Wolves vs Everton

Mynd: Everton FC.

Fyrsti leikur Everton á nýju tímabili 2018/19 er á morgun, klukkan 16:30, á útivelli gegn Úlfunum.

Ekki láta blekkjast varðandi það hversu stórt verkefni þetta er, þó Úlfarnir séu nýliðar í Úrvalsdeildinni í ár — þeir unnu ensku B deildina mjög örugglega og hafa styrkt sig verulega í nýliðnum félagaskiptaglugga. Ekki bætir heldur úr skák að þeir koma til með að fylla völlinn af arfavitlausum stuðningsmönnum sem vart kunna að tapa (ennþá) og skapa frábæra stemmningu, þannig að Everton liðið þarf að eiga góðan dag til að sigra. En við vonumst samt eftir sigri.

Það á eftir að koma í ljós hvernig nýju menn Everton reynast, en Everton náði þó í félagaskiptaglugganum að snúa svartsýni stuðningsmanna yfir í smá von að eitthvað væri hægt að gera á tímabilinu. Ennþá erum við þó ekki með slúttara sem hefur sýnt að hann getur klárað leiki viku eftir viku, en eins og margoft hefur komið fram er markaðurinn mjög erfiður og ekki heiglum hent að reyna að næla sér í heimsklassa framherja.

Það er jafnframt til of mikils ætlast að nýju mennirnir geri gæfumuninn á morgun, flestir hafa ekki spilað einn einasta leik með liðinu. Þar að auki er einn meiddur (Gomes) og einn búinn að jafna sig á meiðslum (Bernard) en ekki náð að spila margar mínútur á almanaksárinu 2018 — hvað þá náð mörgum æfingum með aðalliði Everton. Það er því ólíklegt að nokkur þeirra sem fenginn var til liðs við Everton í gær og í fyrradag verði í byrjunarliðinu en aldrei að vita hvað gerist þegar líður á tímabilið.

Líkleg uppstilling (spái 4-2-1-3): Pickford, Baines, Keane, Jagielka/Zuma (eða jafnvel Mina), Coleman, Schneiderlin, Gana, Richarlison, Gylfi, Walcott, Tosun.

Einhver slæðingur af leikmönnum er meiddur, þar á meðal Holgate, McCarthy og (að mig minnir) Bolasie. Er nokkuð viss um að hafa séð fjórða leikmanninn nefndan á sjúkralistanum — en man ekki eftir fleirum og Silva var ekki spurður út í það á fundi með blaðamönnum.

Ykkar spá fyrir leikinn og uppstillingu liðs?

2 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Ágætis lesning hjá Toffeweb á fyrsta leik tímabilsins…
    https://www.toffeeweb.com/season/18-19/news/37060.html

  2. Eirikur skrifar:

    Pickford

    Baines, Keane, Jagielka,Coleman

    Schneiderlin, Gylfi, Gueye

    Richarlison, Tosun,Walcott