Everton – Wolves 3-2

Richarlison fagnar marki gegn Wolves

Mynd: Everton FC.

Everton átti heimaleik gegn Wolves í dag og gat með sigri komist upp í 5. sæti. Leikurinn var í beinni á Ölveri.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Mina, Keane, Coleman (fyrirliði), Delph, Gomes, Iwobi, Gylfi, Richarlison, Kean.

Varamenn: Stekelenburg, Holgate, Sidibé, Schneiderlin, Bernard, Tosun, Calvert-Lewin.

Everton fékk óskabyrjun á leiknum eftir herfileg mistök í vörn Wolves. Stutt sending frá hægri bakverði þeirra var of föst og utarlega þannig að markvörður þurfti að reyna hreinsun. Skaut boltanum hins vegar beint í Moise Kean og þaðan til Richarlison sem skoraði í markið framhjá markverði og varnarmanni. 1-0 eftir aðeins 5 mínútna leik. Gylfi hafði stuttu áður fengið skallafæri eftir háa sendingu frá Iwobi, en bara um hálffæri þar að ræða.

En Wolves menn jöfnuðu jafn harðan og bakverðir okkar litu ekki vel út í því marki. Digne lét sóla sig allt of auðveldlega og sóknarmaður Úlfanna sendi lága sendingu samhliða endalínu. Ef enginn Everton manna hefði snert boltann hefði þetta farið í innkast, en Coleman tók skyndiákvörðun um að stoppa boltann og lagði hann þar með upp fyrir sóknarmann Wolves sem skoraði auðveldlega. 1-1 eftir 8 mínútur.

En það kom ekki að sök því þremur mínútum síðar var Everton aftur komið yfir, þegar Gylfi, frá hægri, fann kollinn á Iwobi upp við mark og hann skallaði inn. 2-1 fyrir Everton. Iwobi að skora í sínum öðrum leik í röð. 2-1 fyrir Everton.

Úlfarnir komust nálægt því að skora á 25. mínútu þegar þeir fengu skotfæri upp við mark en sóknarmaður þeirra þrumaði í Keane.

Everton með undirtökin eftir þetta sem fleiri urðu færin ekki í fyrri hálfleik.

Daufari seinni hálfleikur, miðað við þann fyrri,og lítið um færi.

Úlfarnir náðu svo að jafna á 73. mínútu eftir innkast sem var eins og af teikniborðinu frá íslenska landsliðinu. Langur bolti inn í teig, framlengdur á mann við fjærstöng sem skallaði inn. 2-2. Eina marktilraun Úlfanna í inni hálfleik fram að því. Calvert-Lewin inn á fyrir Moise Kean í kjölfarið.

En á 80. mínútu skoraði Richarlison skallamark eftir fyrirgjöf frá vinstri frá Digne.

Richarlison var ekki langt frá því að bæta við marki örskömmu síðar með föstu skoti frá hægri út við fjærstöng en markvörður varði glæsilega.

Markvörður Wolves forðaði þeim frá því að lenda tveimur undir þegar hann varði geggjaðan skalla frá Mina eftir hornspyrnu Gylfa á 85. mínútu.

Rétt fyrir leikslok misstu Úlfarnir mann af velli þegar Richarlison lék á tvö varnarmenn og annar þeirra, Boly, blokkeraði hann ólöglega og fékk sitt annað gula. Sekúndum síðar flautaði dómarinn leikinn af. 3-2 sigur og Everton þar með komið í 5. sæti.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Coleman (6), Keane (7), Mina (7), Digne (7), Delph (8), Andre Gomes (6), Richarlison (8), Sigurdsson (8), Iwobi (7), Kean (7). Varamenn: Bernard (6), Calvert-Lewin (6).

Fabian Delph var valinn maður leiksins. Kemur kannski pínu á óvart, þar sem Richarlison skoraði tvö í leiknum og þvingað Boly til að taka á móti rauðu spjaldi. En, þetta er þeirra mat. Delph var líka flottur í leiknum.

10 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Wolves hafa ekki unnið leik í deildinni ennþá…..þá ætti öllum að vera ljóst hvað gerist á eftir. Þetta fer 1-2.

 2. Ari S skrifar:

  Richarlison fékk 10 í einkunn í dag.

  • Ari S skrifar:

   Delph með 8, Richarlison 10, Gylfi 7, Gomes 7, Iwobi 8 og síðast en ekki síst Mina með 7. Pickford með solid 7 að mínu mati…

 3. Þorri skrifar:

  Sælir félagar þetta var góður leikur og góður sigur. Og erum tablausir heima.Mér fannst.Yobí, Ricardson, Gylfi.

 4. Ari S skrifar:

  Eftir því sem frá líður þá finnst mér það allra allra besta við þennann leik hversu góður Fabian Delph var og hvað það er gaman að þurfa að „éta það ofan í sig“ það sem maður hefur sagt um hann í sumar. Hann var frábær í dag.

 5. Georg skrifar:

  Allt annað að sjá sóknarleikinn í dag. Delph, Iwobi og Kean að byrja sinn fyrsta leik í deildinni. Þeir lofa allir góðu og eiga bara eftir að vaxa.
  Delph var frábær í dag og virðist vera akkúrat það sem okkur vantaði á miðjuna, sámmála Diddi? 😉
  Gylfi skapaði mikið af færum og vinnusamur að vanda, mikilvægt að fá stoðsendingu frá honum í dag.
  Richarlison mjög flottur í dag, 2 mörk og gríðarlega vinnusamur til baka líka. Allt annað að sjá hann.
  Iwobi heilt yfir flottur og skoraði gott mark. Kean búinn að vera nálægt því í öllum sínum leikjum að skora, mörkin fara að detta.
  Mina heldur áfram að heilla mig ásamt Keane í vörninni.

  • Ari S skrifar:

   Diddi er alveg pottþétt samála þér Georg með Delph, þögnin segir allt sem segja þarf 🙂

 6. Þorri skrifar:

  Hæ félagar mér fannst liðið spila frábærlega í dag og leikurinn mjög skemmtilegur

 7. Finnur skrifar:

  Þegar fjórða umferðin kláraðist í deildinni í fyrra, voru Tottenham, City, Liverpool og Chelsea í efstu fjórum sætunum.

  Árið þar á undan voru United, City og Chelsea í efstu þremur. Watford voru í fjórða sæti, aðeins stigi á undan Tottenham, en Watford enduðu í 14. sæti þegar uppi var staðið (þannig að þeir voru aldrei í keppninni um sæti í Meistaradeildinni).

  Í ár eru United að byrja illa — eru í 8. sæti, Tottenham eru í 9. sæti og Chelsea eru í neðri hluta deildarinnar. Það er náttúrulega sáralítið liðið af tímabilinu, en ef þetta heldur svona áfram þá gæti þetta verið dauðafæri á Champions League sæti undir lok tímabils. Það má alltaf vona.

  Og ef ekki hefði verið fyrir allar þessar hreinsanir á línu hjá vörn Crystal Palace í fyrsta leik (gegn Everton) þá væru okkar menn í fjórða sæti núna.

 8. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Flottur sigur og loksins hrukku menn eins og Gylfi og Richarlison í gang.
  Mér fannst Gomez virkilega góður í þessum leik og Delph kom mér skemmtilega á óvart.
  Sóknarleikurinn gekk nokkuð vel en mætti vera hraðari.
  Ég set samt spurningarmerki við varnarleikinn, mér fannst hann ekki alltaf nógu góður. Mér fannst stundum fullmikið óðagot á mönnum og það kom nokkrum sinnum fyrir að varnarmenn okkar voru að reyna að hreinsa og dúndruðu boltanum bara í næsta mann, svo gáfum við þeim þessi tvö mörk á silfurfati. Vonandi verður búið að laga varnarleikinn fyrir næstu umferð og kominn meiri hraði í sóknarleikinn.

%d bloggers like this: