Everton – Man City 1-3

Mynd: Everton FC.

Það var risaleikur á dagskránni í kvöld kl. 20:15 þegar Everton tók á móti Man City. Ljóst var að þetta yrði afar strembinn leikur en City menn höfðu verið hraðlest á fullri ferð þessa dagana og unnið allt of marga leiki í röð til að hugsa um það. Maður vonaði að þetta yrði ekki leikur kattarins að músinni og ljóst var að það þyrfti miklu betra framlag frá leikmönnum Everton en í leiknum á undan. Frá því að Everton vann City mjög sannfærandi 4-0 sigur í janúar 2017 höfðu City menn tekið 16 af 18 mögulegum stigum úr leikjum sínum við Everton. #brekka

Uppstillingin: Pickford, Digne, Keane, Mina, Godfrey, Davies, Doucouré, Gylfi (fyrirliði), Iwobi, Richarlison.

Varamenn: Olsen, Nkounkou, Coleman, Delph, Gomes, Onyango, Rodriguez, Bernard, King.

Sem sagt, Pickford kom inn í liðið aftur en enginn Calvert-Lewin — ekki einu sinni á bekknum. Ekki góður fyrirboði…

En þá að leiknum:

City menn byrjuðu með boltann og það tók þá tvær mínútur að ná skoti að marki. Held að Everton hafi náð að snerta boltann tvisvar (kannski þrisvar) á þeim tíma. City menn hafa tilhneigingu til að hanga á boltanum og það var raunin og þeir náðu fyrir vikið þungri pressu á Everton. Áður en 10 mínútur voru liðnar voru City menn búnir að taka fimm hornspyrnur (hornspyrna á tveggja mínútna fresti að meðaltali).

Útsendingin vildi meina að Everton væri að spila 4-4-1-1 með Gylfa í holunni og Richarlison frammi. Mér sýndist þetta samt ansi fljótt detta í 6 manna varnarlínu Everton enda þörf á þéttri vörn á móti þessu liði.

Ekki batnaði þetta hins vegar þegar Mina þurfti að fara út af á 16. mínútu vegna meiðsla. Coleman kom inn á fyrir hann.

Samt engin almennileg færi fyrr en á 33. mínútu þegar Mahrez reyndi fyrirgjöf utan teigs frá hægri sem varnarmaður Everton hreinsaði frá með skalla, en ekki nógu langt út úr teig. Boltinn til Phil Foden sem skaut utarlega í teig í lappirnar á Coleman og boltinn breytti þaðan um stefnu og fór í hornið sem Pickford var á leiðinni úr og því í netið. Smá heppnisstimpill á því marki. 0-1.

Það lifnaði aðeins yfir Everton við mótlætið og þeir tóku upp á því að jafna eftir flotta sókn sem endaði með því að Coleman sendi háan bolta frá hægri yfir á Digne sem skaut viðstöðulaust í innanverða stöng (fjærstöng hægra megin), og þaðan út í teig og í lærið á Richarlison og inn. Digne óheppinn að skora ekki, en sem betur fer var Richarlison rétt staðsettur. 1-1!

„Þriðja markið í háa herrans tíð sem City menn fá á sig“, sagði þulurinn. Ugh.

Og þannig var staðan í hálfleik.

Róleg byrjun á seinni hálfleik. City menn áfram meira með boltann en mikið bara að senda sín á milli. Fengu reyndar færi á 51. þegar Silva náði skoti innan teigs hægra megin sem Pickford kastaði varði vel. Gylfi svaraði að bragði með skoti hinum megin vallar sem varnarmaður náði að blokkera. 

Gabriel Jesus fékk svo fínt færi eftir stungu inn fyrir vörnina vinstra megin á 55. mínútu en skaut vel yfir. 

City menn fengu skallafæri úr 9. hornspyrnu sinni á 61. mínútu en skallinn framhjá. Pickford þegar mættur í hornið og því engin hætta. 

En Silva og Mahrez náðu frábærlega saman á 63. mínútu þegar sá fyrrnefndi lagði upp skotfæri fyrir Mahrez, rétt utan teigs og Mahrez gjörsamlega smellhitti boltann, stöngina inn. City menn aftur komnir yfir. Ekkert lið í efstu fimm deildum Evrópu fengið á sig jafn fá mörk í undanförnum leikjum og City. Risastórt verkefni því fyrir höndum. 

Tvöföld skipting á 68. mínútu þegar Iwobi og Davies fóru út af fyrir James Rodriguez og Joshua King. Gylfi færður aftar á völlinn með tilkomu Rodriguez. 

En á 75. mínútu innsigluðu City menn sigurinn þegar Silva dansaði með boltann rétt utan teigs, færði sig í ættina að D-inu og þóttist ætla að skjóta en lagði boltann til hliðar og skaut svo að marki. Pickford náði að koma hendi á bolta en ekki að verja og City menn þar með komnir í 3-1 forystu. 

Pep Guardiola brást við þessu með því að pakka í vörn… eh, nei – hann sótti eitt stykki luxury player á bekkinn og skipti inn á. Engan annan en Kevin de Bruyne. Svo horfir maður á bekkinn hjá Everton og þar voru eftir Olsen (markvörður), Nkounkou (ungliði), Onyango (ungliði), Fabian Delph, Gomes og Bernard. Ekki langt síðan Everton var með tvo markverði á bekknum. 

Við tók náttúrulega reitabolti dauðans hjá City og þegar örfáar voru eftir lokaði útsendingin á barnum (enda klukkan orðin 22:00) þannig að síðustu mínúturnar falla í gleymskunnar dá. 

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Godfrey (6), Holgate (6), Mina (6), Keane (6), Digne (6), Davies (6), Doucoure (7), Gylfi (6), Iwobi (6), Richarlison (7). Varamenn: King (6), Rodriguez (6), Coleman (6).

Svipaðar einkunnir hjá City, nema örlítið fleiri sjöur og Mahrez með 8.

7 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Þetta gæti orðið ljótt, vonandi leggja menn sig fram, það er allt sem ég bið um.

  • Gunni D skrifar:

   Það er ekkert lið ósigrandi. Munum það. Allt getur gerst í fótbolta. Það styttist líka óðum í að City tapi leik.

   • Ingvar Bæringsson skrifar:

    Mikið rétt. En ef það á að gerast í kvöld þá þurfa okkar menn að ná amk skoti á markið, höfum ekki enn náð einni marktilraun.

 2. þorri skrifar:

  munið félagar það er mark komið jaft 1-1

 3. Gunni D skrifar:

  Hvað er hægt að segja við svona marki!

 4. Gestur skrifar:

  Þetta lið er hálf glatað

 5. Ari G skrifar:

  Everton áttu aldrei sjens í City. Samt var leikur Everton ok fyrstu 60 mín en svo hrundi allt. Erfitt að dæma liðið í þessum leik en voru samt mun betri en í leiknum á móti Fulham. Nenni ekki að velja bestu úr hópnum í leiknum. Fannst eiginlega enginn skara framúr. Slæmt að missa Yeri Mina útaf þá versnaði bara varnarleikur Everton.

Leave a Reply

%d bloggers like this: