Everton – Fulham 0-2

Mynd: Everton FC.

Everton tekur á móti Fulham í kvöld kl. 19:00. Með sigri getur liðið komist upp fyrir bæði West Ham og Chelsea og alveg upp að hlið Liverpool, sem töpuðu enn einum leiknum — nú síðast 3-1 tap fyrir Leicester í gær. Þess má geta að þetta er aðeins 22. leikur Everton í deild (þó komið sé fram í 24. umferð) og liðið á 1-2 leiki inni á liðin fyrir ofan sig.

Uppstillingin: Olsen, Digne, Holgate, Godfrey, Coleman (fyrirliði), Davies, Doucouré, Gomes, Gylfi, Richarlison, Rodriguez.

Varamenn: Virginia, Nkounkou, Keane, Allan, Onyango, Mina, Bernard, Iwobi, King.

Sem sagt, Pickford og Calvert-Lewin enn frá vegna meiðsla og Keane og Mina fá smá hvíld (eru á bekknum). Frábært samt að sjá Allan á varamannabekknum aftur.

En þá að leiknum…

Fulham menn ívið sterkari frá upphafi og einhver doði yfir okkar mönnum. Það tók 33 mínútur fyrir Everton að ná almennilegri tilraun á mark – skot í utanverða stöng frá Coleman af nokkuð löngu færi.

Andre Gomes hafði átt skot af löngu færi líka stuttu áður, en erfitt að telja það með sem almennilega tilraun. Fór of langt framhjá. 

Fulham menn höfðu átt betri tilburði og náð að skapa usla í vörn Everton. Eitt skot frá þeim endaði í stöng og svo einu sinni hittu þeir ekki á mark eftir darraðsdans í teig Everton. Svolítið eins og leikmenn Everton væru enn að jafna sig eftir rosalegan bikarleikursigur í miðri viku. 

0-0 í hálfleik. Eitthvað þarf að breytast hjá Everton. Mér varð hins vegar ekki að ósk minni.

Fulham menn byrjuðu seinni hálfleik af miklum krafti og skoruðu strax á upphafsmínútunum. Komust upp vinstri kant og inn í teig. Náðu sendingu fyrir mark og nýi sóknarmaður þeirra um var keyptur í janúarglugganum, Maja, þurfti bara að renna sér á boltann til að pota inn. 0-1 Fulham.

Tvöföld skipting hjá Everton á 56. mínútu: Keane og King inn á fyrir Davies og Coleman.

Fulham menn bættu við öðru marki á 65. mínútu. Áttu fyrst skot utan teigs sem Olsen varði í stöng og þaðan fór boltinn út í teig og þar lúrði sóknarmaður þeirra (Maja aftur) og mættur í frákastið og potaði inn. 0-2 fyrir Fulham.

Everton átti engin svör. Aldrei skipti þeir um gír og byrjuðu að skapa sér almennileg færi. Svolítið eins og allir væru að bíða eftir því að einhver annar stigi upp.

Stuttu síðar versnaði þetta nokkuð þegar James Rodriguez fór meiddur út af og Bernard kom inn á. Einmitt það sem við þurftum með City og Liverpool í næstu tveimur leikjum.

Frammistaðan hélt áfram að vera dapurleg og lítið um færi. Gylfi átti skot að marki eftir horn á 75. mínútu en skotið í jörðina og beint á markvörð.

Joshua King kom reyndar boltanum í netið á 78. mínútu eftir að Gomes vann boltann framarlega og sendi fljótt háa sendingu inn í teig. King gerði vel í að stýra boltanum í netið en réttilega dæmdur rangstæður. Dæmigert fyrir kvöldið í heild.

Það kom smá pressa undir lokin en aldrei reyndi almennilega á markvörð Fulham og því verðskuldaður 0-2 sigur hjá gestunum niðurstaðan.

Einkunnir Sky Sports: Olsen (7), Coleman (5), Holgate (5), Godfrey (5), Digne (5), Gomes (5), Doucoure (5), Davies (4), Rodriguez (5), Richarlison (4), Gylfi (5). Varamenn: Keane (5), King (4), Bernard (5).

Ekki voru þær fallegar, einkunnirnar í kvöld, en lítið við því að segja. Menn þurfa að vinna fyrir þessu og það var ekki uppi á teningnum í kvöld.

13 Athugasemdir

 1. Ari S skrifar:

  Áhugavert að sjá Holgate og Godfrey saman í miðvarðarstöðunum.

 2. Gunni D skrifar:

  Engin spá frá Ingvari?

 3. Gestur skrifar:

  Everton eru alveg svaka bitlausir fram á við, þetta lítur ekki vel út og tveir mikilvægir leikir framundan. Kjúklingarnir í vörninni ekki góðir

 4. Ari G skrifar:

  Þessi leikur var hrein hörmung. Ótrúlegt að spila með 3 varnarsinnaða miðjumenn og Gylfi er miklu betri ef James spilar ekki. Skil ekki Ancelotte að skipta stanslaust um vörn það er ekki gæfulegt man ekki eftir að Holgate og Godfrei hafi spilað saman í miðju varnar. Lookman var langbesti Evertonmaður í leiknum. Allavega getur maður huggað sig við að þetta getur ekki versnað.

 5. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Vá!!!
  Af hverju kom þessi ræpa ekki á óvart?? Það eina sem ekki mátti gerast í dag var að Everton „gerði Everton“.
  Missti af leiknum þegar hann var sýndur en passaði vel upp á að vita ekki úrslitin til að geta horft á hann á tímaflakkinu. Ég hefði betur sleppt því.
  Það var eiginlega ljóst í hvað stefndi strax á fyrstu mínútunum í fyrri hálfleik. Mér fannst Evertonliðið spila eins og hópur af mönnum sem aldrei höfðu sést áður og vissu ekkert hvað þeir ættu að gera. Fullt af feilsendingum og allt gekk einhvernveginn voða erfiðlega, sérstaklega í sóknarleiknum. Mér fannst ég hafa séð þetta áður, og jú, þetta spilaðist eiginlega alveg eins og leikurinn gegn Newcastle um daginn, fyrri hálfleikurinn gegn Man utd og svo auðvitað nánast hver einasti leikur síðasta sumar þegar deildin fór aftur í gang eftir covidhlé. Það er erfitt að ímynda sér að þetta sama lið skoraði þrjú mörk í einum hálfleik gegn man utd um síðustu helgi og fimm mörk í miðri viku gegn Tottenham því þeir hefðu getað spilað fram á nótt án þess að skora í þessum leik.
  Það eina sem lið virðast þurfa að gera er að pressa svolítið á Evertonliðið og sýna smá baráttuvilja, þá er eins og okkar menn verði gjörsamlega ráðalausir og það hægist á öllum þeirra aðgerðum. Sóknarleikurinn verður hægur (eins og það sé nú hægt) og fyrirsjáanlegur og varnarleikurinn verður fumkenndur og klaufalegur.
  Það er ekki hægt að velja mann leiksins eftir svona frammistöðu eða kannski réttara sagt frammistöðuleysi því það var allt liðið svo ömurlega lélegt að það á enginn skilið þá nafnbót en þó þótti mér Godfrey skástur.

  Það voru einhverjir hér á síðunni um daginn sem kvörtuðu yfir því að ég væri svartsýnn og einhver gaf í skyn að ég væri kannski bara ekki Evertonmaður. Við þá vil ég segja, jú ég er Evertonmaður og þegar maður er Evertonmaður þá er ekki mikið pláss fyrir bjartsýni því að svona frammistaða eins og í kvöld getur komið hvenær sem er.

  • Ari S skrifar:

   Ég hef nú kannski sagt eitthvað til þín í gegnum tíðina Ingvar en þú mátt eiga það að þú ert samkvæmur sjálfum þér og svo sannarlega ertu Everton kall að mínu mati. Haltu áfram á sömu braut.

   Þetta var hræðileg frammistsða hjá liðinu og ég fann það eiginlega á fyrstu 5 mín í hvað stefndi en var samt alltaf sð vona að þetta myndi batna. Síðan þegar þeir skoruðu fyrsta markið þá stóðst ég ekki mátið og slökkti á sjónvarpinu. Jafnaði mig og kveikti aftur en þá kom seinna markið strax og ég flýtti mér að slökkva. Ég bara gat ekki meir, afsakið það.

   Vonandi fáum við góðar fréttir í næstu viku en þá verður endanlegt leyfi veitt fyrir byggingu nýs vallar. Byggingin gæti síðan hafist í vor.

   • Ingvar Bæringsson skrifar:

    Já Ari. Við höfum nú stundum þrasað eins og gömul hjón hérna á síðunni en það er bara gaman. Það geta auðvitað aldrei allir verið sammála um allt og þá verða stundum skemmtilegar umræður hérna á síðunni.
    Vonandi hysja menn upp um sig brækurnar og sýna smá baráttuvilja gegn City á miðvikudaginn, það er það minnsta sem þeir geta gert. Svo skulum við bara vona að Allison verði ennþá kalt á fótunum á laugardaginn 😉

 6. albert skrifar:

  Alveg skelfilegur leikur 🙁

 7. þorri skrifar:

  Það er ekki hægt að segja annað en ömurlega lélegur leikur.Íngvar þetta var rétt sem þú sagðir,haltur áfram á þessari braut.Um að gera ræða málinn. ÉG vona að liði síni eitthvað á móti manc og liverpool þar þa eftir.ÁFRAM EVERTON VERUM BJARTSÍNIR

Leave a Reply

%d bloggers like this: