richarlison leikur fram hjá Foster og setur boltann í markið framhjá varnarmanni Southampton. Frábært spil hjá Everton og Gylfi með magnaða stoðsendingu. Richarlison að skora hér í sínum þriðja deildarleik í röð.

Á 24. mínútu skoruðu Everton eftir aukaspyrnu þar sem Holgate var rétt svo rangstæður sem sendir á Keane sem skorar. Markið stóð því ekki eftir hið geysivinsæla VAR tékk. Flott útfærsla samt þar sem Gylfi þykist taka aukaspyrnuna en hættir við og dokar svo þar sem Digne tekur af skarið og sendir flottan bolta á áðurnefndan Holgate.

Southampton áttu tvö ágæt færi á 27. og 28. mínútu en vörn Everton að standa sig vel.

Gylfi með frábæra aukaspyrnu á 35 mínútu þar sem Richarlison kemst inn fyrir vörnina og nær rétt svo að snerta boltann en nær ekki að stýra honum að marki. 3-4 leikmenn Everton voru þarna komnir réttstæðir innfyrir vörn andstæðinganna og þarna hefði Everton hæglega geta komist í 2-0.

Everton með hættulegri færi í fyrri hálfleik en Southampton áttu amk. 20 mínútna kafla þar sem þeir héldu boltanum vel en ekki nægilega hættulegir þegar fram var komið. Það virðist bara henta Everton nokkuð vel að leyfa andstæðingunum að vera meira með boltann og nýta skyndisóknir eða eiga sóknarkafla í leikjunum sem skila oft mörkum sem duga til sigurs. Everton hefur ekki tapað á Goodison eftir að hafa verið yfir í hálfleik alveg síðan 2016 svo vonandi helst það áfram.

Seinni hálfleikur byrjar af nokkrum krafti, Everton með frábæra aukaspyrnu á 57. mínútu og Godfrey hársbreidd að setja annað mark Everton, vel varið hjá Foster.

Digne með enn eina aukaspyrnuna á 59. mínútu og Kean með ágætis skalla framhjá.

Southampton að sækja nokkuð og hættuleg tilraun á 83. mínútu en framhjá markinu.

Everton þó einnig að sækja og Iwobi kemur sem fyrsta skipting Everton á 87. mínútu í stað Gomez sem hafði staðið sig ágætlega, ólíkt frammistöðu hans í seinasta leik gegn Liverpool. Pickford að verja frábærlega á 89. mínútu frá Vestegard — þeirra fyrsta tilraun á rammann.

Richarlison var svo tekinn út af á 90. mínútu og King kemur inná í hans stað. Everton að halda boltanum vel á seinustu mínútunum og mestmegnis á þeirra vallarhelming.

Loksins flautað til loka leiks og Everton með fínan sigur gegn nokkuð sprækum Southampton mönnum og Everton þar með komnir með 43 stig og eru í 7. sæti en bara 2 stig í 4. sætið og liðið á leik inni.

Góð frammistaða hjá Everton í dag og margir að standa sig vel, Gylfi með hæstu einkunn hjá FotMob og Pickford stóð sig rosalega vel þegar á þurfti að halda og vörnin enn og aftur ansi sterk.

Næsti leikur Everton er á útivelli gegn WBA og mætum síðan Chelsea, einnig á útivelli, næstkomandi mánudag og sá leikur gæti ráðið ansi miklu um það hvert Everton stefnir undir stjórn hins magnaða Ancelotti.

Svo mörg voru þau orð. Við þökkum Elvari fyrir skýrsluna.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (8), Godfrey (7), Holgate (6), Digne (6), Keane (6), Allan (7), Gomes (7), Doucoure (6), Sigurdsson (7), Richarlison (7), Calvert-Lewin (7).

Pickford valinn maður leiksins. Svipaðar einkunnir hjá Southampton, nema enginn með hærra en 7 og Salisu með 5.

9 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Þetta fer 1-1

  • Ari S skrifar:

   1-0 var það. Til hamingju með stigin 3

   • Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta hafðist fyrir rest, en ekki var það fallegt. Þrjú stig í hús og það er víst það eina sem skiptir máli.

    • Ari S skrifar:

     Það er leikur á fimmtudaginn og síðan annar á næsta mánudag skilst mér. Miðað við það þá var gott að geta hvílt James, Coleman og Davies í gær, náð í þrjú stig og haldið hreinu annan leikinn í röð. (Pickford)

 2. Gunni D skrifar:

  Pickford maður leiksins með eina vörslu? Mér fannst Gomes bestur, Loksins leikur hjá honum, hefur verið skugginn af sjálfum sér síðan hann fótbrotnaði.

 3. Finnur skrifar:

  Richarlison í liði vikunnar að mati BBC:
  https://www.bbc.com/sport/football/56242967

  • Ari S skrifar:

   Hérna er viðtal voð Gylfa eftir leikinn. Athyglisvert að það vitðist einn sguðningsmaður hafa komist í áhorfendastæðin og kallað hvatningaforðum eða sungið til Gylfa á meða viðtalið var tekið. Kom flhótt í ljós að það var Tom Davies……. 🙂

 4. þorri skrifar:

  Sælir félagar er það ekki bara 3 stig hjá okkar mönnum í kvöld eða hvað haldi þið.Er þetta ekki bara skildu sigur í kvöld á móti WBA

%d bloggers like this: