Everton – Crystal Palace 3-1

Mynd: Everton FC.

Uppstillingin: Pickford, Martina, Mangala, Keane, Coleman, Gana, Rooney, Davies, Gylfi, Walcott, Niasse.

Varamenn: Robles, Schneiderlin, Williams, Bolasie, Tosun, Calvert-Lewin, Kenny.

Fyrsta færi leiksins fengu Crystal Palace eftir mistök Mangala þegar hann sendi of stutta sendingu aftur á Pickford. Pickford langt út úr teig náði boltanum á undan sóknarmanni Palace en missti boltann of langt frá sér og Johan Cabaye reyndi skot af löngu í opið mark en skotið framhjá.

Everton svaraði strax með flottri sókn þar sem Gylfi bjó til pláss fyrir sig og náði flottu skoti sem fór rétt framhjá.

Og eftir þetta var Everton með undirtökin og mikið meira með boltann en vantaði að nýta yfirburðina betur og skapa færi. Hornin fóru öll á hausinn á fyrsta varnarmanni Palace, aukaspyrnurnar allar í vegginn. Palace ekki að skapa mikið hinum megin — einu færi þeirra voru færð þeim á silfurfati þegar varnarmenn Everton gerðu mistök.

Gana tók af skarið á 26. mínútu eftir hreinsun út úr teig, lék á leikmann Palace langt utan teigs og hlóð í þrumuskot sem Hennessay í marki Palace þurfti að hafa sig allan við að verja.

Mangala var svo skipt út af á 44. mínútu vegna meiðsla og Williams inn á fyrir hann.

0-0 í hálfleik. Coleman út af í hálfleik, Kenny inn á fyrir hann.

Það tók Everton aðeins 45 sekúndur að setja mark í seinni hálfleik! Mjög langt útspark frá Pickford á Niasse og í smá tíma leit út fyrir að ekkert kæmi úr því en boltinn var laus í smá stund og Gylfi þar fyrstur í boltann. Með frábærri fyrstu snertingu með vinstri fæti opnaði hann fyrir sig skotfæri utan teigs. Ekki brást honum bogalistin, boltinn breytti smá um stefnu af varnarmanni Palace, en ekki mikið samt. Boltinn í netið vinstra megin, óverjandi fyrir Henessey. Sjötta mark Gylfa á tímabilinu. 1-0 Everton.

Og Niasse bætti við marki á 51. mínútu en Martina var upphafsmaðurinn að því. Martina vann nefnilega boltann vel af varnarmanni inni í vítateig Palace og sendi fyrir mark þar sem Niasse var á fjærstöng og fékk auðveldan skalla, óvaldaður, og skallaði inn við nærstöng. 2-0 fyrir Everton.

Palace menn færðu lið sitt framar við þetta og settu pressu á Everton. Benteke var næstum búinn að minnka muninn á 56. mínútu þegar há sending barst inn í teig en hann skallaði rétt svo framhjá stöng. Besta færi Palace í leiknum fram að því en þeir fengu svo enn betra færi á 65. mínútu þegar Sörloth fékk skallafæri nálægt marki eftir fyrirgjöf frá vinstri. Pickford þó vandanum vaxinn og varði glæsilega.

En pressa Crystal Palace entist ekki lengi og Everton bætti við marki á 75. mínútu, eftir smá darraðadans inni í teig Palace. Skot frá Niasse blokkerað af varnarmanni, en Gylfi fljótur að hugsa og náði að senda stutt fyrir mark þegar markvörður kom út á móti honum. Boltinn beint til Davies sem, af stuttu færi, þrumaði inn. 3-0 Everton.

Schneiderlin var skipt inn á fyrir Gana á 80. mínútu. Áhorfendur ekki sáttir, enda frammistaða þess fyrrnefnda búin að vera döpur undanfarið.

Ashley Williams gaf Palace svo víti stuttu síðar þegar hann fékk boltann í hendurnar í skoti frá Palace manni innan teigs. Williams með hendurnar yfir hausnum og John Moss, dómari, í engum vafa. Fast víti vinstra megin frá Milivojeic sem Pickford varði en krafturinn of mikill og boltinn lak inn. 3-1.

En það reyndust lokatölur.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Martina (6), Coleman (6), Keane (6), Mangala (6), Gueye (8), Davies (7), Rooney (7), Walcott (7), Sigurdsson (7), Niasse (7). Varamenn: Kenny (6), Williams (6). Hjá Palace var einn með meira en 6 (Sörloth) en annars eiginlega allir (nema tveir með fimm) sem fengu 6 í einkunn.

Í lokin viljum við minna á Íslendingaferðina að sjá Everton mæta Newcastle! Ekki missa af því!

20 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Ojæja! Schneiderlin og Williams eru amk ekki í byrjunarliði, sem er jákvætt, hins vegar eru okkar tveir bestu miðverðir ekki einu sinni í hópnum, sem er heimskulegt.
  Keane er með sjálfstraustið í molum og Mangala er bara ekki góður, ég breyti spánni minni í 1-5 og Pickford verður besti maður Everton í dag.

 2. Eirikur skrifar:

  Eru bestu miðverðirnir okkar í dag Jagielka og Holgate?
  Held að við vinnum 1-0 í dag, eða allavega vona það 🙂

 3. þorri skrifar:

  getur einhver sagt mér á hvaða netsíðu er hægt að sjá leikinn okkar í dag

 4. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Alveg er ég viss um að síðasta skipting okkar í leiknum verður Schneiderlin fyrir Rooney, Walcott eða Niasse.

 5. Georg skrifar:

  Flottur seinni hálfeikur hjá okkar mönnum. Það er í raun óskyljanlegt að Big Sam hafi gert allar þessar breytingar fyrir Arsenal leikinn. Þetta bull að Rooney og Gylfi geti ekki spilað saman gegn stóru liðnium finnst mér vitleysa.

  Ánægður að hafa Gana þarna á miðjunni án Schneiderlin, hafa meira sóknarsinnaða miðjumenn í Davies og Rooney. Núna eru einungis 2 stig í 7. sætið.

  Næstu 4 leikir eru Watford úti, Burnley úti, Birghton heima og Stoke úti. Dauðafæri að koma sér í 7. sætið.

 6. Finnur skrifar:

  Þetta var okkur hollt og gott! 🙂

 7. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Fyllilega verðskuldaður sigur í dag.
  Hvað er málið með Tosun?? Ef hann er ekki nógu góður til að koma inn á í stöðunni 3-0, hvenær þá?
  Og hvernig á hann að venjast enska boltanum sitjandi á bekknum??
  Ég skil ekkert í þessu og er farið að gruna að menn hafi áttað sig á því að þeir hafi borgað allt of mikið fyrir allt of lítið.

  • Gestur skrifar:

   Eins og þegar Everton keypti Niasse?

   • Ingvar Bæringsson skrifar:

    Einmitt.
    Hann hefur reyndar staðið sig vel á tímabilinu en við borguðum of mikið fyrir hann.

 8. Gestur skrifar:

  Ánægður með sigur í dag. Skil samt ekki í Sam að hafa sagt það væri eðlilegt að Everton ætti ekki átt skot á markið í leik vegna þessa að það vantaði framherja. En hvað svo, það er keyptur framherji og hann hafður á bekknum leik eftir leik og framherji sem Everton hefur haft í tvö ár er bara að standa sig mjög vel. Ég skil ekki hvernig hlutunum er stjórnað hjá Everton og það er eitthvað mjög skrítið í gangi þar. En flott að skora þrjú í dag.

 9. Gunnþór skrifar:

  Frábær sigur flottur seinni hálfleikur sammála að það hafa verið teknar margar skritnar ákvarðanir þetta tímabil.

 10. Finnur skrifar:

  Og Everton U18 að taka annað sætið í Úrvalsdeild liða U18 með því að vinna Liverpool U18 3-1. Þrátt fyrir leiðinlegt veður þá er þetta að verða bara ágætis helgi sem við erum að verða vitni að hér, ef þú spyrð mig…

 11. Elvar Örn skrifar:

  Aðeins Harry Kane, Aguero og Salah eru með færri mínútur á milli marka heldur en Niasse. Svo það er ekkert svakalega skrítið að hann sé valinn í stað Tosun. Liggur amk ekkert á að henda honum í framlínuna eins og staðan er í dag.
  Tosun hefði líklega fengið einhverjar mínútur í gær ef Mangala, Coleman og Gana hefðu ekki meiðst. Erfitt þegar allar skiptingar verða vegna meiðsla.

  En váá hvað Mangala var verstur í gær, já eins og gegn Arsenal, var ansi feginn þegar hann meiddist.

  Verst að Coleman verður kannski aðeins frá en þó eru 2 vikur í næsta leik, spái því að hann spili ekki þann leik.

  Vil svo að Klaassen fái amk að taka einhvern þátt áður en leiktíðin er öll.

  Gylfi var flottur í gær, sem og Walcott og Gana. Martina með stoðsendingu annan leikinn í röð.

  Everton á séns á að stíga upp töfluna í næstu leikjum sem eru gegn liðum fyrir neðan okkur.

 12. Orri skrifar:

  Ég er farinn að halda að þeir í bítinu á Bylgjuni fari með rétt mál þeir sögðu að Sammi væri ekkert að spá í stig á móti efri liðunum hann héldi að það myndi duga að fá stig frá liðunum í neðri hlutanum tol að hanga uppi.

  • Ingvar Bæringsson skrifar:

   Ég er ansi hræddur um að það sé þannig.
   Það er algjörlega óþolandi, ef svo er, að þjálfarinn stilli liðinu upp með það í huga að það eigi ekki möguleika á sigri og hugsi bara um að reyna að tapa með sem minnstum mun eða í besta falli að hanga á jafntefli.

   • Orri skrifar:

    Sæll Ingvar.Það er bara ekki að virka hjá honum 5- á móti Arsenal það er ekki lítið tað það er burst.

   • Ari S skrifar:

    Ég gæti faðmað þig fyrir að segja þetta Ingvar, ég er algerlega sammála þér.

 13. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Djöfull eru helgarnar leiðinlegar þegar Everton er ekki að spila.

%d bloggers like this: