Everton – Brighton 2-0

Mynd: Everton FC.

Everton vann góðan sigur á Brighton í dag og lyfti sér upp töfluna, yfir Brighton og Watford, en Everton er nú í 9. sæti.

Uppstillingin: Pickford, Baines, Jagielka, Keane, Coleman, Rooney, Davies, Bolasie, Gylfi, Walcott, Tosun.

Varamenn: Robles, Martina, Niasse, Klaassen, Calvert-Lewin, Holgate, Baningime.

Everton stillti upp í 4-2-3-1 með Gylfa í holunni fyrir framan Davies og Rooney. Tosun frammi. Brighton í 4-4-1-1.

Everton voru mun meira með boltann í fyrri hálfleik og náðu á köflum að setja góða pressu á mark Brighton. Uppskáru nokkur hálffæri og horn aðallega.

Everton átti tvö færi á fyrstu 10 mínútunum, það fyrra skot frá Coleman sem fór rétt framhjá en það seinna skalli á mark frá Jagielka eftir hornspyrnu Gylfa, en skallinn of laus og beint á markvörð Brighton. Bolasie átti einnig færi eftir hornspyrnu um 10 mínútum síðar, slengdi fæti í boltann sem fór rétt framhjá stönginni. Líklega besta færið í fyrri hálfleik.

Brighton áttu sitt fyrsta skot á mark á um 25. mínútu, utan af velli, en skotið beint á Pickford.

Bolasie hefði svo getað laumað boltanum inn eftir aukaspyrnu stuttu síðar þegar ár bolti barst inn í teig Brighton eftir aukaspyrnu og hann náði að koma boltanum framhjá markverði Brighton en skallaði rétt framhjá fjærstöng.

0-0 í hálfleik.

Byrjunin á seinni hálfleik var hálf slöpp, liðin mikið að missa boltann en það kom í hlut Everton að höggva á hnútinn með marki. Markið kom eftir fínan undirbúning frá Bolasie, sem sendi háa sendingu fyrir frá vinstri á fjærstöng og Bong skoraði sjálfsmark þegar hann slengdi fæti í boltann með Walcott í bakinu, tilbúinn til að setja boltann í netið. 1-0 fyrir Everton.

Bolasie endurtók svo leikinn, nokkrum mínútum síðar, en færið of þröngt fyrir Walcott.

Walcott fór svo út af meiddur á 73. mínútu — Calvert-Lewin inn á. Vonandi ekkert alvarlegt hjá Walcott.

Aðeins þremur mínútum síðar var Everton komið í 2-0 með marki frá Tosun. Baines átti heiðurinn af því, með flottu þríhyrningaspili komst hann inn í teig Brighton og sá Tosun óvaldaðan og sendi á hann. Tosun þakkaði fyrir sig með því að þruma í neðanverða slána og inn. 2-0 fyrir Everton. Fyrsta mark Tosun á Goodison Park.

Holgate inn á fyrir Bolasie strax í kjölfarið en lauknum lauk stuttu síðar þegar Knockaert lét reka sig út af fyrir fáránlega tveggja fóta tæklingu á Baines, alveg upp við endalínu.

Klaassen inn á á 84. mínútu fyrir Davies.

Everton fékk svo víti á 86. mínútu þegar Duffy braut á Calvert-Lewin inni í teig og Rooney á punktinn. En markvörður varði frábærlega fast skot niðri í vinstra hornið.

Sanngjarn 2-0 sigur í höfn, einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Coleman (7), Jagielka (7), Keane (6), Baines (7), Sigurdsson (6), Davies (6), Walcott (7), Rooney (6), Bolasie (6), Tosun (7). Varamenn: Calvert-Lewin (6). Brighton menn með einkunnir á bilinu 4-6.

5 Athugasemdir

 1. Finnur skrifar:

  Líst bara nokkuð vel á þessa uppstillingu. Vörnin svolítið afturhvarf til fortíðar með Baines, Coleman og Jagielka saman í byrjunarliðinu. Gaman að sjá hvernig Keane spjarar sig með þá sér við hlið, en ekki þessa tifandi tímasprengju sem Ashley Williams er. Gaman líka að sjá Gylfi í holunni, eins og allavega Everton Twitter síðan staðsetur hann, með Walcott og Bolasie sér við hlið. Rooney djúpur.

 2. Ari S skrifar:

  Glæsilegt að ná í þrjú stig og alveg meiriháttar að sjá Baines spila og eiga stoðsendingu fyrir mark hjá Tosun, hvað annað?

  Annars vildi ég láta ykkur vita sem viljið vita að ég stóð við það sem ég sagði að ég myndi ekki horfa á leikinn gegn Brighton & Hove Albion. Reyndar laumaðist ég til að fylgjast með á livescore.com og það er sennilega ástæðan fyrir því að Rooney skoraði ekki úr víti í dag.

  En umfram allt, glæsilegt að ná í þrjú sitg og mér sýndist á statistík úr leiknum í fyrri hálfleik að Everton hafi vierð 70% með botlann og átt 8 hornspyrnur á sama tíma og Brighton hafi átt 8 útspörk. Eitthvað að gerast á vallarhelming Brighton þessar mínútur?

  Kær kveðja, Ari.

 3. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Góður sigur á slöku liði Brighton.
  Vonandi náum við fljótt í þessi 3 stig sem vantar uppá 40 stigin og þá getum við sparkað stóra Sam og litla Sam og þurfum vonandi aldrei að sjá þá aftur.

%d bloggers like this: