Sheffield United – Everton 0-1

Mynd: Everton FC.

Næstsíðasti leikur þessa óvenjulega tímabils var gegn Sheffield United í dag, á útivelli.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Michael Keane, Branthwaite, Sidibé, Gylfi, Davies, Gomes, Walcott, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Stekelenburg, Virginía, Baines, Iwobi, Bernard, Coleman, Baningime, Gordon, Simms.

Róleg byrjun á leiknum og fá færi — Everton þó líklegri til að komast í dauðafæri fyrstu 25 mínúturnar og í báðum tilfellum Walcott að skapa það. Fyrra skiptið var sending fyrir mark frá hægri sem Richarlison hefði bara þurft að pota inn, ef hann hefði verið kominn aðeins framar að fjærstöng. Í seinna tilvikinu vann Walcott boltann vel á hægri kantinum og sendi strax frábæra háa sendingu fram á Calvert-Lewin, sem hefði komist einn á móti markverði ef móttakann á kassann hefði ekki endað of langt frá honum.

Sheffield United náðu loks skoti að marki á 40. mínútu sem Pickford náði að slá í burtu, en endursýning sýni að boltinn hefði líklega ekki ratað á markið.

Hinum megin skapaði Walcott frábært skallafæri við fjærstöng vinstra megin fyrir Calvert-Lewin en hann skallaði í stöng og út. Sheffield menn stálheppnir þar.

0-0 í hálfleik.

Líflegur seinni hálfleikur tók við en ekki skemmdi fyrir að Everton byrjaði hann með frábærum hætti — fengu aukaspyrnu sem Gylfi setti beint á kollinn á Richarlison inni í teig sem skallaði á fjærstöng og inn!

Everton náði flottri skyndisókn í kjölfarið sem rann út í sandinn og stuttu síðar komust Sheffield United menn í skotfæri inni í teig, en þrumuðu beint á kassann á Branthwaite.

Á um 51. mínútu voru Sheffield United menn heppnir að sleppa þegar leikmaður þeirra traðkaði viljandi á leggnum á Digne. Ef Digne hefði gert sér meiri mat úr því, eins og maður sér oft önnur lið gera, hefði hann líklega náð allavega gulu spjaldi og líklega meiru upp úr vasa dómarans.

Calvert-Lewin komst í frábært skotfæri inni í teig vinstra megin en skotið blokkerað — sem breytti stefnu boltans og markvörður þurfti að hafa sig allan við að verja.

Tvisvar komst Everton í færi á um 80. mínútu og það seinna var langskot frá Gomes sem fór rétt framhjá. En það fyrra var hihns vegar mun betra, því Everton opnaði vörn Sheffield upp á gátt og Walcott sendi lágan bolta frá hægri fyrir mark en enginn mættur þar.

Á 84. mínútu skipti Ancelotti Walcott út af fyrir Anthony Gordon. Þremur mínútum síðar fór Gylfi sömu leið og kom Coleman inn á fyrir hann. Þar með skipt yfir í 3 leikmenn í öftustu línu (og tvo wingbacks). 

Everton komst í skyndisókn á lokamínútu framlengingar eftir að Richarlison náði að stela boltanum af miðjumanni Sheffield United en sendingin frá Gordon fyrir mark hitti engan fyrir í framlínunni. 

0-1 sigur Everton því staðreynd og var það verðskuldaður sigur. Allt annað að sjá til liðsins, sérstaklega í seinni hálfleik. Fín barátta og miðjumennirnir fljótir, öflugir og útsjónasamir í að sjá hlaup sóknarmanna inn fyrir. Lítið að frétta fyrir vikið í sóknarlínu Sheffield United.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Sidibe (7), Branthwaite (8), Keane (7), Digne (7), Davies (7), Gomes (7), Walcott (7), Gylfi (7), Richarlison (8), Calvert-Lewin (7).

Maður leiksins: Richarlison

5 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Korter búið og ekkert að gerast hjá okkar mönnum, hins vegar er bara tímaspursmál hvenær Sheffield skorar fyrsta markið af þremur.

 2. Ari S skrifar:

  Mikið var þetta fallegt mark.

 3. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Hvað varð Everton??? Ég bara þekkti ekki þetta lið sem kom inn á í seinni hálfleik.

 4. Orri skrifar:

  Nú er ekkert annað en að halda 11 sætinu til þess þurfum við að vinna leikinn gegn Bournemouth í dag.

%d bloggers like this: