Everton – Leeds 0-1

Mynd: Everton FC.

Laugardagsleikur Everton var klukkan 17:30 á heimavelli gegn nýliðum Leeds en með sigri gat Everton komist upp í þriðja sæti eftir 10 leiki. Þetta var á endanum ótrúlegur leikur þar sem annað liðið hefði hæglega getað sigrað 5-0, svo mörg voru dauðafærin. Tvö mörk Everton dæmd af en endanum var það aðeins eitt mark sem skildi að liðin, og það reyndist röngu megin hvað okkur varðar.

Uppstillingin: Pickford, Godfrey, Keane, Holgate (fyrirliði), Allan, Doucouré, Davies, Iwobi, Rodriguez, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Lössl, Mina, Delph, Gylfi, Bernard, Gomes, Tosun.

Everton átti fyrsta almennilega færið á 6. mínútu, þegar Davies sendi lágan bolta inn í teig frá hægri og Doucouré var þar mættur fremstur. Hann þurfti svolítið að teygja sig en náði skoti á mark en tókst ekki að skora því markvörður Leeds varði vel. 

Leeds menn komust í skyndisókn á 20. mínútu og náðu skoti á mark. Patrick Bamford þar að verki að reyna að setja met og skora í sínum fimmta útileik í röð en tókst ekki. 

James Rodriguez skoraði þar næst glæsilegt mark á 23. mínútu — fékk háa sendingu á fjærstöng hægra megin, lék á varnarmann í fyrstu snertingu og lagði boltann fyrir sig og þrumaði inn af stuttu færi þegar allir áttu kannski von á að hann myndi senda á einhvern út í teig. En því miður var hann dæmdur hárfínt rangstæður í aðdragandanum. Lítið við því að segja.

Tvisvar skall hurð nærri hælum hinum megin á 28. mínútu en Pickford og Godfrey komu Everton til bjargar. Pickford náði að verja glæsilega skalla á mark en í kjölfarið fékk hann á sig skot sem fór framhjá honum og Godfrey rétt náði að bjarga á línu.

Rodriguez fékk aukaspyrnu nokkuð utan teigs og fann þar Holgate upp við mark á fjærstöng. Holgate náði skoti á mark en markvörður varði glæsilega.

Richarlison skoraði mark með skalla á 43. mínútu eftir horn en það mark var einnig dæmt af vegna rangstöðu þar sem Godfrey var alveg upp við markvörð í rangstöðunni og reyndi að skalla. Ef hann hefði ekki verið þar, hefði þetta verið undir VAR komið hvort markið væri löglegt eða ekki.  

Rétt fyrir hálfleik fengu Leeds menn dauðafæri upp við fjærstöng þegar leikmaður þeirra náði fríum skalla á mark, framhjá Pickford en í stöngina og út. 

Staðan var 0-0 í hálfleik, ótrúlegt en satt. Hefði getað verið 5-5.

Tvisvar í byrjun fyrri hálfleiks komst Calvert-Lewin í skyndisókn og náði skoti innan teigs, sitt hvorum megin. Það fyrra varið og það seinna framhjá.

James Rodriguez fékk boltann á silfurfati þegar markvörður sendi beint á kassann á honum af stuttu færi og James náði að vippa á markið en markvörður nógu fljótur aftur og bjargaði á línu. Ekki langt frá því að skora þar.

Allan átti frábært hlaup frá miðju, með mann nartandi í hælana á sér — fór framhjá miðjumanni og svo framhjá varnarmanni og þaðan inn í teig. En sá sem elti náði að setja fótinn fyrir skotið og breyta stefnunni á boltanum vitlausu megin við stöngina.

Delph kom inn á fyrir Davies á 60 mínútu og tók þar með við vinstri bakvarðarstöðunni af Davies.

Patrick Bamford náði að koma boltanum í netið fyrir Leeds á 65. mínútu eftir flott spil en línumaður flaggaði réttilega rangstæðu.

Gomes kom svo inn á fyrir Iwobi á 67. mínútu.

En á 78. mínútu var ísinn loksins brotinn þegar Raphinha náði að koma Leeds yfir. Markið kom upp úr skoti af nokkru færi, gegnum klofið á Holgate og inn alveg við stöng. Lítið sem Pickford gat gert við því. Holgate var svo skipt út af fyrir Bernard í kjölfarið. 

Þetta reyndist því miður sigurmarkið og Leeds menn voru nær því að bæta við en Everton að jafna. Fengu dauðafæri upp við stöng vinstra megin, þar sem sóknarmaður Leeds var á auðum sjó en Pickford lokaði markinu glæsilega. 

0-1 fyrir Leeds því niðurstaða leiksins.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (8), Godfrey (7), Holgate (6), Keane (6), Allan (6), Davies (5), Doucoure (5), Iwobi (5), James (6), Richarlison (6), Calvert-Lewin (5). Varamenn: Delph (6), Gomes (5).

4 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Ég hef virkilega slæma tilfinningu fyrir þessum leik. Held að Leeds vinni þetta 1-3.

 2. Gestur skrifar:

  Þetta er ekki gott

 3. Gestur skrifar:

  Miða við leiki framunda eru ekki mörg stig í boði með
  svona spilamennsku. Það er að hitna hressilega undir stjóranum.

 4. Ari G skrifar:

  Mér fannst þetta skemmtilegur leikur. Skil samt ekki Ancelotte að hafa Iwobi í vinstri bakverðinum furðulegt auðvitað átti hann alltaf að byrja á hægri vængnum. Hvorugur bakverðirnir okkar voru ekki notaðir af hverju ekki frakkinn ungi flottur leikmaður. Mér fannst sóknarleikurinn langt frá því að vera nógu beittur þrátt fyrir öll færin en leikmennirnir skutu oft framhjá í góðum færum. Hvaða bull er þetta að setja Tom Davids inná í hægri bakverðinum vonlaus leikmaður. Kenny er miklu betri t.d. Svo vill ég að Ancelotte haldi sig helst við 4-4-2 eða 4-5-1 alls ekki að hafa 3 miðherja það virkar ekki.

Leave a Reply

%d bloggers like this: