Everton – Fulham 3-0

Mynd: Everton FC.

Everton tók á móti Fulham kl. 14:00 í dag og byrjunarliðið óbreytt frá tapleiknum gegn Arsenal, enda frammistaðan í þeim leik mun betri en úrslitin sögðu til um. Fulham aldrei unnið á Goodison Park í deild og ekki breyttist það í dag.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Zouma, Keane, Kenny, Davies (fyrirliði), Gueye, Richarlison, Gylfi, Walcott, Calvert-Lewin.

Varamenn: Stekelenburg, Baines, Holgate, Schneiderlin, Bernard, Lookman, Tosun.

Byrjunin reyndist ekki góð fyrir Fulham, sem misstu mann af velli vegna meiðsla strax á upphafsmínútunum og sá sem kom inn á, Christie, var búinn að næla sér í gult áður en hálftími var liðinn af leiknum. Maður varð annars fyrir nokkrum vonbrigðum með fyrri hálfleik, leikmenn mistækir og lítið flæði í leiknum. Mikið af brotum og leikurinn varð mjög stopp-start fyrir vikið, eins og þeir ensku orða það.

Fulham fengu fyrsta almennilega færið, snemma leiks, þegar Schurle fékk frítt skot innan teigs, eftir góðan undirbúning frá Sessengon, sem lék á Kenny, komst upp að endalínu og sendi lágan bolta út í teig. En Schurle lúðraði boltanum langt upp í stúku í ákjósanlegu færi.

Everton svaraði strax með skoti á mark eftir aukaspyrnu frá Digne, en Zouma, sem átti skotið, var dæmdur rangstæður.

Walcott átti flott skot af löngu færi á 18. mínútu en varið. Frákastið ekki langt frá því að detta vel fyrir Calvert-Lewin en varnarmaður á undan í boltann.

Everton liðið var svo heppið að lenda ekki undir á 41. mínútu þegar Fulham komust í flotta sókn en Sessengon skaut sem betur fer í neðanverða slána og út. Langbesta færi fyrri hálfleiks.

0-0 í hálfleik.

Maður hafði það á tilfinningunni að þó að Fulham gætu alltaf sett suckerpunch mark á Everton þá þyrfti Everton bara að skipta um gír og gefa aðeins í til að komast úr augsýn og það var akkúrat það sem þeir gerðu.

Everton byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti, fengu strax tvö færi eftir horn. Það fyrra mun betra, þegar Richarlison fékk flick-on út á fjærstöng, en boltinn skoppaði of hátt og tilraun hans með fætinum til að stýra boltanum á mark endaði fyrir ofan slána. Seinna færið skalli frá, Zouma að mig minnir, en hann náði heldur ekki að stýra boltanum á mark.

Örfáum mínútum síðar dró aldeilis til tíðinda þegar Everton fékk vítaspyrnu. Odoi hrinti Calvert-Lewin augljóslega inni í teig og dómarinn ekki í vafa. Gylfi á punktinn, markvörðurinn kastaði sér strax í hornið en Gylfi skaut í þverslána við mitt markið.

Tosun kom inn á fyrir Calvert-Lewin á 55. mínútu og hann var varla kominn inn á þegar Gylfi bætti fyrir mistökin með frábæru skoti eftir frábæra sókn, sem virtist ætla að enda þegar varnarmaður komst inn í sendingu. Boltinn laus og Gylfi komst í hann við jaðar teigs og setti hann í fyrstu snertingu í sveig á innanverða færstöng, stöngina inn. Óverjandi fyrir markvörð Fulham. 1-0 fyrir Everton.

Gylfi, Tosun og Richarlison komust í flotta skyndisókn aðeins mínútu síðar sem endaði með skoti frá Gylfa en skotið fór í fæturna á varnarmanni.

Pressan jókst stöðugt á Fulham en þeir minntu á sig með því að setja næstum því mark í andlitið á Everton á 60. mínútu. Fulham komust þá í bullandi skyndisókn sem endaði í einn-á-móti-markverði stöðu. Pickford las leikinn vel og var fljótur að hugsa þegar sóknarmaður missti boltann örlítið of langt frá sér og kastaði sér á boltann og kæfði þá sókn.

Tosun komst hins vegar loksins (loksins!) á blað á 65. mínútu eftir frábæran undirbúning frá Kenny og Walcott. Kenny sendi frábæra stungusendingu upp hægri kant á Walcott sem tók sprettinn og komst upp að endalínu. Sendi svo háan bolta fyrir mark, yfir markvörð, þar sem Tosun var mættur og skallaði í autt markið. 2-0 Everton.

Walcott var ekki hættur þar, heldur komst einn í fína skyndisókn á 79. mínútu og náði skoti á mark, fast lágt skot sem markvörður náði að kasta sér niður til að verja.

Þegar líða tók á leikinn (83. mínútu) notuðu Fulham síðustu skiptingu sína og um leið og það gerðist misstu þeir annan mann í meiðsli þegar miðjumaður þeirra tognaði aftan á læri. Þeir voru því manni færri það sem eftir lifði leiks.

Richarlison var svo skipt út af á 87. mínútu fyrir Bernand. Like for like, Brassi fyrir Brassa. Og fyrsta framlag Bernard í leiknum var stoðsending á Gylfa sem kom á hlaupinu inn í teig. Gylfi lagði boltann fyrir sig og setti hann svo framhjá markverði Fulham áður en varnarmenn náðu til hans. 3-0 fyrir Everton.

Þetta reyndist síðasta framlag Gylfa (sem var skipt út af strax eftir markið, fyrir Schneiderlin á 90. mínútu) og síðasta færið í leiknum. Erfiður fyrri hálfleikur, en flottur seinni hálfleikur. Mjög sanngjarn sigur Everton í dag.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Kenny (7), Keane (7), Zouma (7), Digne (7), Gueye (7), Davies (6), Gylfi (8), Walcott (7), Calvert-Lewin (7), Richarlison (7). Varamenn: Tosun (6), Bernard (5). Einn hjá Fulham með 7, aðrir flestir með 5 eða 6. Gylfi Sigurðsson valinn maður leiksins.

15 Athugasemdir

 1. Diddi skrifar:

  mér er alveg fyrirmunað að skilja þetta val á Davies á miðjuna og hvað þá að hafa hann sem fyrirliða, fáránlegt. En að þessu sögðu verður hann líklega maður leiksins 🙂 Ánægður að sjá að Dominic fær annan séns frammi, þetta kemur 🙂

 2. Halli skrifar:

  Þađ er fámennt en góđmennt á Ölver er einn hér. Væri gott ađ ná í 3 stig

 3. Gunnþòr skrifar:

  Flottur sigur menn fagna mörkunum saman innilega sem er jákvætt.

 4. Ari G skrifar:

  Frábær seinni hálfleikur hjá Everton. Gylfi maður leiksins þrátt fyrir að klúðra vítinu. Skil ekki þetta endalausa val á Davies Bernard er örugglega miklu betri leikmaður. Vörnin góð nema einu sinni opnaðist hún illa en Keane og Zouna ná vel saman. Digne er greinilega búinn að taka stöðu Baines og Kenny var flottur í þessum leik. Það mætti alveg nota Lookman meira og henta Richarlison í sóknina í staðinn eins og ég hef sagt áður. Gana er yfirburða varnarmiðjumaður Everton ekki spurning og Walcott var góður í þessum leik en dettur stundum niður í sömum leikjum. Hvar er Mina er hann týndur?

 5. RobertE skrifar:

  Hlustaði á seinni hálfleik og sofnaði yfir honum í sólbaði, virkilega vel gert samt að ná 3 stigum á móti Fulham, vona að fleiri stig koma í bús fljótlega.

 6. Finnur skrifar:

  Gylfi er kominn með fjögur mörk í síðustu fimm leikjum. Var ekki að birtast einhver grein í fréttum um að hann væri ekki nógu áhrifaríkur?

 7. GunniD skrifar:

  Hvern viljið þið sjá sem fyrirliða Everton?

 8. Teddi skrifar:

  Ef að annaðhvort Jagielka eða Baines er ekki cpt. númer eitt er það skandall.
  Vil alveg eins sjá Coleman hafa bandið eins og Davies en þessu verður varla breytt oftar hjá þessum manager.

 9. Gunnþòr skrifar:

  Eru menn að átta sig á því að mörkin hjá Gylfa eru heimsklassa afgreiðslur þvílík gæði og mörk skoruð uppúr nánast engu færi bæði mörkin er búinn að horfa á þetta svona 10 sinnum og þvílík gæsahúð sem maður fær þetta er sturlað.

 10. Finnur skrifar:

  Gylfi í liði vikunnar að mati BBC:
  https://www.bbc.com/sport/football/45699519

%d bloggers like this: