Carlo Ancelotti ráðinn!

Mynd: Everton FC.

Everton staðfesti nú rétt í þessu að Carlo Ancelotti hefði samþykkt að gerast næsti stjóri Everton. Í byrjun vikunnar hafði Sky Sports birt frétt þar sem sagði að „agreement in principle“ lægi fyrir en klúbburinn sendi frá sér tilkynningu þar sem kom fram að engin samningur hefði verið boðinn og við þurftum að bíða fregna alveg til helgar. En nú er þetta staðfest!

Skoðum aðeins hvað er að finna í greinum um Carlo Ancelotti um þann mann sem hann hefur að geyma, þmt. Wikipediu. Hann hóf feril sinn sem leikmaður á miðjunni hjá Parma aðeins 18 ára gamall og lauk honum 16 árum síðar eftir að hafa (með Parma og/eða AC Milan) unnið ítölsku deildina þrisvar, ítalska bikarinn fjórum sinnum, en einnig Supercoppa, Evrópubikarinn, Europa Super Cup og Intercontinental Cup. Að auki var hann í bronsliði Ítala á HM 1990.

Ekki slæmt. Árangur hans sem knattspyrnustjóri er þó enn glæsilegri, en hann er einn sá allra sigursælasti stjóri í boltanum og af mörgum talinn einn sá allra besti. Aðeins tveir aðrir stjórar í heiminum hafa unnið Meistaradeild Evrópu þrisvar sinnum, líkt og hann (Ancelotti hefur unnið bikarinn tvisvar með AC Milan og einu sinni með Real Madrid). Jafnframt má geta þess að hann hefur orðið heimsmeistari félagsliða tvisvar með sömu liðum. Hann byrjaði stjóraferil sinn hjá Reggiana (vinningshlutfall: 41%) en tók síðar við Parma (48%), Juventus (55%), AC Milan (56%), Chelsea (61%), PSG (63%), Real Madrid (74%), Bayern Munchen (70%) og nú síðast Napoli (52%). Fyrir utan Napoli hefur leiðin aðeins legið upp á við hjá honum, en vandræði Napoli utan vallar hafa verið vel skjalfest.

Ancelotti þótti til að byrja með á stjóraferlinum mjög ósveigjanlegur stjóri þegar kom að leikaðferðum en hjá sínum fyrstu tveimur liðum (Reggiana og Parma) vildi hann aðeins leika 4-4-2 leikaðferðina með stífri pressu (án þess að spila með sóknarþenkjandi miðjumann), óháð því hvort það hentaði hans bestu og mest skapandi leikmönnum. En þegar hann tók við Juventus fór hann að hugsa meira um að nýta sína bestu menn betur og til dæmis tók hann upp 3-4-1-2 leikaðferðina, sem leyfði Zinedine nokkrum Zidane, að blómstra í holunni fyrir aftan fremsta mann. Hjá AC Milan var hann svo lofaður fyrir að finna alltaf leikkerfi sem fúnkeraði fyrir þann hæfileikaríka og skapandi efnivið sem hann hafði í höndunum.

Ef stiklað er á stóru í árangri Ancelotti sem stjóra, kemur ýmislegt skemmtilegt í ljós. Hann kom Reggiana upp í efstu deild á Ítalíu á sínu fyrsta og eina tímabili með þeim. Hjá Parma var hann aðeins þremur stigum frá því að verða ítalskur meistari en annað sætið tryggði þeim sæti í Meistaradeildinni. Hann var þó rekinn á sínu öðru tímabili eftir að hafa endað í 6. sæti í deild, þrátt fyrir að hafa tryggt þáttökurétt í UEFA Cup (Europa League þess dags).

Þaðan lá leiðin til Juventus þar sem hann vann Intertoto bikarinn á sínu fyrsta tímabili. Byrjunin lofaði góðu en hann var aðeins einu stigi frá því að vinna ítölsku deildina það árið, þrátt fyrir að hafa 5 stiga forskot á toppnum undir lokin. Á sínu öðru tímabili endaði hann aftur í öðru sæti ítölsku deildarinnar og — eins ótrúlegt og það kann að virðast — var tilkynnt um brottrekstur hans í hálfleik síðasta leiks tímabilsins á heimavelli þegar Juventus átti enn möguleika á að verða Ítalíumeistarar! Þeir unnu leikinn 2-1 en það reyndist ekki nóg og annað sætið því staðreynd.

Við tóku 9 ár hjá AC Milan með algjörlega frábærum árangri en hann vann Meistaradeild Evrópu tvisvar og UEFA Supercup tvisvar og gerði þá að bæði heimsmeisturum félagsliða, ítölskum deildar- og bikar-meisturum og vann að auki Supercoppa bikarinn eitt árið (ítalski Góðgerðarskjöldurinn).

Því næst tók hann við Chelsea í júní 2009 og þá sögu ættum við öll að þekkja nokkuð vel. Abramovich hafði keypt félagið 6 árum áður (2003) og Mourinho gert þá að Englandsmeisturum ’04-05 og ’05-06 og að auki unnið báðar ensku bikarkeppnirnar. En liðið var byrjað að dala nokkuð eftir stjórnartíð Avram Grant og Gus Hiddink (sem reyndar náði að vinna FA bikarinn einu sinni). Fyrsta verk Ancelotti hjá Chelsea var að vinna Góðgerðarskjöldinn en á sínu fyrsta tímabili gerði hann Chelsea að tvöföldum meisturum, hvorki meira né minna (bæði FA bikarmeisturum og Englandsmeisturum). Þrátt fyrir það lét Abramovich hann fara, er í ljós kom að Chelsea þyrfti að sætta sig við 2. sæti í deild að ári liðnu en sigurhlutfall Ancelotti hjá Chelsea var 61.47%, sem var (allavega árið 2016) þriðji besti árangur nokkurs stjóra í Úrvalsdeildinni, skv. tölfræði BBC.

Þaðan lá leiðin til PSG, þar sem hann vann frönsku deildina, og svo til Real Madrid, þar sem hann vann spænska bikarinn, Meistaradeild Evrópu, UEFA Super Cup og varð heimsmeistari félagsliða. Tímabil hjá Bayern Munchen tók því næst við, þar sem hann vann þýsku deildina og þýska bikarinn.

Nú síðast var Ancelotti hjá Napoli en erfitt er að meta árangur hans þar, þar sem forseti félagsins var í eins konar stríði við eigin leikmenn, ef ég skil þetta rétt.

Hjá AC Milan var Ancelotti þekktur fyrir fjögurra manna baklínu með sóknarþenkjandi miðjumann og sterkan framherja. Leikaðferð hans var sveigjanleg eftir því sem hann hafði úr að moða og hann óhræddur við að prófa nýjar leikaðferðir (4-3-1-2 eða 4-1-2-1-2 og 4-4-2 með tígul á miðjunni). Stundum jafnvel 4-4-1-1 eða 3-4-1-2 eða 4-3-2-1). Hjá Real Madrid var hann meira í 4-3-3.

En nú er Ancelotti tekinn við Everton og mun stýra þeim í leiknum gegn Burnley. Duncan Ferguson verður því áfram við stjórnvölinn þegar Everton tekur á móti Arsenal.

Spurningin er hvort Ancelotti geti náð að móta sigursælt lið í ensku Úrvalsdeildinni en helsta gagnrýnin er náttúrulega sú að hann sé góður í að leggja lokahöndina á lið sem voru þegar meðal þeirra bestu. Ekki er þó hægt að halda því fram að Everton skorti metnað til að gera vel, því stjóri af sama kaliber og Ancelotti er vandfundinn! Rétt að hugsa til þess að þeir stjórar sem voru orðaðir við Everton voru David Moyes, Unay Emeri, Arteta, Vitor Pereira, Eddie Howe, Mark Hughes og fleiri. Efast um að margir myndu vilja einhver af þeim valkostum í staðinn fyrir Carlo Ancelotti.

Velkominn Carlo Ancelotti!

12 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Hmmm, ég ætla að leyfa mér að efast um að hann sé rétti maðurinn fyrir Everton akkúrat núna.
  Ancelotti er auðvitað risastórt nafn í fótboltaheiminum og hann hefur auðvitað unnið allt sem hægt er að vinna en hvernig er hann í að byggja upp lið? Hann er vanur að koma að dekkuðu borði en ég er ekki viss um að hann sé svo laginn við að dekka upp sjálfur.
  Ég vona samt að sjálfsögðu að hann standi sig vel og verði sigursæll stjóri hjá okkur.

  • Ari S skrifar:

   Það er í góðu lagi að efast að þessu sinni. Ég efast líka og ég hlakka til á sama tíma. Ef að kallinn kemur tekur við spennandi tími hjá fèlaginu. Talið er (núna á þessari stundu) að kallinn muni skrifa undir um leið og hann fær staðfestingu á að geta keypt góða leikmenn strax í jan.

   Zlatan er á leiðinni og líklegast til verður það til loka tímabilsins. En það er talið að (eða kannski augljóst) liðið þurfi miðvörð, miðjumann og strike. Ég segi að það sé í lagi að efast og ég efast ekki um að Ancelotti sé betri kostur en Sam Allardyce.

   Það verður fínt að fá Zlatan til að byrja með EF að Carlo Ancelotti skrifar undir.

   Kær kveðja og góðann daginn,

   Ari S

 2. Elvar Örn skrifar:

  Official statement frá Everton.
  Enginn hefur verið ráðinn og enginn hefur afþakkað en búið að ræða við nokkra. Klárt að það er ekki búið að semja við Ancelotti, því miður.

  https://www.evertonfc.com/news/1536336/new-manager-recruitment-update

 3. Þorri skrifar:

  Hæ kæru félagar er einhver að fara að horfa á leikinn hjá EVERTON í kvöld það væri gaman fá svar því ég var að hugsa um að fara á olver í kvöld og horfa á hann koma

  • Finnur skrifar:

   Leikurinn er auglýstur í beinni á Ölveri kl. 19:45. Ég hef verið að mæta á Ölver undanfarna leiki (svona þegar ég hef verið á landinu) en kemst ekki núna.

 4. Einar Gunnar skrifar:

  Ég er frekar hugsi yfir mögulegum áformum að Zlatan verði jólapakki Everton í ár. Þetta er engin metnaður og klárlega móðgun við stuðningsmenn liðsins. Má þá ekki frekar ræða alvöru nöfn í stað þess að fara út í eitthvað skrípó. Vona að yfirvegaðar og skynsamar ákvarðanir verði teknar í okkar herbúðum. Er ekki kominn tími til þess. *over and out, skipti*

  • Ari S skrifar:

   Zlatan er bara fyrsti pakkinn af mörgum Einar 🙂 Ég væri til í að fá Zlatan til félagsins og hann mun strax seetja kraft í sóknina. DCL hefur verið að bæta sig og er orðinn flottur leikkmaður að mínu mati. Það mun bara gera honum gott að vina með Zlatan held ég. Og Ancelotti er ánægður með það sem Duncan hefur gert í síðustu leikjum og segir í yfirlýsingu sinni að Duncan verði áfram í þjálfarateyminu. Flott ákvörðun hjá honum og gott fyrir alla, félagið stuðningsmenn o.s. frv.

 5. Ari S skrifar:

  Frábærar fréttir, kallinn kominn. Velkomin til Everton herra Ancelotti 🙂

 6. Finnur skrifar:

  Ráðning Ancelotti var staðfest nú rétt í þessu!

 7. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Velkominn don Carlo. Vonandi heldur hann áfram að vera „serial winner“. Það verður fróðlegt að sjá hvort hann nær að lokka til okkar betri leikmenn en við höfum hingað til getað látið okkur dreyma um.

%d bloggers like this: