Crystal Palace – Everton 1-2

Mynd: Everton FC.

Þriðji deildarleikur tímabilsins var gegn Crystal Palace en bæði lið voru með 6 stig á toppi deildarinnar fyrir leik. Eftir leik, hins vegar, sat Everton liðið eitt á toppnum, allavega um sinn, eftir góðan 2-1 sigur með mörkum frá Calvert-Lewin og Richarlison (víti).

Uppstillingin: Pickford, Digne, Michael Keane, Mina, Coleman (fyrirliði), Allan, Doucouré, Gomes, Rodriguez, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Lössl, Kenny, Gylfi, Davies, Bernard, Iwobi, Moise Kean.

Rólegt var um að litast fyrstu 10 mínúturnar eða svo, alveg þangað til James Rodriguez skellti í frábæra sendingu inn í teig á Coleman. Beint í fætur og ekki of fast og kom Coleman upp að marki hægra megin. Coleman sendi svo lágan bolta milli tveggja varnarmanna fyrir mark sem Calvert-Lewin þrumaði inn! 0-1 fyrir Everton! Calvert-Lewin þar með kominn með mark í þremur deildarleikjum í röð. Ancelotti gaf hon 20 marka takmark fyrir tímabilið og hann er kominn með fjórðung af því eftir aðeins þrjá leiki.

En Crystal Palace menn jöfnuðu á 26. mínútu. Það hafði lítið sem ekkert verið að frétta í sókn þeirra fram að markinu en svo fengu þeir horn þar sem Michael Keane og Richarlison dekkuðu ekki almennielga mann á fjærstöng, sem fékk fyrir vikið frían skalla sem hann afgreiddi framhjá Pickford í markinu. Staðan orðin 1-1.

Þeir fengu svo annað horn örskömmu síðar en það snerist yfir í skyndisókn fyrir Everton þar sem Rodriguez átti frábæra sendingu fram á Richarlison sem komst upp að endamörkum vinstra megin en skotið blokkerað. Þá reyndi hann háa sendingu fyrir mark, sem fór í hendina á Ward en ákvörðun VAR var: ekkert víti. Líklega réttur dómur, því hendin var upp við líkamann.

Stuttu síðar fékk sami maður (Ward) boltann í hendina eftir skalla frá Digne og í þetta skipti var höndin ekki upp við líkamann og því vítið gefið. Höndin samt í náttúrulegri stöðu og ekkert viljaverk, en svona er þetta…

Richarlison á punktinn og þrumaði boltanum örugglega uppi í vinstra hornið. 1-2 fyrir Everton. Þulirnir fóru yfir þetta í hálfleik og sögðu að reglurnar hefðu breyst hvað víti varðar og að þetta væri eftir bókinni (að gefa víti) en ég verð að vera sammála þeim að þetta er pínu ósanngjörn regla.

1-2 í hálfleik.

Calvert-Lewin fékk upplagt færi eftir horn frá James Rodriguez á 50. mínútu, hristi af sér manninn sem var að dekka hann og náði til boltans mjög nálægt marki en afgreiðslan ekki eins og hann vildi og boltinn framhjá. Þar hefði staðan átt að vera 1-3.

Crystal Palace menn fengu tvö hættuleg færi með stuttu millibili eftir um klukkutíma leik. Það fyrra fyrirgjöf sem breytti um stefnu af Coleman og sigldi framhjá marki en enginn Palace maður náði að pota inn. Hitt var skallafæri upp við fjærstöng eftir aukaspyrnu en boltinn skallaður rétt framhjá stöng. Palace menn aðeins að komast meira inn í leikinn.

James Rodriguez fékk séns á að klára leikinn þegar hann fékk fína fyrirgjöf frá Digne og náði viðstöðulausu skoti að marki sem varnarmaður Crystal Palace náði að kasta sér fyrir.

Á 71. mínútu áttu Palace menn að fá víti, að mínu mati, þegar Calvert-Lewin fékk skot á sig innan teigs og fékk boltann í hendi. Höndin fyrir framan magann og að mínu mati augljósara víti en það sem Everton fékk. VAR hins vegar ekki á því að gefa víti.

Leikmenn Everton voru augljóslega farnir að þreytast undir lokin og maður hafði áhyggjur af því að Palace menn myndu ganga á lagið. En Ancelotti frískaði upp á þetta með því að setja Gylfa inn á fyrir Gomes á 75. mínútu, Iwobi fyrir Rodriguez tíu mínútum síðar svo og Davies fyrir Richarlison undir lokin.

Það virkarði en ekki má gleyma þætti Calvert-Lewin, sem var duglegur að skýla bolta frammi og sækja brot á varnarmenn Palace, sem eyddi dýrmætum tíma og hjálpaði til við að sigla fimmta sigurleiknum í röð í höfn. Everton á toppi deildarinnar eftir þrjá leiki. Meira svona!

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Coleman (7), Mina (7), Keane (7), Digne (8), Doucoure (7), Allan (7), Gomes (7), James (7), Calvert-Lewin (7), Richarlison (7). Varamenn: Gylfi (6).

Maður leiksins: Lucas Digne.

6 Athugasemdir

 1. Ari G skrifar:

  Flottur baráttusigur. Varnarleikurinn mjög góður nema kannski markið en erfitt að dekka manninn. Meðalmennskan allsráðandi en ég vel Calvert-Lewin mann leiksins sífellt að berjast. Fyrri hálfleikurinn mun skemmtilegri en Everton hélt forustunni í seinni hálfleiknum með öruggri spilamennsku.

 2. Ari S skrifar:

  Frekar skemmtilegur dagur hjá mér. Ég fór í sveitina að ná í Gylfa frá Efri-Reykjum (hestur sem er fæddur mér) tilþess að láta hann í frumtamningu.

  Auðvitað lagði ég snemma af stað í morgun svo ég gæti hugsanlega séð leikinn en svona tímalínurbreytast alltaf. ég fylgdist með í símanum og sá að staðan var 1-2 í hálfleik. Þá sá ég fram á að verða kominn í bæinn ef ég einbeitti mér að akstrinum heim.

  Það endaði með því að ég sá síðustu tíu mínúturnar og mér skilst að Coleman hafi verið bestur í dag? Er það rétt?

  ps. ég er ekkert að skammast út í Iwobi en hann var frekar óöruggur þegar hannkominná. En ég sá bara síðustu tíu mín.

  kær kveðja, Ari

 3. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Þetta var svona ljótur sigur…….og andskotans sama er mér.
  Vona bara að þetta haldi svona áfram lengi.

 4. GunniD skrifar:

  Ja, fallegt var það ekki.

 5. Finnur skrifar:

  James Rodriguez valinn í lið vikunnar að mati BBC:
  https://www.bbc.com/sport/football/54328590

  > mér skilst að Coleman hafi verið bestur í dag?

  Sky Sports völdu Digne, eins og fram kom hér að ofan, en Coleman og Calvert-Lewin voru flottir líka (eins og þið nefnduð). Nú er liðið náttúrulega komið með flott akkert (Allan) sem gerir bakvörðunum okkar báðum kleyft að sækja áhyggjulausir fram á við, vitandi að Allan á eftir að ryksuga upp bolta ef hætta skapast.

 6. Finnur skrifar:

  Everton á tvo á topp 5 lista yfir in-form leikmenn Úrvalsdeildarinnar en Dominic Calvert-Lewin er þar í fyrsta sæti og James Rodriguez í því fimmta.
  https://www.skysports.com/football/news/11671/12084214/premier-league-power-rankings-evertons-dominic-calvert-lewin-top

  Richarlison er ekki langt undan heldur en hann er í 16. sæti.

%d bloggers like this: