Everton – Crystal Palace 2-0

Mynd: Everton FC.

Everton átti leik við Crystal Palace á heimavelli í dag og það tók nokkurn tíma að dýrka upp lásinn á Crystal Palace vörninni en hófst að lokum.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Keane, Zouma, Coleman, Gomes, Gueye, Bernard, Gylfi, Walcott, Richarlison.

Varamenn: Stekelenburg, Baines, Mina, Davies, Tosun, Calvert-Lewin, Lookman.

Athygli vakti að Coleman og Gomes náðu í byrjunarliðið og Mina á bekinn. Framlínan óbreytt og Gana ekki meiddur, sem eru mjög góð tíðindi.

Ekki mikið um færi í fyrri hálfleik. Það vantaði svolítið flæði í leikinn enda mikið um aukaspyrnur (en ekki spjöld — Gana fékk, að ég held, eina spjaldið). Framlínan ekki alveg að ná almennilegum takti, Bernard sérstaklega, og liðin þurftu að hafa töluvert fyrir færunum.

Það fyrsta kom ekki fyrr en á 28. mínútu þegar Gylfi átti skot innan teigs sem markvörður varði í horn.

Í kjölfarið fylgdi sterkur kafli hjá Palace, sem fengu sitt fyrsta færi á 32. mínútu þegar Thomkins náði skalla að marki en nokkuð vel framhjá. Tveimur mínútum síðar náðu þeir skoti á mark af löngu færi (aukaspyrnu) en Pickford varði vel. En Palace menn voru svo hársbreidd frá því að skora örskömmu síðar þegar þeir náðu skalla í slá eftir hornspyrnu og varnarmaður Everton rétt náði að bjarga í horn.

Everton átti tvö færi, annað skallafæri þar sem boltinn endaði rétt framhjá samskeytunum vinstra megin (frá Richarlison, að ég tel) og skot frá Gylfa utan teigs sem fór rétt framhjá marki hægra megin.

0-0 í hálfleik.

Everton byrjaði seinni hálfleik af miklum krafti, settu góða pressu á Palace og leyfðu þeim nánast ekkert að snerta boltann. Um leið og Everton liðið missti boltann, voru þeir mættir aftur í pressuna og hirtu boltann strax af þeim.

En Palace menn komust þó í sókn á 58. mínútu og uppskáru víti þegar Colemann klippti niður Zaha inni í teig. Réttur dómur og ekkert við því að segja. En Milivojevic mætti á punktinn, skaut á mitt markið og lét Pickford verja frá sér með fótunum. Þar skall aldeilis hurð nærri hælum.

Eftir þetta var þetta nánast skrifað í skýin. Everton hefði átt að komast yfir tveimur mínútum síðar þegar Gylfi setti Walcott inn fyrir vörnina með frábærri stungusendingu en Walcott skaut í fæturna á markverðinum. Ekki góð afgreiðsla þar. Bernard fékk líka gullið tækifæri, eftir flott hlaup upp vinstri kantinn, til að setja Walcott í dauðafæri fyrir framan mark en Bernard gaf ekki boltann heldur reyndi að böðlast með hann framhjá bakverðinum og missti hann. Afleit ákvörðun.

Stuttu síðar var Walcott haldið af Thompkins í fyrirgjöf eftir horn en dómarinn dæmdi ekkert. Maður hefur alveg séð dæmt víti á svona.

En þá tók Marco Silva til sinna ráða. Fyrst skipti hann Tosun inn á fyrir Bernard. Tosun tók þar með stöðu Richarlison í framherjanum og Richarlison var færður yfir á vinstri kant. Nokkru síðar kom svo tvöföld skipting: Lookman og Calvert-Lewin inn á og Gomez og Walcott út af. Gylfi þar með færður aðeins dýpra fyrir vikið, Lookman á hægri kantinn fyrir Walcott.

Og Lookman og Calvert-Lewin tóku strax til sinna ráða. Sá fyrrnefndi vann aukaspyrnu sem Gylfi tók. Boltinn barst út við teig vinstra megin þar sem Lookman sendi fyrir, beint á kollinn á Calvert-Lewin sem skallaði í netið. Og aðeins rúmri mínútu síðar var þriðji varamaðurinn búinn að setja mark sitt á leikinn með marki (no pun intended).

Tosun fékk þá langa sendingu fram frá Keane, brunaði inn í teig og þrumaði í markið, gegnum lappirnar á markverðinum. 2-0 fyrir Everton og innan við tvær mínútur á milli marka. Varamennirnir komnir með tvö mörk og eina stoðsendingu.

Og þessu var svo bara örugglega siglt í höfn í lokin, þessar örfáu mínútur sem voru eftir. Engin hætta frá Palace mönnum sem voru orðnir ráðþrota. Eyðimerkurganga Palace manna gegn Everton heldur því áfram — Roy Hodgson sérstaklega, en hann hefur ekki unnið í 9 ár á Goodison Park.

Þetta mun vera þriðji sigurleikur Everton í deild, og liðið komið í 8. sæti. Fóru með sigrinum upp fyrir United, Wolves og Leicester en þeir síðastnefndu eiga reyndar leik til góða.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (8), Digne (5), Coleman (6), Keane (6), Zouma (7), Gueye (7), Gomes (6), Walcott (6), Sigurdsson (6), Bernard (5), Richarlison (6). Varamenn: Calvert-Lewin (7), Lookman (7), Tosun (7). Palace menn voru næstum með 6 alveg á línuna nema Zaha fékk 7, Wan-Bissaka 8, og Milivojevic 4. Sky völdu Jordan Pickford mann leiksins.

17 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ég er farinn að halda að það sé búið að gefa skotleyfi á Richarlison.

    • Ari S skrifar:

      Hann fær ekkert gefins. Það er nokkuð ljóst.

    • Diddi skrifar:

      hvar er vælubíllinn, hann er ekkert verra meðhöndlaður en aðrir í þessum leik, hættið þessu væli, liðið er hins vegar ekkert að gera til að gera honum lífið léttara. En þessi Gomez er flottur spilari

  2. Diddi skrifar:

    óhætt að segja að skiptingarnar hafi virkað í dag 🙂

    • Finnur skrifar:

      Heldur betur!

    • Finnur skrifar:

      Af BBC: „It came down to which manager was brave enough to make the big changes – and it was Marco Silva,“ former Scotland winger Pat Nevin said on BBC Radio 5 live.

      „Luck favoured the brave. I don’t think you will see too many better substitutions this season.“

  3. Gunnþòr skrifar:

    Flottur sigur í dag hvernig var gomez í sínum fyrsta leik.

    • Elvar Örn skrifar:

      Gomez var mjög flottur, einn af þremur bestu myndi ég segja.
      Fannst Keane vera ansi góður (Diddi er pottþétt sammála mér) og svakalega er hann búinn að bæta sig undir stjórn Silva.
      Vonbrigðin voru helst Walcott og eiginlega Bernard og Gylfi var bara í meðallagi í dag.
      Ég er ekki viss hvað mér finnst um að hafa Richarlison fremstan og magnað að fá Tosun inná seinustu 10 mínúturnar og ná inn marki. Hinir tveir sem komu inná, Lookman og Calwert Lewin skiluðu sínu líka þar sem Lookman átti stoðsendingu á Lewin.

      Ansi vel gert hjá Pickford að verja vítið líka og magnað í raun að halda hreinu sem hefur verið vandamál það sem af er leiktíð.

      Þrír sigrar í röð og útileikur gegn United eftir viku, spennandi bara.

      • Diddi skrifar:

        já Elvar minn, Keane var ágætur í dag en þú hlýtur þá að vera sammála mér um að það hefur oft reynt meira á hann en í dag 🙂

        • Elvar Örn skrifar:

          Já klárlega reyndi ekki svakalega mikið á hann, en hann hefur heilt yfir litið ansi vel út á þessari leiktíð, er alveg sammála að hann var arfaslakur á seinustu leiktíð. Líka ansi gott að eiga inni Mina ef Keane eða Zouma meiðast eða eiga dapran leik.

          Samt áhugavert að langar sendingar Palace manna voru hreinsaðar af Keane í lang flestum tilvikum og langt síðan maður hefur séð svona afgerandi hreinsun í loftinu varnarlega séð.

          „ágætt“ er betra en „gott“ svo þú ert greinilega í skýjunum með kappann 🙂

          • Diddi skrifar:

            hann er frábær 🙂

          • Ari S skrifar:

            Reyndi ekki mikið á hann, hvers lags bull er þetta í ykkur?
            Af hverju þarf eitthvað að vera sammála Didda hérna? Þessi síða er til þess að vera ósammála, getumvi ðe kki verið sammála um það?

            Diddi vinur minn er búinn að mynda sér skoðun á Keane og mun aldrei breyta henni hehe 😉 Sama hvers vel hann (þ.e. Keane ekki Diddi) leikur.

            Keane var góður í dag og hann átti þátt í báðum mörkunum sem gerir hann að kandidat að besta leikmanni Everton í þessum leik. Ég læt aðra velja um það.

            Kær kveðja, Ari.

  4. Finnur skrifar:

    Ég var að fatta að það hefur verið regla undanfarna átta leiki að Gylfi hefur skorað allavega eitt mark í öðrum hverjum leik Everton. Ef hann hefði líka skorað í sigurleiknum gegn Southampton myndi þetta mynstur ná alveg frá því að tímabilið byrjaði.

    Næsti leikur er gegn United á sunnudaginn. Hlakka til. 🙂 Engin pressa. 🙂

  5. Ari G skrifar:

    Þokkalegur leikur hjá Everton. Fannst vanta meiri hraða framávið kannski er erfitt að spila við svona lið sem spilar mjög fast. Pickford besti maður Everton. Sennilega mistök að kaupa ekki alvöru sóknarmann finnst Richarlison mun betri á vinstri kantinum. Walcott og Bernard fundu sig ekki í þessum leik. Gylfi svona ok samt langt frá sínu besta. Varnarleikurinn hefur lagast mikið undanfarna leiki en kaufaleg mistök Coleman gaf víti. Gomes mjög góður miklu betri leikmaður en Tom Davies. Stoðsending Lookman var stórkostleg og mér finnst Calvert Lewen besti sóknarmaður Everton í dag en mark Tosum var samt mjög flott.