full screen background image

Crystal Palace – Everton 0-0

Mynd: Everton FC.

Everton lék við Crystal Palace á útivelli í dag.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Zouma, Keane, Schneiderlin, Gueye, Bernard, Gylfi, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Stekelenburg, Baines, Jagielka, Walcott, Tosun, McCarthy, Lookman.

Það var hávaðarok á Selhurst Park frá upphafi og Everton lék á móti vindi. Þeir létu að þó ekki á sig fá og voru hættulegri frá fyrstu mínútu. Gylfi líklega með besta færi fyrri hálfleiks en skot hans upp við mark blokkerað. Everton pressuðu vel á vörn Palace og þvinguðu þá til að sitja djúpt. Palace menn hættulegir í skyndisóknum.

Ekkert mark leit þó dagsins ljós í fyrri hálfleik, en Everton ívið sterkara liðið.

Meira jafnræði með liðunum í seinni hálfleik.
Everton liðið þó meira með boltann og voru áfram hættulegra liðið. Ekki mjög mikið um færi í seinni hálfleik.

Tosun kom inn á fyrir Calvert-Lewin þegar um 20 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma og hann lét fljótt til sín taka. Afgreiddi lágan bolta fyrir mark með flottri hælspyrnu alveg upp við mark en markvörður Crystal Palace varði með ótrúlegum hætti. Besta færi seinni hálfleiks.

Bernard var skipt út af fyrir Lookman á 83. mínútu og andartaki síðar fór Gylfi út af fyrir Walcott.

Rétt fyrir lok venjulegs leiktíma sendi Digne fyrir utan af vinstri kanti, boltinn breytti stefnu af varnarmanni og endaði í innanverðri stöng og út. Það reyndist síðasta almennilega færi leiksins.

0-0 jafntefli niðurstaðan.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Coleman (8), Keane (7), Zouma (6), Digne (7), Gueye (6), Schneiderlin (6), Bernard (6), Sigurdsson (7), Calvert-Lewin (7), Richarlison (7). Varamenn: Tosun (6). Seamus Coleman var valinn maður leiksins.

Svipaðar einkunnir hjá Palace mönnum, 7 á flesta, nema Benteke fékk 4 enda voru varnamenn Everton með hann í vasanum allan leikinn.

9 Athugasemdir

 1. Gunnþòr skrifar:

  Þar fór sénsinn á evrópu á næsta tímabili

 2. Diddi skrifar:

  Náði sem betur fer bara að horfa á seinni hálfleikinn, það veldur mér áhyggjum að liðið mætir bara einbeitt og með vilja þegar andstæðingurinn er ofar á töflunni en við. Ef hann er neðar þá eru menn ekkert með hugann við þetta og þeim mun minna eftir því sem andstæðingurinn er neðar á töflunni. Hvað veldur er mér ráðgáta en þjálfarinn verður að taka eitthvað á sig fyrir að ná ekki að berja menn saman fyrir svona leiki.

 3. Orri skrifar:

  Þetta er bara hætt að vera fyndið þegar að við þurfum að klára eitthvað þá skal það ólíka.

 4. Ari G skrifar:

  Smá von með Evrópusæti. Ef Arsenal eða Chelsea verða Evrópumeistari og lenda ekki á topp 4 og City bikarmeistari. Eins ef Tottenham vinni meistardeildina og er ekki á topp 4. Þá fara 5 lið í meistardeildina segum City Liverpool Tottenham Arsenal og Chelsea. Þá fer Utd, Wolves og Everton í Evrópudeildina eins og staðan er núna. Héld að þetta sé rétt skilið hjá mér.

 5. Finnur skrifar:

  Ég veit ekki — ég sá allan leikinn og mér fannst Everton liðið mæta bæði einbeitt og viljugt til verks, líkt og í undanförnum leikjum. Menn höfðu á orði á Ölveri að þeir væru sáttir við frammistöðuna, þrátt fyrir skort á stigum. Everton var miklu betra liðið í fyrri hálfleik (jafnaðist að hluta í seinni hálfleik) og Palace menn voru fegnir að staðan væri 0-0 í hálfleik. Það er ekki bara mín skoðun, þulirnir minntust á þetta í lok fyrri hálfleiks. Það vantaði mjög lítið upp á að Everton setti mark í andlitið á þeim. Að sama skapi vantaði heilan helling upp á að Palace menn tækju þrjú stig — á sínum eigin heimavelli. Palace menn vörðust djúpt og reyndu skyndisóknir, en varnarmenn Everton einfaldlega höfðu Benteke og Zaha í vasanum. Zouma, Coleman og Gana sérstaklega góðir í að stoppa þá. Zaha er frábær leikmaður en ég man ekki eftir honum svona óvirkum í þeim leikjum sem ég hef séð hann spila enda rataði *ekkert* skot frá Palace á rammann í öllum leiknum. Everton átti hins vegar þrjú skot á rammann og þar að auki tvö í stöng. Held að það vanti ekki mikið annað en slúttara í pússlið, ef liðið spilar eins og það hefur gert á undanförnum vikum.

 6. Elvar Örn skrifar:

  Agalegt að ná ekki að vinna í dag og hefði viljað fá jafntefli í leik Watford-Wolves.
  Everton betra liðið í dag en ekki nægilega clinical fyrir framan markið. Áttum nokkrar hættulegar tilraunir t.d. Bernard með skot í stöng og Digne með skot í þverlslá og svo stöng og hælspyrna Tosun var hrikalega flott verð ég að segja og hefði orðið svakalegt mark. En allt kom fyrir ekki, Everton náði bara ekki að skora. Fannst innáskiptingar hjá Everton koma líka full seint.

  Mér fannst Gana geggjaður í dag og Coleman að ná fyrri styrk og nokkrir ágætir. Richarlison of seinn í 2-3 skipti að senda boltann og lélegasti maðurinn í dag, by far, var Dominic Calwert Lewin, hann var skelfilegur því miður.

  Ég verð að hæla varnarvinnu Everton því ég held að Palace hafi átt 2-3 skot að marki sem ekki þurfti að hafa fyrir að verja heldur bara grípa boltann. Það gerist trekk í trekk nú orðið að það reyni ekki á Pickford. Héldum hreinu í dag og er að ég held 7 leikur af seinustu 9 sem við náum að halda markinu hreinu, svo þetta er ekki alslæmt.

  Sýnist 7 sætið runnið okkur úr greipum en sigur á Goodison gegn Burnley í næstu umferð heldur kannski smá í vonina um að ná því sæti að því gefnu að Wolves vinni hvorugan leikinn sem þeir eiga eftir.

 7. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Þetta var bara ógeðslega pirrandi. Mér fannst menn alveg klárir í slaginn en þetta var bara einn af þessum leikjum þar sem boltinn vildi bara ekki inn.
  Palace menn hafa örugglega verið dauðfegnir þegar dómarinn flautaði leikinn af því þeir voru aldrei líklegir til að taka öll stigin.

 8. Finnur skrifar:

  Smá grein um breytingu á Everton varnarlega séð, sem hefur kannski ekki fengið þá athygli sem hún á skilið…
  https://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/football-news/marco-silva-dispelled-huge-myth-16197917

%d bloggers like this: