full screen background image

Everton – West Ham 1-3

Mynd: Everton FC.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Zouma, Holgate, Kenny, Schneiderlin, Gueye, Calvert-Lewin, Gylfi (fyrirliði), Walcott, Tosun.

Frábær árshátíð á Akureyri og skemmtilegur aðalfundur að baki. Nú er komið að hittingi á Cafe Amour að sjá Everton mæta West Ham kl. 15:00. Endilega fjölmenna!

Leikurinn fór rólega af stað og lítið að gerast. Everton með boltann 62% leiks en West Ham menn sátu djúpt og vörðust vel. Lítið sem gekk hjá Everton framan af og var nokkuð frústrerandi að horfa upp á fyrir hálfleikinn, þar sem Everton glataði boltann oft eftir feilsendingar og mistök.

Fyrsta færið kom á 9. mínútu, þegar Calvert-Lewin fékk stungusendingu frá Gana en fyrsta snertingin brást honum og hann missti boltann of langt frá sér.

En strax í kjölfarið komust West Ham menn í skyndisókn sem þeir skoruðu úr, þvert gegn gangi leiksins. Yarmalenko með markið en það var eins og skrifað í skýin að hann myndi skora, því Everton liðið búið að reyna að fá hann til liðs við sig í nokkur ár.

Fyrsta almennilega færi Everton kom á 25. mínútu þegar Digne lék á Yarmalenko á kantinum og sendi frábæran háan bolta inn í teig, beint á kollinn á Tosun sem náði að stýra boltanum á markið en ekki nægilega erfitt fyrir Fabianski í markinu að verja.

En á 30. mínútu bætti Yarmalenko við öðru marki fyrir West Ham. Pickford átti slæma sendingu fram völlinn, beint á leikmann West Ham sem komust í skyndisókn sem endaði með því að Yarmalenko þrumaði boltanum upp í vinstra hornið með föstu skoti innan teigs.

Walcott var næstum búinn að skora glæsilegt mark á 35. mínútu þegar hann tók viðstöðulaust skot utan af kanti en Fabianski varði glæsilega yfir mark. Tosun komst svo í færi innan teigs en aftur varði Fabianski vel.

West Ham voru stálheppnir að fá ekki rautt á 39. mínútu þegar varnarmaður þeirra fór með takkana í hnakkann á Walcott (sjá hér) en dómari sá ekki ástæðu til að gefa meira en gult.

Schneiderlin út af fyrir Bernard á 44. mínútu. Ekki sýnileg meiðsli, en sjúkraþjálfari sinnti honum utan vallar.

En Everton náði loks að rjúfa varnarmúrinn Í uppbótartíma fyrri hálfleiks og þar var að verki fyrirliðinn Gylfi Þór Sigurðsson með algjörlega frábæran skalla utan úr teig eftir háa fyrirgjöf frá hægri. Stangaði boltann netið, óverjandi fyrir Fabianski.

1-2 í hálfleik.

Everton byrjaði fyrri hálfleik af nokkrum krafti en þetta var svipað frústrerandi og í fyrri hálfleik. Engin dauðafæri litu dagsins ljós fyrr en á 60. mínútu, þegar Arnautovic bætti við þriðja markinu fyrir West Ham. Staðan 1-3.

Tosun hefði átt að svara strax á 65. mínútu þegar hann fékk boltann óvænt inni í teig (boltinn í fæturna á leikmanni West Ham og til Tosun). Tosun með bakið í markið tók snúning en skaut yfir mark, nálægt marki. Þar hafði hann átt að setja boltann á rammann.

Lookman inn fyrir Walcott á 77. mínútu.

Everton fékk svo frábært færi til að minnka muninn á 83. mínútu þegar Digne sendi frábæra sendingu fyrir mark. Niasse þar óvaldaður en skaut í neðanverða slá og út.

Ekki góður vinnudagur hjá Everton í dag. West Ham menn stigalausir fyrir þennan leik en einhvern tímann verða vondir að vinna, eins og maðurinn sagði.

Einkunnir Sky Sports ekki komnar. Uppfæri síðar.

En við Sunnlendingarnir þökkum kærlega fyrir gestrisni ykkar fyrir norðan og við hlökkum til að koma aftur!

6 Athugasemdir

 1. Gestur skrifar:

  Þessu liði er ekki viðbjargandi.

  • Orri skrifar:

   Þar er ég þér sammála Gestur þetta er sama hörmungin og á siðustu leiktíð,ég er hættur að horfa á leikinn.

 2. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Það er alltaf sama sagan!! Þegar þú ert í basli þá er gott að mæta Everton.🤬🤬🤬🤬🤬🤬🤬🤬🤬🤬🤬🤬🤬🤬

 3. Eric Einarsson skrifar:

  Ég er svo reiður að því ekki orði ýlkt! Ég var búninn að bíða þolinmóðir í fyrra, og sagði við sjálfan mig, ok, þetta kemur á næsta ári, gefum þessu séns! En hvað! Ég get ekki meira, að tapa á West ham á Goodisson, nei, þá er mér öllum lokið.

 4. Teddi skrifar:

  Áfram gakk.

  100 mínútur þangað til maður kveikir á skjánum, og allt rosalega hljótt á þessum fallega degi.(sv-lands) 🙂

  Spái grátlegu 1-1 jafntefli gegn Arsenal þar sem 2 stigum verður stolið af Everton.

 5. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Þá er það the arse í dag og eins og venjulega býr maður sig undir það versta en vonar það besta. Þetta fer 4-0 fyrir the arse.

Leave a Reply

%d bloggers like this: