Everton – Sheffield Wednesday 3-0 (FA bikar)

Mynd: Everton FC.

Mótherjar Everton í fjórðu umferð FA bikarsins voru hið fornfræga lið Sheffield Wednesday, sem um þessar mundir eru að berjast fyrir lífi sínu í ensku B deildinni (Championship deildinni svokölluðu). Þeir voru í því augnabliki í næstneðsta sæti, aðeins 6 stigum frá fallsæti — en með tvo leiki til góða og höfðu unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum sínum. Þeir voru því sýnd veiði en ekki gefin.

Uppstillingin: Olsen, Godfrey, Holgate, Mina, Coleman (fyrirliði), Gomes, Doucouré, Gylfi, Rodriguez, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Pickford, Lössl, Kenny, Kean, Bernard, Gordon, Davies, Small, Onyango.

Sem sagt, Pickford hvíldur en annars stillti Ancelotti upp nokkuð sterku liði. Calvert-Lewin kom aftur inn í liðið eftir meiðsli (mjög kærkomið!!). Ekki kannski sterkasti bekkurinn sem maður hefur séð á tímabilinu: Tveir markverðir og tveir kjúklingar á bekknum (Small og Onyango). Held að Small sé vinstri bakvörður og Onyango sé miðjumaður.

Sheffield Wednesday menn mættu til leiks með skottið upprétt og eyrun spennt og uppskáru fyrsta færið — skot af löngu færi sem Olsen, í marki Everton, átti ekki í mjög miklum vandræðum með. Fyrri hálfleikur ansi mjög fjörugur og skemmtilegur og Sheffield menn ekki mikið að pressa, sem gaf Everton heilmikið pláss á miðjunni. Everton mikið meira með boltann (70% lungað úr fyrri hálfleik) og fengu mikið betri færi í fyrri hálfleik. 

Talandi um færi þá átti Everton skallafæri á 7. mínútu, eftir háa sendingu frá hægri frá Coleman. Boltinn fór beint á Richarlison sem náði skalla á mark en markvörður varði í slána og yfir markið. Stuttu síðar átti Richarlison flotta fyrirgjöf frá vinstri sem Calvert-Lewin var ekki langt frá því að náði til og setja í netið.

Richarlison skoraði svo mark á 12. mínútu eftir frábært hlaup upp völlinn og geggjaða stungusendingu frá James Rodriguez. En því miður var Richarlison dæmdur hárfínt rangstæður. Endursýning sýndi ekki nægilega vel hvort það væri rétt — ekkert VAR í gangi í kvöld. Hefði verið gaman að sjá niðurstöðuna úr því.

Sheffield Wednesday menn áttu skot á rammann á 14. mínútu, innan teigs vinstra megin (frá þeim séð) en af nokkru löngu færi og því ekkert vandamál fyrir Olsen.

Everton átti mjög flotta sókn á 17. mínútu. Þræddu sig í gegnum vörnina með flottum, stuttum og hröðum sendingum sem létu varnarmenn Sheffield Wednesday líta út eins og umferðarkeilur á vellinum. Allir þessir þríhyrningarnir enduðu svo með skoti frá Calvert-Lewin á mark en skotið varið.

Everton komst loks yfir á 30. mínútu eftir flottan undirbúning frá André Gomes, sem atti kappi við varnarmann inni í teig vinstra megin og komst upp að endalínu. Þaðan sendi hann lágan bolta fyrir mark þar sem Calvert-Lewin lúrði á fjærstöng og skriðtæklaði boltann upp í þakið á markinu. Staðan orðin 1-0 fyrir Everton!

Gylfi átti svo flotta sendingu frá hægri inn í teig á 33. mínútu en Calvert-Lewin, upp við mark, náði í þetta skiptið ekki að stýra boltanum í netið. Örskömmu síðar fékk Gylfi sjálfur skotfæri innan teigs, eftir stutta sendingu innan teigs frá James Rodriguez. Gylfi hótaði skoti/sendingu en tók svo í staðinn netta gabbhreyfingu á varnarmann og kom sér þar með í skotfæri en því miður framhjá marki.

Coleman átti flotta fyrirgjöf fyrir mark frá hægri, á Richarlison sem kom á hlaupinu en var aðeins of fljótur á sér og boltinn endaði fyrir aftan hann í ákjósanlegu færi alveg upp við mark.

Staðan 1-0 fyrir Everton í hálfleik — vel verðskulduð forysta.

Godfrey fékk ágætt skallafæri á upphafsmínútum seinni hálfleiks, eftir aukaspyrnu frá vinstri frá James Rodriguez, en Godfrey, á fjærstöng, náði ekki að stýra boltanum í netið. Örskömmu síðar setti Richarlison Calvert-Lewin inn fyrir hægra megin með fínni sendingu. Calvert-Levin gerði vel og náði fínu skoti á mark, upp við samskeytin hægra megin (á nærstöng) en markvörður varði í horn (sem ekkert kom svo úr).

Mark Everton lá í loftinu frá upphafi seinni hálfleiks. Gylfi komst í skotfæri innan teigs sem Sheffield Wednesday menn blokkeruðu í horn. Gylfi tók hornið sjálfur, beint á pönnuna á Richarlison sem fékk óáreittur að skalla inn. Staðan þar með orðin 2-0 fyrir Everton!

Markvörður Sheffield bjargaði þeim með glæsilegum hætti þegar Rodriguez og Richarlison náðu vel saman — Rodriguez setti Richarlison inn fyrir vinstra megin með stundusendingu og Richarlison hefði sett hann í innanvert hliðarnetið hægra megin, ef markvörður hefði ekki náð fingurgómum í boltann og varið í horn. Rodriguez tók hornið og sendi háan bolta fyrir þar sem Mina stökk manna hæst og skallaði inn. 3-0 fyrir Everton! Sheffield menn örugglega orðnir þreyttir á skallamörkum úr hornspyrnum á þeim tímapunkti.

Nokkrum mínútum síðar björguðu Sheffield Wednesday menn á línu eftir stungusendingu frá Rodriguez og vippu frá Calvert-Lewin yfir markvörð.

Everton með algjöra yfirburði í leiknum og Rodriguez að raða inn lykilsendingum sem hefðu auðveldlega geta breyst í stoðsendingar. Gylfi var svo sjálfur ekki langt frá því að ná annarri stoðsendinu á Calvert-Lewin á 65. mínútu en fyrirgjöfin frá vinstri of föst þar sem Calvert-Lewin var mættur aftur á fjærstöng.

Bernard kom svo inn á fyrir Calvert-Lewin á 67. mínútu. 

Sheffield menn áttu skotfæri úr aukaspyrnu á 72. mínútu en beint á Olsen. Þeir áttu svo skot innan teigs sem var vel blokkerað af Holgate. Ekki mikil hætta af framlínu þeirra í seinni hálfleik.

Richarlison og Godfrey var skipt út af fyrir Gordon og Jonjoe Kenny á 75. mínútu. Tíu mínútum síðar gerði Ancelotti svo aftur tvöfalda skiptingu — enda sigurinn í höfn og tími til að hvíla lykilmenn og leyfa ungliðum að spreyta sig. Hinn 16 ára gamli Thierry Small (vinstri bakvörður) og hinn 17 ára Tyler Onyango (og Fellaini look-a-like) komu því inn á fyrir Gomez og Rodriguez. Small þar með yngsti leikmaðurinn til að spila í aðalliði Everton (yngri en Jose Baxter var á sínum tíma). 

En engin færi litu dagsins ljós í lokin og Everton því komið í 5. umferð FA bikarsins og mæta Tottenham/Wycombe á heimavelli. Ekki er búið að staðfesta leiktíma (enda fer það eftir því hvaða liði Everton mætir), en líklegt er að það verði eftir kvöldmat á miðvikudegi 10. feb eins og restin af leikjunum í þeirri umferð.

Þulirnir völdu James Rodriguez mann leiksins og það er erfitt að vera ósammála því, þó fleiri hafi getað gert tilkall til þess heiðurs.

Drátturinn í heild sinni fyrir 5. umferð FA bikarsins er eftirfarandi (deild í sviga):

EVERTON – Tottenham(1)/Wycombe(2)
Barnsley (2) – Chelsea (1)
Burnley (1) –  Bournemouth (2)/Crawley Town (4)
Leicester City (1) – Brighton & Hove Albion (1)
Manchester United (1) – West Ham United (1)
Sheffield United (1) – Bristol City (2)
Swansea City (2) – Manchester City (1)
Wolverhampton Wanderers (1) – Southampton (1)

3 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Miðað við fyrri hálfleik þá væri það algjör skandall ef Everton fer ekki áfram.

  2. Ari G skrifar:

    Flottur leikur hjá Everton allgjörir yfirburðir. Erfiður leikur næsta miðvikudag eins gott að standa sig þá gegn geysisterku liði Leicester.

  3. þorri skrifar:

    Sælir félagar þetta var algjörsnild þessi leikur.Hann var vel spilaður og bara frábær og æðislegur sigur,og bíð spentur eftir leiknum á móti Leste. Þeir voru allir góðir hjá okkar mönum