Fulham – Everton 2-3

Mynd: Everton FC.

Landsleikjahléinu er lokið og Everton átti hádegisleik við Fulham á útivelli (Craven Cottage) í dag. Fulham menn voru einu sæti og einu stigi frá fallsæti fyrir leik og þeirra beið ekki öfundsvert prógram — leikir við Everton, Leicester, Manchester City og Liverpool.

Það hjálpaði þeim ekki að Richarlison var laus úr leikbanni eftir rauða spjaldið og hann átti eftir að vera þeim þyrnir í síðu, sérstaklega í fyrri hálfleik. Leikurinn var annars mjög kaflaskiptur þar sem Everton átti algjörlega fyrri hálfleik og komust í forystu en Fulham menn blésu til sóknar í seinni hálfleik og voru ekki mjög langt frá því að ná í stig. Stigin þrjú fóru þó til Everton sem komst upp í sjötta sæti — aðeins eitt stig í Liverpool í fjórða sæti.

Uppstillingin: Pickford, Digne (fyrirliði), Keane, Mina, Godfrey, Allan, Doucouré, Iwobi, Rodriguez, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Olsen, Holgate, Davies, Gomes, Gylfi, Bernard, Tosun.

Everton byrjaði leikinn með látum og komust yfir eftir aðeins 40 sekúndur. Fengu smá hjálp frá Fulham sem gáfu Richarlison boltann á silfurfati nálægt miðju. Hann fór með hann upp að endamörkum vinstra megin við mark og sendi lágan bolta fyrir. Sá bolti fór í ökklann á miðverði Fulham og þaðan í sköflunginn á Calvert-Lewin og í netið.

Calvert-Lewin var aftur ógnandi á 12. mínútu eftir fyrirgjöf frá hægri frá Iwobi en boltinn féll ekki eins vel fyrir hann í þetta skiptið.

Fulham menn svöruðu með skoti á mark strax í næstu sókn en Reid kinksaði og boltinn framhjá stöng. Honum brást þó ekki bogalistin á 15. mínútu þegar hann komst inn fyrir vörnina og lagði boltann snyrtilega framhjá Pickford. 1-1.

Calvert-Lewin kom boltanum í netið á 17. mínútu eftir flotta stoðsendingu frá Iwobi. Glæsileg afgreiðsla hjá Calvert-Lewin, en réttilega dæmdur rangstæður.

Richarlison skapaði frábært færi fyrir sig á 20. mínútu þegar hann vann boltann á miðjunni, lék á miðjumenn Fulham og komst framhjá varnarmanni með flottu þríhyrningaspili við Calvert-Lewin. Hann náði líka flottu skoti á mark út við stöng en markvörður varði glæsilega. Fulham menn heppnir þar.

En Everton komst aftur yfir á 27. mínútu eftir frábæran undirbúning frá Iwobi sem lék á þrjá leikmenn Fulham, sendi á Rodriguez, sem framlengdi á Digne sem sendi frá vinstri í fyrstu snertingu fyrir mark og Calvert-Lewin potaði inn upp við mark. VAR tók sér tíma í að meta rangstöðu en dæmdi svo markið gott og gilt.

Everton bætti svo við marki á 33. mínútu og það var af einfaldari sortinni. Rodriquez yfir á Digne á vinstri kanti sem sendi fyrir á Doucouré sem fékk frían skalla á mark. Enginn að dekka. 1-3.

Digne skapaði annað dauðafæri upp við mark á 41. mínútu og fann Richarlison á auðum sjó. Þurfti bara að setja hann á mark af stuttu færi en hitti boltann illa.

Everton gerði harða hríð að marki Fulham undir lok hálfleiks, en tókst ekki að bæta við. 1-3 fyrir Everton í hálfleik. Fyllilega verðskuldað.

Bragðdaufur seinni hálfleikur og lítið um færi. Fulham menn hysjuðu þó upp um sig buxurnar í hálfleik og stóðu sig mun betur í seinni. En uppskáru ekki fyrr en á 67. mínútu, stuttu eftir tvöfalda sóknarskiptingu, þegar þeir fengu víti eftir að Loftus-Cheek komst inn fyrir og féll við eftir smá snertingu frá Godfrey. Líklega réttur dómur en frekar ódýrt víti. Fulham menn hins vegar lúðruðu boltanum yfir mark, sem betur fer.

En Loftus-Cheek var aftur að verki á 68. mínútu þegar hann náði skoti að marki sem breytti um stefnu af Mina og fór yfir Pickford og í netið. Heppnismark, en þau telja hann mikið og staðan orðin 2-3. Allt í einu komin spenna í leikinn og maður hafði á tilfinningunni að þetta myndi snúast Fulham í vil, en sem betur fer gerðist það ekki.

Tom Davies inn á fyrir Rodriguez á 74. mínútu og Gylfi inn á fyrir Richarlison á 76. mínútu.

Everton þurfi svolítið að hanga á þessu út hálfleikinn og maður var ekkert sérstaklega sáttur við að sjá að 5 mínútum var bætt við. En það hafðist að lokum. 3-2 útisigur staðreynd.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Godfrey (6), Keane (6), Mina (7), Digne (8), Allan (7), Doucoure (8), James (5), Iwobi (8), Richarlison (8), Calvert-Lewin (9). Varamenn: Davies (6), Gylfi (5).

Byrjunarlið Fulham fékk fimmur og sexur á línuna, fyrir utan Decordova-Reid sem fékk 7.

Maður leiksins: Dominic Calvert-Lewin

13 Athugasemdir

 1. Albert skrifar:

  Frábært hjá okkar mönnum í hálfleik

 2. Gestur skrifar:

  Iwobi góður í fyrri hálfleik

 3. Ari G skrifar:

  Frábær fyrri hálfleikur en seinni var ekki góður hjá Everton. Besti leikur Iwobi með Everton frá upphafi. Lewin var geggjaður og Richarlison frábær í fyrri hálfleik en Suðurameriku mennirnir voru greinilega orðnir þreyttir í seinni hálfleik. Skil ekki þessa einkunnargjöf hjá Mina gaf 2 mörk lélegasti leikmaður Everton henta honum út í næsta leik. Digne er magnaður leikmaður. Aðrir voru ok.

  • Elvar Örn Birgisson skrifar:

   Mína gaf ekki seinna markið. Var að reyna að verjast. En sammála að fyrri var geggjaður en seinni var slakur,,,,, en samt sigur.

   • Halldór Steinar Sigurðsson skrifar:

    Þetta var eiginlega meiri skita hjá Digne sem missti Lookman inn fyrir sig…eini svarti bletturinn á leik Digne sem var annars frábær.

 4. Elvar Örn Birgisson skrifar:

  Everton er 4 stigum frá efsta sæti svo þetta er ennþá allt í góðu. Leeds og Burnley framundan og svo erfiðir desember leikir en ekki gleyma að Everton mætir Man Utd í undan úrslitum deldarbikars þann 23 des kl 20. Smá séns á Evrópu sæti þar líka. Ancelotti er með þetta.

 5. Gunnþór skrifar:

  Er í sjokki yfir því hvernig everton liðið kom inn í seinni hálfleik,veldur mér hugarangri.

  • Elvar Örn Birgisson skrifar:

   Algerlega sammála Gunnþór, shocking seinni hálfleikur. En Everton voru frábærir í fyrri hálfleik, það má ekki gleyma því góða. Hefðum getað sett 1-2 fleiri mörk í fyrri hálfleik. En liðið þarf að læra að klára svona leiki.

 6. Gunnþór skrifar:

  Fulham voru jafn lélegir í fyrri og everton voru í seinni everton liðið hefur bara meiri gæði í að klára svona leiki, en maður minn við náðum varla að klukka boltann í seinni fulham leit út einsog barcelona og það er ákveðið áhygguefni.

  • Elvar Örn Birgisson skrifar:

   Svo sammála, eins og við vorum góðir í fyrri þá vorum við ömurlegir í seinni. Sorglegt að fylgja ekki betur eftir þeim fyrri.

 7. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Við sluppum með þetta í dag. Fyrri hálfleikur fínn en vorum ekki með í þeim seinni.
  Það er hræðilegt að sjá varnarleikinn hjá okkar mönnum það sem af er tímabilsins. Við höldum aldrei hreinu og þurfum helst að skora þrjú mörk eða meira til að vinna leiki, því við fáum alltaf á okkur minnst tvö mörk. Það veldur mér miklum áhyggjum því að með svoleiðis áframhaldi töpum við eða gerum jafntefli í fleiri leikjum en við vinnum. Það dugar ekki hjá liði sem ætlar sér Evrópusæti.

 8. Elvar Örn Birgisson skrifar:

  DCL er búinn að skora 10 mörk í deildinni.
  Það eru jafn mörg mörk og allt lið Man City á leiktíðinni, áhugavert.

 9. Finnur skrifar:

  Hann er ekki langt frá því heldur að vera jafn oft valinn í lið vikunnar hjá BBC og City hafa skorað í deild… 🙂
  https://www.bbc.co.uk/sport/football/55032453

%d bloggers like this: