Southampton – Everton 2-1

Mynd: Everton FC.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Keane, Zouma, Coleman, Gomes, Gueye, Bernard, Gylfi, Lookman, Richarlison.

Varamenn: Stekelenburg, Baines, Mina, Davies, Walcott, Tosun, Calvert-Lewin.

Missti af fyrstu 10 mínútunum og miðað við það sem maður las þá var það kannski fyrir bestu. Southampton menn byrjuðu betur og fengu upplagt færi eftir horn á um 15. mínútu. Endaði með skalla á mark frá Ings sem Pickord varði meistaralega.

Það tók Everton um 20 mínútur að ná nógu mörgum heppnuðum snertingum fram á við til að skapa almennilegt færi. Gylfi, Bernard og Lookman náðu þá vel saman rétt utan teigs og Bernard lagði boltann vel fyrir Lookman sem náði föstu skoti á mark en í bakið á vararmanni og í horn. Hefði viljað sjá hvar það skot endaði, ef það hefði ekki farið í bakið á honum.

Ings fékk annað tækifæri til að koma Southampton yfir þegar þeir sendu stungu inn fyrir vörn Everton og Ings tók skot viðstöðulaust af löngu færi en Pickford sá við honum. Redmonton fékk mjög svipað færi 6 mínútum síðar en þá sá stöngin við honum.

Gomes var svo ekki langt frá því að skora sjálfsmark rétt fyrir hálfleik, þegar boltinn fór í fótinn á honum eftir að Ings var næstum sloppinn í gegn, en aftur bjargaði stöngin Everton og Coleman náði að hreinsa.

0-0 í hálfleik. Everton meira með boltann, Southampton hættulegri. Everton liðið heppið að vera ekki undir í hálfleik.

Everton byrjaði seinni hálfleikinn vel og náðu fljótt upplögðu færi eftir að Bernard sendi á Digne sem kom hlaupandi upp vinstri kantinn og gaf fyrir. Beint á kollinn á Gylfa sem lúrði nálægt marki og átti frábæran skalla, boltinn alveg út við nærstöng en markvörður sá við honum og varði í horn. Gylfi óheppinn að skora ekki þar.

En Adam var ekki lengi í Paradís því Southampton skoruðu þvert gegn gangi leiksins, eiginlega upp úr engu. Zouma vann skallaeinvígi en boltinn laus. Ward-Prowse vann 50/50 bolta við Gana og brunaði í átt að marki. Komst með boltann nálægt vítateig og þrumaði inn af löngu færi alveg út við stöng. Smellhitti boltann. Óverjandi fyrir Pickford. Staðan orðin 1-0 fyrir Southampton.

Silva brást við með því að setja Calvert-Lewin inn á fyrir Gomes en Richarlison, sem hafði verið fremstur, var þar með færður í holuna og tók Calvert-Lewin stöðu hans frammi. Gylfi færður aftar við þetta, við hlið Gueye.

En lukkudísirnar voru með Southampton í dag því staðan átti eftir að versna enn frekar. Á 64. mínútu skoraði Digne sjálfsmark þegar hann reyndi að sparka boltanum frá Redmonton, sem var kominn í upplagt færi. Boltinn lak inn alveg við stöngina.

Silva blés þá til sóknar. Setti Tosun inn á fyrir Richarlison, en sá síðarnefndi búinn að vera afleitur í leiknum. Bernard fór svo út af fyrir Walcott stuttu síðar.

En samt voru það Southampton menn sem voru nærri því að skora, eftir hornspyrnu, en boltinn rétt fram hjá. Calvert-Lewin fékk svo færi hinum megin alveg upp við mark á 86. mínútu en skallaði yfir. Erfitt að stýra boltanum á mark, enda fyrirgjöfin há og miðvörðurinn að djöflast í honum.

Gylfi náði að minnka muninn á 91. mínútu með flottu skoti utarlega í teignum þegar boltinn barst óvænt til hans. En markið kom of seint og Everton náði ekki að jafna. 2-1 lokastaðan.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Coleman (6), Keane (6), Zouma (7), Digne (4), Gueye (5), Gomes (5), Lookman (5), Sigurdsson (6), Bernard (5), Richarlison (4). Varamenn: Calvert-Lewin (5), Tosun (5), Walcott (5).

8 Athugasemdir

 1. Ari S skrifar:

  Frábær markvarsla hjá Pickford á 14. mínútu. Leikurinn ekkert se´rstakur hjá Everton hingað til en mér virðist alltaf eins og eitthvað muni gerast þegar Lookman er nálægt boltanum. Ég spái að þetta verði leikur hans…

  Áfram Everton!

  • Ari S skrifar:

   Þetta var hræðilegt. Ég ætlaði að skrifa nokkrar línur um leikinn en ég er eiginlega alveg orðlaus verandi þessi jákvæði maður sem ég er.

   Það er nokkuð ljóst að að Silva er í miklum vandræðum og veit varla sitt rjúkandi ráð. Leikmenn virðast ekki spila með hjartanu og það skrifast á Silva, engan annann. Ég vil samt gefa honum séns út tímabilið.

   Leikurinn gegn Millwall mun skipta gríðarlega miklu máli að mínu mati.

   Okkur vantar hægri bakvörð. Richarlison er ekki striker. Og okkur vantar umfram allt striker eða sóknarmann. Annað hvort heimsklassaleikmann (Cavani t. d.) eða þá einhvern sem hefur nú þegar sannað sig í deildinni. (Vardy t. d.) En þar sem að stjórnin segir að það verði ekki bætt við hópinn þá segi ég pass.

   Kær kveðja,

   Ari

   ps.allt í einu hætti ég að vera orðlaus 🙂

   • Davíð skrifar:

    þetta er everton ekki liverpool. Heldurðu í alvörunni að heimsklassa striker eins og Cavani myndi svo mikið sem íhuga að fara til everton?

    • Ari S skrifar:

     Nei rólegur, það held ég ekkert endilega. En ég var bara að segja hvað mér fyndist að við þurfum að gera. Allt annað dugir ekki og hefur margsannast. Það þýðir ekkert að vera að kaupa unga og efnilega gaura (í þessa stöðu, núna) endalaust. Við þurfum að fá einn alvöru, að það gerist síðan er annað mál.

     Annars ef að PSG ætlar að vera með þessi læti í að fá Gana Gueye frá okkur og við setjum 40 milljón punda verðmiða á hann þá hljótum við að geta sagt eitthvað annað en að bugta okkur og beygja fyrir peningunum. Og svo er mér líka orðið svo mikið sama hvernig þetta fer, þetta tímabil er búið.

 2. Gestur skrifar:

  Silva að stimpla sig úr vinnunni!

 3. RobertE skrifar:

  Arfaslakur leikur (skrifað á 85.mín) hjá Everton. Southampton stjórnaði leiknum og var mun betra liðið. Silva þarf að pæla meira í taktík og mögulega reyna að bæta í hópinn þar sem þetta er ekki alveg að ganga. Vona svo innilega að Everton vinni Millwall í FA-cup.

 4. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Jæja það er víst óhætt að afskrifa þetta tímabil amk hvað deildina varðar. Kalla það gott ef við endum ofar en í tólfta sæti. Vonandi gengur betur í bikarnum „but I’m not holding my breath“.

  Vonandi verða einhverjir góðir menn keyptir í sumar og einhverjir af þessum gagnslausu sauðum okkar seldir.

 5. Elvar Örn skrifar:

  Ég held að þetta hafi verið versti leikur Everton í vetur. Áttu að tapa 4-1. Flott mark hjá Gylfa samt. Everton áttu séns á að hoppa upp í 7 sætið og klikkuðu eins og hefð er þegar að einhverju er að keppa. Útileikur og rigning virðist vera tryggt tap hjá Everton. Svakalega vantar Everton framherja jeminn, Richarlison virðist hafa misst alla leikgleði og held að DCL sé skásti kostur sem við höfum í framherja. Ekki langt í 7 sæti en með svona spilamennsku þá erum við að enda um miðja deild.
  Spurning hvort liðið geti eitthvað náð lengra í FA Cup en það virðist eini sénsinn til að fá eitthvað úr þessum vetri.

%d bloggers like this: