Everton – Chelsea 1-0

Mynd: Everton FC.

Everton átti heimaleik gegn Chelsea í kvöld í 12. umferð Úrvalsdeildarinnar en flautað var til leiks á harla óhefðbundnum tíma — kl: 20:00 á laugardagskvöldi.

Nokkuð hefur verið um meiðsli í herbúðum Everton en báðir bakverðirnir hafa verið fjarverandi og einhverra hluta vegna hafa varaskeifurnar (Nkounkou og Jonjoe Kenny) ekki fengið að spreyta sig í þeirra stað í undanförnum leikjum. Kenny var þó á bekknum í kvöld. Einnig kom fram nýverið að James Rodriguez væri (lítillega) meiddur og missti því af þessum leik en hann skilur eftir risastórt skarð sem þurfti að fylla. Fabian Delph var einnig frá eftir að hafa tognað í síðasta leik.

Uppstillingin: Pickford, Godfrey, Holgate, Mina, Keane, Allan, Doucouré, Gylfi (fyrirliði), Iwobi, Calvert-Lewin, Richarlison.

Varamenn: Olsen, Kenny, Davies, Gomes, Gordon, Bernard, Tosun.

Chelsea menn voru mun meira með boltann frá upphafi fyrri hálfleiks en Everton liðið var meira ógnandi. Everton fékk fyrsta færi leiksins eftir ágætis þríhyrning hjá Gylfa og Richarlison utan teigs sem gerði Richarlison kleyft að komast inn fyrir vinstra megin, en ekki nægur kraftur í skotinu og það því auðveldlega varið.

Stuttu síðar átti Mina skalla að marki Chelsea eftir horn, en erfiður bolti og Mina náði ekki að stýra honum á mark.

Everton náði hins vegar að brjóta ísinn á 21. mínútu. Sóknin hófst með mjög langri sendingu fram frá Pickford, beint á Calvert-Lewin, sem gerði frábærlega í að ná stjórn á sendingunni með skalla og svo pota framhjá Mendy sem kom hlaupandi út úr marki Chelsea. Það endaði með því að Mendy lenti í samstuði við Calvert-Lewin og dómarinn aldrei í vafa á að gefa víti. Enda alltaf víti.

Ennþá minni vafi á að Gylfi myndi ná að skora úr vítinu — virkaði svolítið eins og Gylfi vissi nákvæmlega hvaða horn Mendy myndi velja (rangt horn fyrir Chelsea) og Gylfi skoraði því auðveldlega — nánast rúllaði boltanum inn hinum megin. Staðan þar með orðin 1-0 fyrir Everton!

Markið færði aldeilis líf í leik Chelsea sem svöruðu með skoti úr aukaspyrnu af nokkuð löngu færi. Reece James átti þá spyrnu en Pickford varði í horn. Hornið endaði með flottu skoti við teiglínu vinstra megin frá Reece James (aftur) sem Pickford varði glæsilega í innanverða vinstri stöng og út af rétt framhjá hægri stöng — sem kannski segir hversu tæpt þetta var að enda í netinu. Pickford að vinna fyrir kaupinu sínu þar.

Stuttu síðar fengu Chelsea menn aukaspyrnu sem endaði með skoti innan teigs frá Zouma, en Pickford vel á verði og greip boltann. Einu færi Chelsea frá varnarmönnum þeirra, sem segir ákveðna sögu.

Chelsea menn settu sterka pressu á vörn Everton, en Everton vörðust afar vel og voru mjög skipulagðir og sköpuðu færi með skyndisóknum, eins og á 40. mínútu þegar Gylfi átti flotta sendingu á Richarlison upp vinstri kantinn sem kom Richarlison í skotfæri en skotið vel varið hjá Mendy.

1-0 niðurstaðan eftir fyrri hálfleik. Gylfi allt í öllu fyrir Everton í fyrri hálfleik í því sem ég held, svei mér þá, að sé hans fyrsti leikur í byrjunarliði Everton. 

Chelsea menn fengu tækifæri til að jafna stax á upphafsmínútu seinni hálfleiks eftir að Pickford náði að kýla háa sendingu inn í teig fram völlinn. Boltinn hins vegar féll mjög heppilega fyrir leikmann Chelsea sem var fljótur að hugsa og náði skoti að marki en sá bolti fór í ofanverða slá og út af. Sem betur fer.

Everton átti frábæra skyndisókn á 52. mínútu og aftur komst Richarlison í skotfæri inn í teig vinstra megin en Mendy varði glæsilega.

Chelsea menn voru svo afar heppnir á 53. mínútu þegar Gylfi tók aukaspyrnu en boltinn fór rétt yfir slána vinstra megin. Mendy í markinu hrasaði rétt eftir að Gylfi tók aukaspyrnuna og hefði aldrei náð að verja ef boltinn hefði bara farið örlítið neðar (undir slána í staðinn fyrir að fara rétt yfir).

Everton átti svo frábæra skyndisókn á 61. mínútu. Iwobi sendi fram á Calvert-Lewin, sem náði að komast upp hægri kant og inn í teig og komst framhjá bakverðinum Chillwell og gaf honum þar með engan annan kost en að brjóta á sér. Augljóst víti — en VAR skoðaði málið og dæmdi Calvert-Lewin rangstæðan í aðdragandanum. Ekki gaman að sjá þetta falla á móti okkar liði en ekkert við þessu að segja. VAR tæknin einfaldlega að virka eins og hún var hönnuð til að gera. VAR féll ekki með okkur í dag, en þetta er tvíeggja sverð — á einhverjum tímapunkti kemur það til með að gera það.

Chelsea menn fengu frábært færi úr aukspyrnu á 80. mínútu en skotið endaði í utanverðri stöngi og fór út af.

Gomes kom inn á fyrir Gylfa og Davies fyrir Iwobi þegar nokkrar mínútur voru eftir af leiknum en Everton liðið missti aldrei einbeitingu og sigldu sigrinum í höfn. Chelsea liðið hafði verið taplaust í 17 viðureignum, held ég að þulurinn hafði sagt og búnir að vinna 5 (?) eða 6 (?) útileiki í röð (sel það ekki dýrara en ég keypti það) en þeir strönduðu á skeri í kvöld. Verðskuldaður sigur Everton í kvöld.

Everton hoppaði upp fyrir United og City með þessum sigri og eru nú aðeins einu stigi frá Meistaradeildarsæti. Frábært að sjá áhorfendur á pöllunum aftur í fyrsta skipti eftir langan tíma — sem studdu dyggilega við okkar menn. Ekki voru þeir margir — en það heyrðist afskaplega vel í þeim og er það vel. Ég hefði líka öskrað úr mér lungun á þessum leik!

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Holgate (8), Mina (8), Keane (9), Godfrey (8), Doucoure (7), Allan (7), Gylfi (8), Iwobi (7), Calvert-Lewin (7), Richarlison (7). Til samanburðar má nefna að allt lið Chelsea (þar með talið varamenn) fengu 6 í einkunn á línuna.

Michael Keane var valinn maður leiksins hjá Sky. Hann átti mjög flottan leik, en Gylfi og Calvert-Lewin voru örugglega ekki langt undan. Vörnin öll stóð sig vel og miðjan var traust, allir sem einn — Doucouré, Gylfi, Allan og Iwobi. Iwobi átti líklega einn besta leik sinn sem ég hef séð hann í bláu treyjunni.

Næsti leikur á miðvikudaginn gegn Leicester á útivelli, klukkan 18:00.

13 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Í bjartsýni minni spái ég 1-5 fyrir Chelski.

 2. Finnur skrifar:

  Verð að minnast á ömurlega umfjöllun hjá Bretunum í hálfleik. Vídeóklippan af sóknarmanni Chelsea (Werner?) sýnir hann hrinda Yerri Mina beint á Pickford, sem nær fyrir vikið ekki að grípa boltann og þessir svokölluðu „sérfræðingar“ í útsendingunni nýttu tækifærið og fóru að tala um „enn ein mistökin hjá Pickford“.

 3. Gestur skrifar:

  Everton voru góðir í kvöld

 4. Jón Ingi Einarsson skrifar:

  Loksins, loksins kom leikur sem maður hafði virkilega gaman að horfa á. Okkar menn góðir í kvöld og ekki skemmdi það að Gylfi skyldi skora sigurmarkið. Vonandi fer þetta að ganga betur hjá okkar mönnum.

 5. Ari G skrifar:

  Stórkostlegur varnarleikur hjá Everton loksins. Varnarleikurinn er allt annar þegar Holgate er búinn að ná sér alveg og Ben Godfrey var í einu orði stórkostlegur. Besti leikur hjá Gylfa þetta tímabil. Ótrúlegt það vantaði báða bakverðina og James og Chelsea fékk ekki einasta alvöru færi í opnum leik. Allir leikmennirnir lögðu sig alveg fram loksins sigur gegn einu af sterkasta liði deildarinnar.

 6. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Vá!! Þvílík frammistaða hjá öllu liðinu. Frábær sigur og eitthvað allt annað en liðið hefur sýnt í undanförnum leikjum, og alls ekki það sem maður átti von á.
  Vonandi var þetta ekki bara eitthvað tilfallandi heldur það sem koma skal.

 7. Elvar Örn Birgisson skrifar:

  Geggjaður sigur. Gylfi var frábær satt best að segja. Pickford var mjög góður. Sáu menn að skot Rece James var varið í stöng? Geggjuð markvarsla er margir sáu það held ég ekki. Flott vörn og mikilvægur sigur fyrir Everton. 4-3-3 svínvirkar hér með 4 miðaverði í 4 öftustu línu. Bara 2 stig í Chelsea í deildinni en Chekseqn hefði farið á toppinn í dag með sigri og voru taplausir í 17 leikjum.
  Erfiður útileikir gegn Leicester framundan í miðri viku og tveir leikir á viku næstu 3 vikur svo það er ljóst að við þurfum að rotera liðinu.
  Super sigur.

 8. Eirikur Sigurðsson skrifar:

  Loksins náði Angelotti að stilla liðinu rétt upp. Það var ekki að ganga að vera með 3 miðverði. Enn mun berti barátta og vilji heldu enn í seinustu leikum. Og þetta með Pickford bullið í þessum svokölluðu spekingum er löngu hætt að vera fyndið.
  Koma svo 9 stig í næstu 3 deildarleikjum 🙂

  • Ari S skrifar:

   Menn í einu settinu voru strax farnir að gagnrýna hann fyrir mistök en svo kom í ljós að Mason Mount ýtti Yerry Mina Á Pickford sem að datt.

   Annars er ég mjög sáttur við úrslitin í gær. Þetta var stór sigur að mínu mati. Chelsea hafði ekki tapað í 18 leikjum og einvehrs staðar voru pælingar uppi um að þeir væru með besta lið í heimi um þessar mundir. Svo sem bara fjölmiðlapælingar.

   Michael Keane var stórkostlegur í þessum leik þar sem að Chelsea sótti stíft enda þeir með frábært lið. Vörnin í heild þar sem að Mason Holgate og Ben Godfrey spiluðu í bakvarðastöðum í stað Coleman og Digne.

   Allt liðið spilaði vel og ég er sáttur. kær kveðja, Ari.

 9. Finnur skrifar:

  Michael Keane í liði vikunnar að mati BBC:
  https://www.bbc.com/sport/football/55288499

 10. Georg skrifar:

  Mjög flott frammistaða gegn sterku liði Chelsea. Gylfi átti mjög góðan leik, mark og 6 sköpuð færi, mesta færasköpun hjá leikmanni Everton í yfir 2 ár. Miklu betra jafnvægi í liðinu að hafa 4 í vörn. Godfrey og Holgate leystu bakvarðastöðurnar mjög vel. Erfiður leikur gegn Leicester framundan, en með svona frammistöðu getum við alveg unnið þá á þeirra heimavelli

Leave a Reply

%d bloggers like this: