Everton – Southampton 2-1

Mynd: Everton FC.

Uppstillingin: Pickford, Baines, Keane, Holgate, Coleman (fyrirliði), Gueye, Schneiderlin, Gylfi, Richarlison, Tosun, Walcott.

Varamenn: Steklenburg, Zouma, Kenny, Davies, Lookman, Calvert-Lewin, Niasse.

Everton liðið mun sterkara í fyrri hálfleik og Southampton menn oft að elta skugga og brjóta á leikmönnum til að stoppa sóknir — söfnuðu fyrir vikið fjórum spjöldum í fyrri hálfleik.

Fyrstu tvö færi Everton komu á 5. og 6. mínútu, bæði voru þau skallafæri eftir aukaspyrnu frá Gylfa. Fyrri skallann átti Keane en þann seinni Tosun — en í bæði skiptin fór boltinn beint á markvörð. Southampton fengu tækifæri á 10. mínútu, einnig eftir aukaspyrnu og skalla en Charlie Austin hitti ekki markið.

En Everton skoraði mark upp úr þriðju aukaspyrnunni, sem var frábærlega útfærð og kom pottþétt beint af æfingasvæðinu. Allir bjuggust við háum bolta á fjærstöng frá Gylfa en í staðinn tók Schneiderlin hlaup að bolta, fékk hann fljótt frá Baines og sendi í fyrstu snertingu stungusendingu inn fyrir vörn Southampton, sem vissu ekkert hvaðan á þá stóð veðrið. Walcott tók við boltanum, tók eina snertingu til að koma sér í dauðafæri hægra megin í teig, einn á móti markverði og lagði boltann framhjá honum. 1-0 Everton.

Örskömmu síðar fengu Everton enn eina aukaspyrnuna og aftur náði Gylfi að finna skallann á Keane upp við mark, sem náði ágætum skalla en aftur fór boltinn beint á markvörð.

Schneiderlin fór svo út af meiddur á 23. mínútu eftir samstuð. Reyndi að hlaupa það af sér en gat ekki og Davies kom inn á fyrir hann. Vonandi meiðslin ekki alvarleg.

Southampton hefðu átt að skora á 25. mínútu og í raun ótrúlegt að þeim tókst það ekki. Fengu boltann utan teigs og skutu að marki þegar allir bjuggust við sendingu fyrir mark. Skotið fast og erfiður bolti í loftinu en beint á Pickford sem náði þó ekki að halda boltanum og það setti Danny Ings í algjört dauðafæri upp við mark, einn á móti markverði. En Pickford bætti fyrir mistökin og sýndi í leiðinni algjörlega frábær viðbrögð — og frábæra markvörslu — og varði skotið frá Ings í neðanverða slána og út.

Ings komst aftur í dauðafæri upp við mark skömmu síðar en Pickford sá aftur við honum og náði að loka á hann. Southampton vildu fá víti, vildu meina að Pickford hefði fellt hann, en manni sýndist þetta bara vera frábær markvarsla.

En það tók Richarlison aðeins hálftíma að skora sitt fyrsta mark á Goodison Park og það mark skoraði hann með skalla. Einfalt mark… Walcott, rétt utan við teig hægra megin, sendi háa sendingu fyrir mark, beint á kollinn á Richarlison sem skoraði auðveldlega með varnarmanninn ýtandi í bakið á sér. 2-0 Everton og Richarlison nú búinn að skora þrjú mörk í tveimur leikjujm!

Ings fékk svo sitt þriðja færi á 34. mínútu eftir hornspyrnu og frían skalla en boltinn framhjá fjærstöng.

En þannig stóðu leikar í hálfleik. 2-0 fyrir Everton.

Það var ljóst að Southampton myndu koma grimmir og einbeittir til leiks í seinni hálfleik og það varð raunin. Southampton betra liðið framan af. Þeir fengu dauðafæri strax á upphafsmínútunum þegar Charlie Austin náði skoti upp við mark eftir að hafa fengið lága sendingu frá vinstri kanti en Michael Keane náði að blokkera skotið í horn.

En Southampton náðu loks að minnka muninn á 54. mínútu eftir horn. Everton stilltu upp í zonal marking og skildu Danny Ings eftir einan og óvaldaðan upp við mark og hann fékk að sjálfsögðu boltann eftir flick-on úr horninu og skoraði auðveldlega. 2-1 Everton.

Everton kom boltanum í netið á 66. mínútu eftir algjörlega frábærlega útfærða sókn hjá Gylfa, Tosun og Walcott, sem ristu vörn Southampton upp á gátt og Walcott skoraði. Tosun hins vegar dæmdur rangstæður í undirbúningnum. Mjög tæpt en líklega rétt.

Örfáum augnablikum síðar náðu Gylfi og Walcott aftur að opna vörn Southampton upp á gátt, með nettu þríhyrningaspili en Walcott, einn á móti markverði, hitti ekki rammann. Hefði svo sannarlega átt að skora þar.

Calvert-Lewin kom svo inn á fyrir Tosun á 73. mínútu og Niasse fyrir Richarlison á 85. mínútu og þeir tveir náðu að koma með nokkra innspýtingu í sóknarleik Everton, sem var farin að þreytast nokkuð undir lokin. Sérstaklega var Niasse öflugur og lét varnarmenn Southampton finna fyrir sér og Calvert-Lewin fljótur á kantinum.

Fimm mínútum bætt við og nokkuð taugatrekkjandi mínútur tóku við fyrir áhorfendur, en Everton hirti öll þrjú stigin í dag með flottum 2-1 sigri á Southampton.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Coleman (7), Holgate (8), Keane (7), Baines (7), Schneiderlin (6), Gueye (6), Walcott (8), Sigurdsson (8), Richarlison (8), Tosun (7). Varamenn: Davies (7), Calvert-Lewin (7).

Richarlison maður leiksins en leikmenn Southampton fengu slæma útreið í einkunnagjöfinni, enginn með yfir 6 í einkunn og mest um fimmur.

14 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Við vinnum þennan leik 3-1

  2. Ari S skrifar:

    Virkilega góður fyrri hálfleikur hjá okkar mönnum. Pressan góð og fyrra markið hjá Walcott gott eftir frábærlega vel útfærða aukaspyrnu. Ég hálfpartinn missti af seinna markinu því ég var í símanum.

    Vonandi heldur þetta bara áfram í þeim seinni.

  3. Finnur skrifar:

    Skemmtilegt komment frá Liverpool Echo…

    Yet [Walcott’s miss] would have been the icing on the cake for Sigurdsson who was too much for Southampton to handle. He pressed aggressively, he ran relentlessly, used the ball well, won free-kicks, delivered pin-point set-piece deliveries and played like a club record signing should do.

    Richarlison’s remarkable start to life at Everton will grab the headlines again, understandably so perhaps, but Sigurdsson was the real star here.

    A player who wasn’t used correctly by Ronald Koeman or Allardyce last season, now looks to have a manager who knows exactly how to get the best out of him.

    Sigurdsson looks made for the way Silva wants to play as well. And it’s a way of playing that sits well with the Everton fans.

    It was good enough to keep Moshiri out of his seat.

  4. Finnur skrifar:

    Gylfi og Pickford í liði vikunnar að mati BBC:
    https://www.bbc.com/sport/football/45241638

  5. Ari G skrifar:

    Flottur fyrri hálfleikur hjá Everton. Walcot og Gylfi mjög góðir mun betri en í leiknum á móti Wolves. Finnst vörnin ekki alveg nógu samfærandi en sóknin er mun betri vill spila með 1 varnarsinnaðan miðjumann í vetur. Mér finnst Davids ekki heilla mig vonandi getur Bernard spilað á miðjunni með Gylfa í vetur. Héld að það sé skynsamlegt að henda Keene á bekkinn og jafnvel Holgate sem mér finnst vera betri leikmaður en Keene.

  6. Finnur skrifar:

    Nokkuð er búið að ræða hvort Pickford hafi átt að fá rautt spjald í leiknum en Dermot Gallagher var ekki á þeirri skoðun, frekar en flestir aðrir en Mark Hughes, stjóri Southampton.
    http://www.skysports.com/football/news/11671/11477502/ref-watch-kenedy-kick-is-a-red-card-offence-says-dermot-gallagher

    Athygli mína vakti þó að Gallagher taldi að „rangstöðumarkið“ sem Everton skoraði hafi verið löglegt mark.

  7. Elvar Örn skrifar:

    Heilt yfir fínasti leikur af hálfu Everton.

    Everton mikið betri í þessum tveimur fyrstu leikjum heldur en á undirbúningstímabilinu.

    Mo Besic var að fara til Middlesbrough á lánssamningi.
    Ansi margir farnir á stuttum tíma frá Everton.

    Everton mætir Bournemouth á útivelli í næstu umferð en þeir eru búnir að vinna báða sína leiki og eru því með 6 stig.

  8. Georg skrifar:

    Fannst Everton mjög flottir í þessum leik, fyrir utan að gleyma sér í dekkningunni í markinu hjá Southampton. Everton hefði getað skorað fleiri mörk og voru hætturlegir fram á við.

    Gylfi var ótrúlega flottur í leiknum og að margra mati besti maður vallarins. Fjölmiðlar úti búnir að hrósa honum mikið og tala um að loksins sé hann notaður á réttum stað, í holunni fyrir aftan framherjann. Það var enginn sem bjó til eins mörg færi í umferðinni eins og Gylfi, 6 færi.

    Nú mætum við liði sem er búið að vinna báða leikina og verður gaman að sjá hvernig liðið spilar gegn Bournemouth. 3 stig þar væru vel þegin.

  9. Orri skrifar:

    það er ekkert farið að reyna á getu liðsins ennþá en vonandi stendur það undir okkar væntingum.

  10. Elvar Örn skrifar:

    Leikur Everton og Rotherham í lok mánaðarins í deildarbikarnum verður með VAR dómgæslu, áhugavert.

  11. Diddi skrifar:

    http://evertondirect.evertonfc.com/stores/everton/en Flottur þriðji búningur sem liðið skartar í dag. Vonandi heppnis 🙂