Fleetwood – Everton 2-5

Mynd: Everton FC.

Það er skammt á milli leikja þessar fyrstu vikur nýs tímabils — sem er mjög gott fyrir okkur, því Everton er á mjög góðri siglingu eftir fjórða sigurleikinn í röð. Í þetta skiptið lá Fleetwood Town í valnum í þriðju umferð deildarbikarsins en fyrir aðeins viku síðan sló Everton Salford City út.

Uppstillingin: Pickford, Nkounkou, Digne, Michael Keane, Kenny, Delph, Gylfi (fyrirliði), Iwobi, Bernard, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Lössl, Coleman, Davies, Doucouré, Walcott, Gordon, Moise Kean.

Sem sagt, blanda af ungum leikmönnum og reyndum mönnum á jaðrinum. Pickford, Digne (í miðvarðarstöðu), Richarlison og Calvert-Lewin þeir einu í liðinu sem byrjuðu deildarleikinn um helgina.

Everton byrjaði leikinn af miklum krafti og dældu boltum inn í teig af köntunum og þá sérstaklega vinstri bakvörðurinn ungi Nkounkou, sem átti röð af frábærum sendingungum fyrir mark, yfirleitt á Calvert-Lewin, sem hefði getað skorað tvö mörk snemma leiks.

Iwobi var mjög nálægt því að skora á 21. mínútu þegar skot hans breytti um stefnu af varnarmanni og fór í sveig yfir markvörð en boltinn í slána og í horn. En mark Everton kom stuttu eftir hornið þegar Bernard sá hlaup hjá Richarlison gegnum vörnina hægra megin og vippaði beint á kollinn á honum. Richarlison þakkaði fyrir sig pent með því að skalla framhjá markverði og í hliðarnetið. 0-1 fyrir Everton.

Iwobi var ekki langt frá því að bæta við marki á 29. mínútu þegar hann átti skot rétt utan teigs sem fór hárfínt framhjá stönginni vinstra megin. Bernard átti sömuleiðis skot rétt framhjá sömu stöng eftir að hafa leikið vel á varnarmann Fleetwood og náði boltanum í sveig framhjá markverði.

Það var hins vegar Richarlison sem náði að bæta við marki á 33. mínútu, eftir flott samspil milli hans og Iwobi. Bernard hafði átt flott dummy hlaup stuttu áður gegnum teiginn sem dró að sér varnarmann og gaf Richarlison heilmikið pláss við teiglínuna. Þar fann hann Iwobi inni í teig og hljóp sjálfur í gegnum varnarlínuna, fékk boltann til baka eftir hælspyrnu frá Iwobi og þrumaði inn. 0-2 fyrir Everton.

Calvert-Lewin fékk frábært færi rétt fyrir fyrri hálfleik þegar hann fékk flotta háa sendingu inn í teig, tók hann á kassann og náði skoti á mark en markvörður átti algjörlega frábærlega vörslu og kom í veg fyrir að staðan yrði 0-3 í hálfleik.

Lítið að gera hjá Pickford í marki Everton þannig að hann fékk lánaðan sláttuvéla-traktor frá vallarstarfsmann og dundaði sér við það að slá grasið í teignum…

Ein breyting í hálfleik hjá Everton: Gordon kom inn á fyrir Calvert-Lewin. Fleetwood gerðu einnig eina breytingu á sinni uppstillingu: Duffy kom inn á fyrir Stubbs og sá beið aldeilis ekki boðanna heldur náði að skora strax í upphafi hálfleiks. Pickford gerðist sekur um mistök þegar hann tók snertingu til hliðar og fékk strax tvo sóknarmenn Fleetwood í sig og hreinsunin í flýti fór beint á Duffy sem var á auðum sjó í teignum og skoraði.

En Iwobi sá til þess að uppgangur Fleetwood entist ekki lengi, því hann skoraði strax í næstu sókn. Þrumaði inn af stuttu færi.

Richarlison fór svo mjög illa með hægri bakvörð Fleetwood þegar hann komst einn fyrir, inn í teiginn vinstra megin á 55. mínútu. Sendi þaðan á Iwobi sem kom á hlaupinu en Iwobi skaut rétt framhjá marki. Sá bolti hefði þurft að syngja í netmöskvunum, því Fleetwood hafði vaxið ásmeginn með breyttu leikkerfi og þeir náðu að skora í næstu sókn.

Það mark var af dýrara taginu, því sóknarmaður þeirra náði að skalla frá hægri fyrir markið þar sem hinn sóknarmaður þeirra tók hjólhestaspyrnu og inn. Pickford ekki langt frá því að verja en boltinn í netið og staðan orðin 2-3! Fleetwood ekki átt nema eina snertingu inni í teig á um 50 og eitthvað mínútuna kafla allt í einu búnir að skora tvö mörk.

Tom Davies kom inn á fyrir Delph á 61. mínútu og stuttu síðar átti Bernard flott skot sem markvörður varði vel. Bernard var búinn að vera mjög líflegur allan leikinn en ekki tekist að skora. En það breyttist þó á 71. mínútu þegar boltinn barst óvænt til hans inni í teig og hann var á auðum sjó og þrumaði inn viðstöðulaust af nokkuð löngu færi. Iwobi og Gordon höfðu í aðdragandanum náð vel saman með fínu þríhyrningaspili sem setti Gordon inn fyrir hægra megin þannig að hann náði fyrirgjöfinni en boltinn hafði átt viðkomu í varnarmann áður en hann barst til Bernard.

Moise Kean kom inn á fyrir Richarlison á 76. mínútu og sá átti eftir að láta til sín taka. En áður en það gerðist fann Kenny kantmanninn Gordon á auðum sjó við vítateigslínu og sendi háan bolta yfir á hann á 86. mínútu og Gordon reyndi viðstöðulaust skot, ekki ósvipað því sem Bernard tókst nokkru áður en í þetta skiptið fór boltinn framhjá marki hægra megin.

Í uppbótartíma kláraði Everton svo dagsverkið með fimmta markinu. Digne átti þá flotta vippu yfir miðju- og varnarmenn Fleetwood sem setti Nkounkou upp kantinn vinstra megin. Hann komst óáreittur alla leið inn í teig og nálgaðist stöng vinstra megin þegar hann sá Moise Kean í upplögðu færi úti í teig og sendi hælspyrnu á hann. Moise Kean brást ekki bogalistin heldur þrumaði inn. Staðan orðin 2-5 og sigurinn þar með gulltryggður. 

Sky Sports gefur ekki út einkunnir fyrir leikinn en Nkounkou kom skemmtilega á óvart í leiknum og Bernard var orkumikill og fjörugur líka. Calvert-Lewin var einnig mjög óheppinn að skora ekki líka, en maður leiksins líklega Richarlison með sín tvö mörk.

En hvað um það. Sigur er það sem skiptir máli og þetta var fjórði sigurleikur Everton í röð! Crystal Palace menn næstir á laugardaginn.

5 Athugasemdir

  1. Ari G skrifar:

    Skrítinn leikur. Pickford var hræðilegur gaf allavega eitt mark og hefði kannski átt að verja hitt líka með betra viðbragði. Kannski er bestu kaup Everton núna Nkounkou stórkostlegur leikmaður. Loksins vaknaði Iwobi það hækkar verðið á honum ef hann verður seldur eða verður hluti af kaupum Zaha ef Everton kaupir hann vonandi. Þessi leikur var annars þokkalegur hjá Everton og með betri markvörslu hefði hann farið 5:0.

  2. Ari S skrifar:

    Þetta var fínn leikur fyrir nokkra sem þurfa aðkomast í form. Bernard var fínn, mér fannst hann reyndar bestur okkar manna. Richarlison var fínn og Iwobi góður. Nkounkou er frábær leikmaður og greinilegt að menn hafa verið búnir að vina heimavinnuna sína þegar þeir fengu hann til félagsins. frábær hæesending í lokin sem að gaf Evertonmark og það var Kean sem að skoraði. Ég vona svo sannarlega að Kean verði áfram hjá okkur, hann er enn það ungur og greinilega mikið í hann varið.

    Pickford vara bgara Pickford í gær, svo sem ekkert nýtt.

  3. Georg skrifar:

    Heilt yfir góð frammistaða hjá liðinu. Richarlison flottur, Bernard átti góðan leik, Iwobi með sinn besta leik fyrir Everton, Nkounkou mjög flottur í leiknum og þá sérstaklega fram á við, hann hefur komið manni skemmtilega á óvart. Pickford átti alls ekki sinn besta dag. Kean virkar ekki sáttur þessa dagana, búinn að skora í báðum bikarleikjunum en fagnaði hvorugu markinu.

  4. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Fínasta frammistaða hjá liðinu en algjör óþarfi að gefa þessi mörk. Keane með slaka sendingu á Pickford sem setti hann undir óþarfa pressu, hann hefði þó getað gert betur. Hvað hann var svo að reyna að gera í seinna markinu er mér hulin ráðgáta.
    Sá sem fann Nkounkou á skilið orðu. Miðað við það sem maður hefur séð af honum þá held ég að hann eigi eftir að verða stórkostlegur leikmaður.
    Sendingin hans á Kean var algjört konfekt og Kean kláraði svo eins og framherja sæmir. Ég er pínu smeykur um að Kean eigi eftir að verða eins og Balotelli. Ef ég man rétt þá fagnaði hann ekki heldur þegar hann skoraði. Vona bara að ég hafi rangt fyrir mér varðandi þetta og að Kean sé með hausinn rétt skrúfaðann á sig því Balotelli er hræðileg fyrirmynd.

  5. þorri skrifar:

    Sælir félagar hvað seigi þið í dag ,er ekki bara sigur í dag og fá fúlt hús stig og á úti velli þar að auki .Mér líst vel á að stjóri okkar sé að horfa á markmann okkar maður er ekki að gera góða hluti í markinu,ég er ekki viss um að hann nái að halda hreinu í dag.En við vinnum 1-3 KOMA SVO EVERTON MENN ALLIR SEM EIN