Everton – Southampton 1-1

Mynd: Everton FC.

Nú er komið að leik Everton við Southampton, á Goodison Park, kl. 17:00. Liðin eru á svipuðu róli um miðja töflu og bæði að vonast eftir Evrópusæti þannig að það verður ekkert gefið eftir!

Uppstillingin: Pickford, Digne, Keane, Mina, Coleman, Gordon, Davies, Gomes, Iwobi, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Stekelenburg, Baines, Gylfi, Walcott, Bernard, Sidibé, Moise Kean, Baningame, Branthwaite.

Öllu meiri ákefð í leik Everton en í síðasta leik. Gott að sjá. Öllu verra var þegar Southampton komu boltanum í netið á 7. mínútu. Markaskorarinn þó sem betur fer réttilega dæmdur rangstæður.

Fyrsta færi Everton kom á 22. mínútu eftir háa fyrirgjöf frá vinstri frá Digne. Richarlison var við mitt markið og framlengdi með skalla á Iwobi sem var á auðum sjó, tók boltann niður og þrumaði á mark en markvörður varði glæsilega.

Southampton menn svöruðu með skoti sem Pickford varði í þverslá en þeir fengu svo hálf ódýra vítaspyrnu á 27. mínútu þegar Gomes lenti í samstuði við Ward-Prowse. En sem betur fer skaut hann í þverslá úr vítinu.

En mark Southampton lá í loftinu og þeim tókst að böðla boltanum í netið á 30. mínútu. Danny Ings fékk þá stungusendingu inn fyrir og var heppinn að ná rétt svo að stýra boltanum framhjá Pickford (áður en hann missti af boltanum) og pota í netið áður en Coleman kom á skriðtæklingu.

Stuttu síðar vildi Anthony Gordon vítaspyrnu þegar hann var keyrður niður inni í teig en dómarinn ekki sammála. Sá ekki betur en varnarmaður hefði farið aftan í hann. Maður hefur alveg séð þetta gefið.

Á 41. mínútu fór Gomes af velli meiddur og Gylfi kom inn á í staðinn.

Rétt fyrir hálfleik átti Digne stoðsendingu frá eigin vallarhelmingi. Sendi langan bolta inn í teig sem Richarlison lagði fyrir sig í fyrstu snertingu og þrumaði inn. Staðan 1-1 og þannig var það í hálfleik.

Ein taktískt breyting í hálfleik: Sidibé inn á fyrir Iwobi og Everton skipti þar með yfir í 3-5-2. Það tók hins vegar Everton nokkrar mínútur að komast í takt við leikinn og Southampton menn byrjuðu betur en svo tók Everton stjórnvölinn.

Á 60. mínútu komst Richarlison einn inn fyrir en var tæklaður af síðasta varnarmanni. Beint rautt eða hvað? Nei, bara gult og VAR sammála. Hlutlausir áhorfendur í sal á Ölveri ekki sammála.

Stuttu síðar fékk Everton upplagt færi og sigldu gegnum vörn Southampton með fínum sendingum manna á milli frá hægri kanti yfir til vinstri en þegar Digne hefði getað sett Calvert-Lewin inn fyrir vinstra megin var sendingin frá honum of laus. Lykilsending sem hefði líklega lagt upp mark.

Ancelotti skipti þá Moise Kean inn á fyrir Calvert-Lewin á 68. mínútu og Bernard fyrir Gordon á 74. mínútu.

Færin létu hins vegar á sér standa og 1-1 jafntefli því niðurstaðan.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Coleman (7), Keane (6), Mina (6), Digne (7), Davies (6), Gomes (5), Iwobi (5), Gordon (6), Richarlison (7), Calvert-Lewin (6). Varamenn: Sidibe (7), Gylfi (6), Kean (6).

7 Athugasemdir

 1. Gunnþór skrifar:

  Er það vitleysa í mér en mér finnst everton liðið fara bara aftur hægt og rólega, erum yfirspilaðir af miðlungsliði á heimavelli.

 2. Diddi skrifar:

  Gunnþór, þetta eru tvö miðlungslið vinur. En Lee Mason heldur áfram að slá í gegn á Goodison, hann dæmir víti þegar það á ekki að vera víti. Leyfir endalaus brot á Richarlison án spjalda en hikar ekki við spjald þegar hann brýtur af sér. Og hann er bara búinn með fyrri hálfleik. Eins gott að við höfum VAR 🙂

  • Gunnþór skrifar:

   Já Diddi verð að vera sammála þér að við eigum langt í land að vera með topp lið og það er rétt hjá þér þetta var aldrei víti.

 3. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Algjör ræpa hjá okkar mönnum einu sinni enn. Býst ekki við að það lagist neitt í þessum leikjum sem eftir eru og trúlega er langt og pirrandi tímabil framundan í ágúst.

 4. Ari S skrifar:

  Veit einhver hvers vegna Ancelotti fór til dómaranna eftir leik? Ánægður samt að sjá gamla láta heyra í sér þó að leikurinn hafi verið búinn.

 5. Finnur skrifar:

  Líklega út af þessu…
  https://www.bbc.com/sport/football/53357841

 6. Ari G skrifar:

  Aftur frekar rólegur leikur en samt voru Everton mun betri en í gegnum gegn Tottenham en samt alltof hægir. Mundi hætta að nota Iwodi og Tom Davids geta ekkert. Af hverju prófar Ancelotti ekki að hafa Kean og Lewin saman frammí og hafa Richarlison á vinstra kanti og Sidibe á hægri kanti eða Coleman. Finnst Gordan æðislegur leikmaður heillar mig meira og meira og getur alveg tekið við hlutverki Gylfa á miðjunni seinna. Mark Richarlison var snilld.

%d bloggers like this: